½ Leikstjóri: Robert Altman. Handrit: Anne Rapp. Aðalhlutverk: Glenn Close, Julianne Moore, Charles Dutton og Liv Tyler. (115 mín.) Bandaríkin, 1999. Skífan. Öllum leyfð.

Í þessari nýjustu mynd sinni slær leikstjórinn Robert Altman á léttari strengi en oft áður. Um er að ræða litla fjölskyldusögu úr Suðurríkjunum, sem snýst upp í sposka morðráðgátu. Segir þar frá ekkjunni Jewel May, sem ákveður að elta eiginmann sinn yfir móðuna miklu og fremur sjálfsmorð. Hin stjórnsama systurdóttir hennar, Camille, reynir hins vegar að láta líta út fyrir að um morð hafi verið að ræða, til að forða fjölskyldunni frá skömm. Lögreglan hefur þá formlega rannsókn á þessu dularfulla máli, sem er hægara sagt en gert í smábæ þar sem allir þekkja alla.

Þó svo að þessi kvikmynd sé dálítið ólík djúphyglum kvikmyndum leikstjórans, má vel þekkja Altman-stílinn. Líkt og í mörgum myndum hans er sagan byggð upp í kringum safn persóna, sem hver um sig fær nægilegt rými til að áhorfandinn geti kynnst henni. Með næmri leikstjórn sinni skapar Altman lifandi heild sem krydduð er dásamlegri kímni, enda byggð á hreint ágætu handriti. Eini stóri gallinn á myndinni er hins vegar persónan Camille sem færir sig talsvert upp á skaftið eftir því sem á líður. Um er að ræða ósannfærandi og ýkta persónu sem ofleikin er af Glenn Close. Myndin er því betri framan af, en niðurlagið veldur vonbrigðum.

Heiða Jóhannsdóttir