Ekki get ég orða bundist lengur yfir því fjölmiðlafári sem verið hefur í vetur um Ánastaði og engan endi ætlar að taka.

Ekki get ég orða bundist lengur yfir því fjölmiðlafári sem verið hefur í vetur um Ánastaði og engan endi ætlar að taka. Og virðast þeir sem hæst hafa standa sig verst í að hugsa um og fóðra hrossin eins og þau þarfnast miðað við ástand þeirra þegar þeir tóku við þeim.

Umhyggju Líneyjar hefði ég viljað sjá fyrr, enginn úr hennar fjölskyldu hefur komið og leitað að hrossum þeim sem týnd eru og enga hjálp fékk ég frá þeim þegar ég óskaði eftir henni, því landið er stórt sem leita þurfti. Hefði hún haft áhuga á merinni sinni vissi hún nú hvar hún er, en hún hefur aldrei komið til þess að líta á hana þann tíma sem hún hefur verið á Ánastöðum.

Albert Ríkharðsson kom hins vegar reglulega og athugaði með sín hross og vissi hann alltaf nákvæmlega í hvaða ástandi þau voru. Sjálfur mat ég ástand þeirra um miðjan desember þannig að þau yrði að taka á hús, sem ég gerði, þau voru búin að vera á húsi í um einn og hálfan mánuð þegar þau fóru suður, og voru, eins og Albert sagði sjálfur, á góðum batavegi og hef ég vitni að þeim orðum hans. En aldrei sá ég fóðrið sem hann sagðist vera búinn að senda mér. Haft var eftir sýslumanni 4. maí í DV að vitað væri að hross hefðu drepist og verið urðuð. Sýslumaður veit betur, um er að ræða þrjú hross, tvö heimahross sem felld voru vegna aldurs og eitt aðkomuhross var fellt í samráði við eiganda vegna langvarandi tannrótarbólgu en hann var 18 til 20 vetra.

Eitt hross hefur fundist dautt en það er gömul meri sem ég hafði saknað síðan í byrjun september.

Ef einhverjir hafa þurft að fella hross frá Ánastöðum vegna vanfóðrunar eða veikinda vegna vanfóðrunar ættu menn að skoða málið mjög vel, sjálfur átti ég tvö hross sem voru hvað verst á sig komin af öllum þeim hrossum sem hér voru þegar smalað var í febrúar. Þau hafa nú náð sér mjög vel í fóðrun hjá mér og eru fullfrísk og líta þokkalega út og segir það mér að menn ættu að líta sér nær og vanda fóðrun og umhirðu sinna hrossa betur.

Persónulega mundi ég fara varlega í það að fylgja ráðum og láta mann meðhöndla hrossin mín sem hefur oftar en einu sinni orðið uppvís að alvarlegum afglöpum í starfi, bæði hvað varðar meðhöndlun og mat á ástandi hrossa.

Ekki ætla ég að draga neitt úr ábyrgð minni á því hvernig komið var fyrir þessum hrossum, en hefðu allir hesteigendur sýnt sömu viðbrögð og flestir gerðu þegar í ljós kom í endaðan nóvember að hross voru farin að leggja af og hugað að sínum hrossum þá hefði ástand þeirra aldrei orðið svona slæmt.

Þess má einnig geta að um áramót þegar allt var á kafi í snjó missti ég öll hrossin í burtu út um allar jarðir og flóa og gekk mjög illa að halda hagagönguhrossunum heima þrátt fyrir að ávallt voru opnar rúllur rétt hjá hesthúsunum. Þó svo heyið væri ekki gott var ávallt nóg af því, og voru þau hross ekki illa á sig komin sem á annað borð tolldu heima við.

Þeir hesteigendur sem enn áttu hross hjá mér eftir áramót vissu af þessu vandamáli en sýndu engan vilja til að hjálpa mér að ná hrossunum heim.

Hesteigandi, sem þykir vænt um hesta sína, hlýtur að sjá til þess að þeir hafi ávallt nóg að borða og ekkert ami að þeim, hvar sem þeir eru.

Vona ég svo sannarlega að sýslumaður standi við orð sín og taki á þessu máli af fullum þunga og taki til allra þátta málsins.

SÆMUNDUR T. HALLDÓRSSON,

bóndi, Ánastöðum.

Frá Sæmundi T. Halldórssyni: