Indverskur hermaður í friðargæsluliði Sameinuðu þjóðanna fylgist með breskri herþyrlu flytja útlendinga frá Sierra Leone.
Indverskur hermaður í friðargæsluliði Sameinuðu þjóðanna fylgist með breskri herþyrlu flytja útlendinga frá Sierra Leone.
LEIÐTOGAR níu Vestur-Afríkuríkja komu saman í Nígeríu í gær og sögðust vera að íhuga hernaðaríhlutun í Sierra Leone til að reyna að bjarga friðarsamningi sem var undirritaður fyrir tæpu ári.

LEIÐTOGAR níu Vestur-Afríkuríkja komu saman í Nígeríu í gær og sögðust vera að íhuga hernaðaríhlutun í Sierra Leone til að reyna að bjarga friðarsamningi sem var undirritaður fyrir tæpu ári. Stjórnarhermenn og uppreisnarmenn í Sierra Leone börðust í gær um bæ við mikilvægan þjóðveg að Freetown og þúsundir manna flúðu af átakasvæðinu til höfuðborgarinnar.

Leiðtogar Vestur-Afríkuríkjanna gáfu út harðorða yfirlýsingu eftir að fundi þeirra lauk í gærkvöldi og gagnrýndu uppreisnarhreyfinguna RUF fyrir að taka hundruð friðargæsluliða Sameinuðu þjóðanna í gíslingu. Þeir sögðu að uppreisnarmennirnir kynnu að verða sviptir sakaruppgjöf, sem þeim var veitt samkvæmt friðarsamningnum, og sóttir til saka fyrir stríðsglæpi.

Í yfirlýsingunni kom einnig fram að varnarmálaráðherrar og yfirhershöfðingjar ríkjanna myndu koma saman í næstu viku til að ræða hvort þau ættu að senda hersveitir til Sierra Leone í því skyni að verja höfuðborgina og hindra að uppreisnarmennirnir kæmust til valda.

Vestur-Afríkuríkin sendu hersveitir til Sierra Leone árið 1998 til að binda enda á valdarán herforingja sem steyptu lýðræðislega kjörnum forseta landsins, Ahmad Tejan Kabbah, árið áður.

Friðargæsluliðar hörfa

Heimildarmenn í her Sierra Leone sögðu að liðsmenn uppreisnarhreyfingarinnar RUF hefðu ráðist á bæinn Masiaka, um 56 km frá Freetown, í fyrradag. "Ekkert lát er á átökunum og þau hafa valdið miklum straumi flóttamanna til Freetown," sagði foringi í stjórnarhernum.

Talsmaður Sameinuðu þjóðanna í New York sagði að um 200 friðargæsluliðar hefðu orðið að hörfa frá Masiaka í fyrrakvöld þar sem þeir urðu uppiskroppa með skotfæri eftir að ráðist var á þá.

Útlendingar fluttir á brott

Uppreisnarmennirnir hafa sótt í átt að höfuðborginni frá því í sl. viku og brotið friðarsamninginn sem átti að binda enda á eina af grimmilegustu borgarastyrjöldum Afríku.

Breskir hermenn hófu í gær brottflutning útlendinga frá Sierra Leone. Um 300 þegnar Bretlands, Evrópusambandsríkja og landa breska samveldisins voru fluttir með flugvélum til Senegal.

Þetta er um þriðjungur útlendinganna sem ráðgert er að flytja frá Sierra Leone.

Freetown. Reuters, AFP.

Höf.: Freetown. Reuters, AFP