Fyrrverandi hjón eiga erfitt með að þola hvort annað en verða að reyna að haga sér í brúðkaupi dóttur sinnar.
Fyrrverandi hjón eiga erfitt með að þola hvort annað en verða að reyna að haga sér í brúðkaupi dóttur sinnar.
RÓMANTÍSKA gamanmyndin That Old Feeling er kvikmynd mánaðarins á Bíórásinni. Það eru þau Bette Midler og Dennis Farina sem fara með aðalhlutverkin en Carl Reiner, faðir leikarans Rob Reiner leikstýrir myndinni.

RÓMANTÍSKA gamanmyndin That Old Feeling er kvikmynd mánaðarins á Bíórásinni. Það eru þau Bette Midler og Dennis Farina sem fara með aðalhlutverkin en Carl Reiner, faðir leikarans Rob Reiner leikstýrir myndinni.

Kvikmyndastjarnan Lilly (Bette Midler) og blaðamaðurinn Dan (Dennis Farina) hafa verið hamingjusamlega skilin í 15 ár og þannig vilja einmitt allir hafa það, og þá sérstaklega hún Molly (Paula Marshall) dóttir þeirra. En þegar Keith (Jamie Denton) kærastinn hennar vill giftast henni og hafa brúðkaupið á hefðbundinn hátt þar sem allir í fjölskyldum þeirra eru boðnir verður Molly um og ó þar sem hún veit að ekkert í veröldinni gæti komið í veg fyrir að foreldrar hennar mæti í athöfnina. Jafnvel þótt þau sverji og sárt við leggi að haga sér sómasamlega í brúðkaupinu óttast allir hið versta, því það er vitað mál að þau Lilly og Dan hatast heiftarlega og því alls ekki von á góðu. Það verða því engir jafnhissa og þau Dan og Lilly þegar í ljós kemur í miðjum heiftarlegum stælum þeirra í brúðkaups- veislunni að ennþá lifir í gömlum glæðum og þau eru haldin óstjórnlegri og ástríðufullri þrá eftir hvoru öðru. Þegar þau hverfa svo skyndilega úr veislunni frá núverandi mökum og öðru skyldfólki verður uppi fótur og fit og ýmislegt óvænt kemur í ljós hjá þeim sem eftir standa og dóttirin Molly fer að líta samband sitt við Keith í nýju ljósi. En þau Lilly og Dan láta sig þetta engu skipta því þau eru önnum kafin við að blása lífi í endurnýjað ástarsamband sitt.

Bette Midler kom fram á sjónarsviðið sem söngkona snemma á áttunda áratugnum og síðan hefur hún lagt skemmtanaiðnaðinn í Bandaríkjunum að fótum sér og unnið til fjölda verðlauna bæði sem söngkona og leikkona. Hún hefur hlotið tvær tilnefningar til Óskarsverðlauna, tvisvar hreppt Emmy-verðlaunin, fjórum sinnum hefur hún hlotið Grammy-verðlaun, einu sinni Tony-verðlaun og fern Golden Globe-verðlaun hafa fallið henni í skaut. Meðal mynda sem hún hefur leikið í eru The Rose, Down and Out in Beverly Hills, Ruthless People, Big Business, For the Boys, Get Shorty og The First Wives Club.

Dennis Farina hefur leikið í fjölda kvikmynda og sjónvarpsmynda og lengst af var hann í hlutverkum alls kyns skúrka. En hæfilekar hans sem gamanleikara fóru ekki fram hjá neinum og í seinni tíð hafa gamanhlutverkin náð yfirhöndinni. Skemmst er að minnast Farina úr myndinni Get Shorty, en meðal annarra mynda sem hann hefur leikið í eru Little Big League, Another Stakeout, Midnight Run og Striking Distance.

Áhugasamir geta tekið þátt í skemmtilegum leik á Bíórásinni í tengslum við myndina. Það eina sem þarf að gera er að heimsækja heimasíðu Bíórásarinnar, www.iu.is.