REONEL Ramones, sem grunaður er um að hafa hannað "ástarveiruna" svokölluðu, var í gær leystur úr haldi á Filippseyjum eftir að saksóknarar höfðu úrskurðað að sannanir gegn honum væru ekki nægjanlegar.

REONEL Ramones, sem grunaður er um að hafa hannað "ástarveiruna" svokölluðu, var í gær leystur úr haldi á Filippseyjum eftir að saksóknarar höfðu úrskurðað að sannanir gegn honum væru ekki nægjanlegar. Enn á þó eftir að rannsaka tölvudisklinga er varpað gætu ljósi á málið. Sérfræðingar telja sig hafa rakið slóð tölvuveirunnar skæðu til tölvu í íbúð sem Ramones og unnusta hans búa í og sögðu rannsóknarlögreglumenn á Filippseyjum í gær að átta aðrir einstaklingar gætu verið tengdir málinu eftir að tíu dulkóðuð nöfn fundust í veirunni. Ramones og unnusta hans, Irene de Guzman, hafa undanfarin misseri verið við nám í AMACC-tölvuháskólanum í Manila og sögðu háttsettir lögreglumenn í gær að átta aðrir nemar við skólann gætu tengst málinu.

Ásakanir vegna Lockerbie-málsins

PALESTÍNSKU skæruliðasamtökin Abu Nidal sögðust í gær vera tilbúin til að leggja til vitni og sannanir sem sýndu fram á að Líbýumenn hefðu staðið að baki Lockerbie-tilræðinu sem varð alls 270 mönnum að bana árið 1988. Í yfirlýsingu samtakanna sem barst fréttastofu Reuters í gær var vegið að Líbýustjórn en í liðinni viku sökuðu lögmenn Líbýumannanna tveggja, sem ákærðir eru fyrir tilræðið, palestínsk frelsissamtök um að bera ábyrgð á tilræðinu. Í yfirlýsingunni er þessu vísað á bug og sagt að innanbúðarmaður samtakanna komi senn fram og hrekji málatilbúnaðinn.