"Milli Dada og tónlistar sem byggir á frjálsum spuna (free improvisation) eru allnokkur tengsl þar sem hvor um sig leggur sig eftir óhefluðum og ómótuðum krafti," segir Úlfar Ingi Haraldsson um tónleika slagverksleikarans Vanessa Tomlinsons og ba
"Milli Dada og tónlistar sem byggir á frjálsum spuna (free improvisation) eru allnokkur tengsl þar sem hvor um sig leggur sig eftir óhefluðum og ómótuðum krafti," segir Úlfar Ingi Haraldsson um tónleika slagverksleikarans Vanessa Tomlinsons og ba
Tónleikar slagverksleikarans Vanessa Tomlinsons og bandaríska píanóleikarans og tónskáldsins Eriks Griswolds verða í Norræna húsinu á fimmtudag kl. 20:30. Verður þar blandað saman framúrstefnu í tónlist og frjálsum spuna. Af þessu tilefni fjallar Úlfar Ingi Haraldsson um tengsl Dada og tónlistar.

LIST Dada-istanna í kjölfar fyrri heimsstyrjaldarinnar var nk. "anti"-list. Hún leitaði eftir að grafa undan þeim hugmyndum sem fólk hafði um list með fáránleika sínum og sláandi fyrirsögnum. Í huga Dada-istans og frumkvöðuls í "collage", Hans Arp, var tilgangur Dada að endurheimta eitthvert náttúrulegt og órökrænt ástand. Dada var "náttúran gegn listinni" eða eins og stefnufélagi hans Francis Picabia skrifaði, var hin sanna list ekki gerð af listamönnum heldur einfaldlega af venjulegu fólki. Við að setja sig á háan stall varð list af sama meiði og sú græðgi og efnishyggja sem hafði verið undirrót heimsstyrjaldarinnar.

Milli Dada og tónlistar sem byggist á frjálsum spuna (free improvisation) eru allnokkur tengsl þar sem hvor um sig leggur sig eftir óhefluðum og ómótuðum krafti, hinu náttúrulega sem mögulega væri hægt að leysa úr læðingi. Í frjálsum spuna er þó gjarnan stutt í fyrirmyndir sem mótast af reynslu og bakgrunni hljóðfæraleikarans og verður því aldrei sagt að frjáls spuni sé fullkomlega frjáls, ekki fremur en Dada-stefnunni tókst að gera út af við list og þar með sjálfa sig því Dada varð jú list.

Aldrei raunveruleg stefna

Dada varð aldrei raunveruleg stefna í tónlist og þá ekki fyrr enn löngu síðar. En til verk frá því um 1923, Ursonate eftir Þjóðverjann Kurt Schwitters (1887-1948), sem að hafði nokkrum áratugum síðar áhrif á framúrstefnuna í tónlist og það sem kallað hefur verið "performance art". Verkið byggist á ljóði eftir félaga hans Raoul Hausmann og er, eins og Hausmann sagði, fullkomlega abstrakt og efniviðurinn tákn og hljóð hljóðfræðinnar. Þetta er hljóðfræðilegt ljóð sem flutt er á þann hátt að merking, oft einsog áríðandi skilaboð, er gefin í skyn með hrynjandi og tónhæð raddarinnar án þess að orðin hafi í raun nokkra merkingu. Verkið er ekki ritað á hefðbundinn máta tónlistarinnar heldur eru textaleiðbeiningar um hvernig flutningi skuli háttað. Gerð er skýr grein fyrir forminu og ákveðnir hlutar einkenndir með orðum úr formfræði tónlistarinnar s.s. tema, framsaga, úrvinnsla o.s.frv. Um leið er ákveðin ádeila og háðung á akademísk tónlistarform því ekkert var Dada meir á móti skapi en "lærð" list.

Það gefst nú tækifæri til að heyra verk Schwitters því hér á landi eru stödd ástralski slagverksleikarinn Vanessa Tomlinson og bandaríski píanóleikarinn og tónskáldið Erik Griswold en þau munu kynna og flytja eigin verk og annarra er blanda saman áhrifum framúrstefnunnar í tónlist, "performance art", "kinetic art" og frjálsum spuna. Flutt verður einnig verkið "Groupings" fyrir slagverk eftir Úlfar Inga Haraldsson.

Dúettinn hefur komið fram í Bandaríkjunum, Ástralíu, Asíu, og Evrópu en er nú öðru sinni á tónleikaferðalagi um Bandaríkin og Evrópu. Meðlimir hafa báðir lokið doktorsprófi í tónlist frá University of California þar sem kennarar þeirra voru m.a. tónskáldið Roger Reynolds, slagverksleikarinn Steven Schick og spunalistamaðurinn George Lewis.

Tónleikarnir eru styrktir af Punkt.

Höfundur er tónskáld.

Höf.: Höfundur er tónskáld