Jón Árni Bjarnason íbúi á Gamla garði  er afar netvæddur.
Jón Árni Bjarnason íbúi á Gamla garði er afar netvæddur.
Jón Árni Bjarnason nemur verkfræði við Háskóla Íslands og býr á Stúdentagörðunum, nánar tiltekið þeim sögulega Gamla garði við Hringbraut, hvar margt stórmennið hefur búið á námsárum sínum.

Jón Árni er mikill notandi Netsins, en notkun hans hefur þó tekið miklum breytingum eftir að Félagsstofnun stúdenta lét beintengja alla Stúdentagarða. Nú hefur Jón Árni Netið uppi allan sólarhringinn og greiðir fast gjald, um 1.500 kr. á mánuði. "Þetta er allt annað líf," segir hann og rétt lítur upp úr netvafrinu.

Jón Árni sækir hvers kyns fróðleik á Netið, nýtir það vegna námsins og skoðar fréttamiðlana mbl.is og visir.is. Aukinheldur kannar hann reglulega gang mála á helstu íþróttarásum heims, teamtalk.com - allt um ensku knattspyrnuna er í miklu uppáhaldi hjá honum.

"Næst á dagskránni er að taka upp bankaviðskipti á Netinu. Nú eru óteljandi möguleikar í boði," segir hann.

Jón Árni var einn af fyrstu íbúum Stúdentagarðanna til að nýta sér beintenginguna og hann segir að hún sé frábært framtak. "Mér finnst þetta ekki hátt gjald fyrir þessa þjónustu. Síminn er ekki upptekinn þótt ég sé á Netinu og ég þarf ekki lengur að standa í röð úti í skóla eftir tölvum. Ég held að þetta framtak hafi mælst mjög vel fyrir enda hefur álagið á tölvurnar minnkað eftir að Garðbúar ánetjuðust heima."