LEIÐTOGAR serbnesku stjórnarandstöðunnar féllu í gær frá því á síðustu stundu að halda fyrirhugaðan mótmælafund í Pozarevac, heimaborg Slobodans Milosevics Júgóslavíuforseta, eftir að lögregluyfirvöld í borginni settu upp vegatálma til að hindra ferðir...

LEIÐTOGAR serbnesku stjórnarandstöðunnar féllu í gær frá því á síðustu stundu að halda fyrirhugaðan mótmælafund í Pozarevac, heimaborg Slobodans Milosevics Júgóslavíuforseta, eftir að lögregluyfirvöld í borginni settu upp vegatálma til að hindra ferðir stjórnarandstæðinga og hnepptu nokkra þeirra og blaðamenn í varðhald.

Stjórnarandstöðuleiðtogar sökuðu stjórnvöld í Belgrad um að hafa reynt allt til að koma í veg fyrir mótmælin og sagði Zoran Djindjic formaður Lýðræðisflokksins, að horfið hefði verið frá mótmælunum "af öryggisástæðum". "Við viljum breyta stjórn landsins en við viljum ekki stríð," sagði Djindjic eftir að mótmælafundinum hafði verið frestað.

Fjöldamótmæli boðuð í Belgrad

Djindjic lýsti því jafnframt yfir að vegna þessa hefði verið ákveðið að efna til fjölmennra mótmæla í Belgrad á mánudaginn kemur, þar sem handtökum stjórnarandstæðinga í gær yrði harðlega mótmælt. "Pozarevac er forboðin borg í dag, hún er lokuð."

Mikil spenna hafði skapast í borginni áður en aðgerðum stjórnarandstöðunnar var frestað en stjórnarandstaðan sagði í gær að allt að 30.000 lögreglumenn hefðu verið í borginni og nágrenni hennar til að koma í veg fyrir mótmælaaðgerðir. Stjórnarandstæðingum, sem streymdu til borgarinnar um morguninn, hefði verið meinaður aðgangur. Þá var um tíma mikil hætta á ryskingum þar sem borgaryfirvöld höfðu efnt til hátíðarhalda í miðborginni og þar með stefnt stjórnarsinnum gegn stjórnarandstæðingum.

Er talið að atburðir gærdagsins séu verulegt áfall fyrir stjórnarandstöðuöflin í landinu sem átt hafa í nokkrum erfiðleikum með að sameina krafta sína gegn stjórnvöldum í Belgrad.

Pozarevac. Reuters, AFP.