NÝGERÐUR kjarasamningur milli Samstöðu í Húnavatnssýslum og Samtaka atvinnulífsins hefur verið felldur í atkvæðagreiðslu, en hins vegar samþykktur hjá Fram og Öldunni í Skagafirði. Boðað verkfall Samstöðu hefst því 15.

NÝGERÐUR kjarasamningur milli Samstöðu í Húnavatnssýslum og Samtaka atvinnulífsins hefur verið felldur í atkvæðagreiðslu, en hins vegar samþykktur hjá Fram og Öldunni í Skagafirði. Boðað verkfall Samstöðu hefst því 15. maí nema samningar takist fyrir þann tíma. Öll þessi félög felldu kjarasamning Verkamannasambandsins og SA frá miðjum apríl og var í framhaldinu gerður viðbótarsamningur við félögin í byrjun mánaðarins.

Atkvæði féllu þannig hjá Samstöðu að 73 sögðu nei og vildu fella samninginn eða 57% og 52 eða 40% vildu samþykkja samninginn. Auðir seðlar voru 4 eða 3% og enginn seðill var ógildur. Á kjörskrá voru 442 og atkvæði greiddu 129 eða 29%.

Hjá verkalýðsfélaginu Fram og verkakvennafélaginu Öldunni í Skagafirði fór atkvæðagreiðslan þannig að já sögðu 54 eða 61% og nei 33 eða 37%. Tveir seðlar voru auðir. 309 voru á kjörskrá og greiddu 96 atkvæði eða 31%.

Fundur þegar líður á vikuna

Þórir Einarsson ríkissáttasemjari sagði í samtali við Morgunblaðið í gærkveldi, að boðaður yrði fundur með deiluaðilum þegar liði á vikuna, þar sem farið yrði yfir stöðuna.