Þórey Edda Elísdóttir, stangarstökkvari úr FH, hefur náð sér vel af bakmeiðslum sem hrjáðu hana stóran hluta síðasta árs.

Þórey Edda Elísdóttir, stangarstökkvari úr FH, hefur náð sér vel af bakmeiðslum sem hrjáðu hana stóran hluta síðasta árs. Hún er nú í æfingabúðum í Aþenu í Bandaríkjunum ásamt íslenska Ólympíuhópnum og Stanislav Szczyrba, þjálfara sínum, og Völu Flosadóttur. Frá Bandaríkjunum komu þau úr öðrum æfingabúðum í Póllandi.

"Þórey er mjög að koma til," segir Vésteinn Hafsteinsson, verkefnisstjóri Sydney-hóps Frjálsíþróttasambandsins. "Hún finnur ekki fyrir óþægindum í baki, er að hlaupa hraðar en áður og hefur styrkst mikið. Hún hefur verið að stökkva með átta skrefa atrennu upp á síðkastið og gert það mjög vel. Mér finnst hún lofa góðu. Þá er Stanislav bjartsýnn á að hún nái Ólympíulágmarkinu, 4,30 metra, og úr því að hann er vongóður þá tel ég vera ástæðu til þess þar sem Stanislav er ekki vanur að segja meira en hann getur staðið við," sagði Vésteinn ennfremur.