Michael J. Fox ásamt eiginkonunni Tracy Pollan á Golden Globe verðlaunahátíðinni í janúar.
Michael J. Fox ásamt eiginkonunni Tracy Pollan á Golden Globe verðlaunahátíðinni í janúar.
H INN knái og barnslegi leikari Michael J. Fox skaust upp á stjörnuhimininn sem táningur á tímaflakki í myndunum Aftur til framtíðar eða Back to the Future.

HINN knái og barnslegi leikari Michael J. Fox skaust upp á stjörnuhimininn sem táningur á tímaflakki í myndunum Aftur til framtíðar eða Back to the Future. Síðan þá hefur hann leikið í nokkrum vinsælum myndum en oftast hefur hann þó verið í smáum hlutverkum, nú síðast sem rödd músarinnar Stúart.

Undanfarin fjögur ár hefur hann átt mikilli velgengni að fagna í sjónvarpi í þáttunum Spin City eða Ó, ráðhús! sem sýndir eru á Stöð 2. Þar leikur hann aðstoðarmann borgarstjóra New York-borgar sem verður oft ásamt öðrum starfsmönnum ráðhússins að bjarga yfirmanni sínum frá synd og skömm. Vinsældir þáttanna hafa aukist ár frá ári og hafa þeir hlotið fjölda verðlauna, t.d. hefur Michael J. Fox þrisvar sinnum verið verðlaunaður sem besti leikari í gamanþáttum á Golden Globe-verðlaunahátíðinni.

Safnar fé til rannsókna

En í byrjun þessa árs tilkynnti Fox að hann væri hættur að leika í þáttunum og ástæðan væri sú að hann ætlar að einbeita sér að því að safna fé til rannsókna á parkinson sjúkdómnum sem hann þjáist sjálfur af.

"Núna finnst mér vera kominn rétti tíminn til að einbeita mér að fjölskyldu minni og að aðstoða við leitina að lækningu parkinsonsjúkdómsins," sagði Fox að því tilefni. Hann ítrekaði að ástæðan væri ekki heilsufarsleg; honum hefði ekki hrakað en að hann vildi ekki blekkja sjálfan sig, það kæmi að því að hann yrði alvarlega veikur. "Það er ekki eins og ég sé kominn út í horn og geti ekki hugsað mér að leika lengur í þáttunum. Ég veit vel að þetta er sjúkdómur sem versnar sífellt, mér mun ekki heilsast betur en mér líður vel núna og hef krafta til að sinna hversdagslegum störfum. En ég er í þeirri aðstöðu að ég get látið til mín taka og það ætla ég að gera," sagði hann.

Eiginkona Fox heitir Tracy Pollan og er leikkona. Saman eiga þau tvö börn sem Fox hyggst nú einbeita sér meira að.

Aðstandendur Spin City segja mikla eftirsjá að Fox. "Þátturinn stendur nú á tímamótum," segir Michael Boatman, sem leikur einnig í þáttunum. "Við vorum öll eyðilögð er við heyrðum fréttirnar og fengum tár í augun. Það skipti miklu máli fyrir hann að vinna Golden Globe-verðlaun í ár, augnablikið var tilfinningaþrungið og hann var fullur þakklætis."

Barry Bostwick úr leikarahópnum sagði: "Við erum ekki viss um hvað kemur til með að gerast næst. Fox var sá sem dró áhorfendur að skjánum, hann hafði persónutöfrana og hæfileikana."

En allir eru sammála um að kröftum Fox sé betur varið til góðgerðarmála og heima í faðmi fjölskyldunnar. Þegar hefur stuðningur hans skipt miklu máli og aukið fjármagn hefur runnið til rannsókna á sjúkdómnum.

"Fox er mikill baráttumaður, hann vildi ekki yfirgefa þættina fyrr vegna þess að honum þykir vænt um okkur. Enginn getur mótmælt ákvörðun hans en við komum til með að sakna hans mikið," sagði Bostwick.