Ubi Soft, sem frægast er fyrir leikinn Rayman og Rayman 2, hefur nú gefið út nýjan borðaleik. Leikurinn nefnist Tonic Trouble og átti víst upprunalega að vera sýningarforrit fyrir Rayman 2.

ED, SÖGUHETJA leiksins, er húsvörður frá fjarlægri plánetu. Í einu af verkefnum sínum missir hann sérstakan hreinsilög, eða "tonic", á jörðina sem veldur því að öll lífform hennar breytast gífurlega. Þegar Ed reynir að ná aftur í þvottaefnið sem olli þessum ósköpum ráðast á hann risastórir tómatar, ristað brauð og allskonar furðuhlutir undir stjórn hins illa Grögh. Spilendur verða að stýra Ed í gegnum allskonar þrautir og halda honum lifandi nógu lengi til að bjarga jörðinni.

Mörgu er líkt með Ed í Tonic Trouble og Rayman í samnefndum leik, í raun gætu þeir allt eins verið bræður. Öll hönnun borða, stjórnar og myndavélar gerir þó að verkum að Ed er eins og fjarlægur frændi með erfðagalla í samanburði við Rayman og ótrúlegt er að leikirnir séu báðir byggðir á næstum nákvæmlega sömu vél.

Borð leiksins eru flest afar stór og öll þannig upp byggð að þegar Ed hefur lært nýja hæfileika seinna í leiknum þarf hann að koma aftur og finna hluti sem hann komst ekki að áður. Borðin eru flest ágætlega flott en frekar asnalega gerð.

Ed hefur eitt vopn í byrjun leiksins fyrir utan hnefana sem stjórnað er af ósýnilegum upphandleggjum. Vopnið er blástursrör sem skýtur litlum örvum en er einnig hægt að nota sem lykil til að opna hurðir eða stjórna rafdrifnum hlutum.

Myndavél leiksins er hræðileg; hún festist bak við veggi, veldur því að Ed dettur niður af klettum þegar hún snýr sér allt í einu við og rekur stundum bara stjórnlaust í burtu þegar spilandinn er að reyna að horfa á eitthvað mikilvægt; ótrúlegur hönnunargalli sem gerir leikinn stundum svo pirrandi að ekki er hægt að spila hann.

Stjórn leiksins er ekki vel gerð heldur. Ed hreyfir sig eins og lappirnar á honum séu segull og afgangurinn af heiminum sé úr járni, hann er afar seinn að öllu og oftast eru óvinir sem ná að koma spilendum á óvart löngu búnir að drepa mann þegar maður nær loksins að snúa sér við, taka upp blástursrörið og miða því. Ed hoppar eins og hann hafi verið að stíga á heitan sand. Afar erfitt er því að stýra Ed í loftinu og stundum ógjörningur.

Tonic Trouble hefði getað orðið frábær leikur og jafnvel betri en Rayman 2 með dálítilli vinnu. Ubi Soft flýtti leiknum talsvert, sérstaklega til að gera auglýsendum leiksins, Nestle, til geðs. Nestle kemur oft við sögu í leiknum og gerir Ed að "Super Ed". Á endanum varð útkoman annars flokks borðaleikur, sem hentar aðeins þeim sem hafa afar mikla þolinmæði og mikla ást á leikjum af þessu tagi.