N emendurnir Arnfinnur Daníelsson, Anna Ingadóttir, Hermann Guðmundsson, Helga Sveinbjörnsdóttir, Ásthildur Magnúsdóttir og Ólafur M.

Nemendurnir Arnfinnur Daníelsson, Anna Ingadóttir, Hermann Guðmundsson, Helga Sveinbjörnsdóttir, Ásthildur Magnúsdóttir og Ólafur M. Einarsson í Samvinnuháskólanum á Bifröst eru öll sammála um ágæti tölvubyltingarinnar og viðurkenndu að líklega væru þau orðin mjög háð fartölvunni sinni. Þau gætu varla sleppt af henni hendinni. Notkun fartölvu væri orðin svo ríkur þáttur í náminu að þeim finnst þau alltaf þurfa að hafa hana opna. Hermann sagði ótrúlega miklar breytingar hafa orðið á samfélaginu á Bifröst eftir fartölvuvæðinguna. Ólafur sagði að flestir væru sítengdir við Netið og sítengdir sín á milli með samskiptaforriti og hægt að sjá í fljótu bragði hver er við tölvuna sína. Því berast skilaboð með skjótum hætti á milli fólks og flestir hættir að taka upp síma til að hringja, heldur senda skilaboð á tölvunum. Ólafur segist hálf kvíða fyrir því að yfirgefa skólann í vor því hann segist gera sér grein fyrir því að hann eigi eftir að sakna þessa þráðlausa og sítengda tölvusambands.

Hermann segir það alltaf vera sitt fyrsta verk þegar hann skreppur til höfuðborgarinnar að kveikja á tölvunni þegar hann kemur á áfangastað. Hann finni þó fljótt hvað þráðlausa sambandið hafi mikið að segja því hann hafi litla þolinmæði í að bíða eftir því að tengjast.

Anna segir að tölvan sé orðin eins og viðhald. "Maður tekur hana með sér í rúmið, hvað þá meira. Ég las alltaf mikið á kvöldin en núna endar dagurinn á því að ég kíki á fréttir á Netinu og loka svo tölvunni og fer að sofa."

Arnfinnur segist aftur á móti athuga breytingar á gengisskráningunni á tíu mínútna fresti.

Helga segir það misjafnt hversu fólk var tölvusinnað áður en það kom í skólann. Hún segist til dæmis ekki hafa kunnað mikið á tölvur. "Mér þykir orðið virkilega vænt um tölvuna mína. Áður notaði ég tölvu alls ekki nema ég þyrfti þess nauðsynlega, ekki til gamans."

Þau segjast nota tölvuna til margra hluta auk námsins og upp kom í umræðunni að nokkur þeirra voru komin með gott uppskriftasafn og í stað þess að hafa bók með uppskriftum opna á eldhúsborðinu væri tölvan komin í hennar stað.

En tölvan nýtist auðvitað fyrst og fremst vel í náminu og segja þau að frjáls aðgangur að ýmsum gagnagrunnum, sem háskólinn er áskrifandi að, nýtist þeim mjög vel. Þau telja að það hljóti að vera lítil aðsókn að bókasafninu núna miðað við áður.

Helga segir að mjög þægilegt sé að senda verkefni á milli þeirra sem vinna í hópi með samskiptaforritinu. Nemendur geti því auðveldlega unnið saman að hópverkefni án þess að vera allir á sama stað.

Kynnast fólki fyrst í gegnum tölvuna

Önnu finnst mjög gott að taka próf á tölvuna og segist í raun varla skilja núna hvernig hægt var að handskrifa prófin. Ásthildur tekur undir það og segist sérstaklega ánægð með að geta sótt fyrirlestra kennaranna og glósað beint inn á þá. "En maður er kannski orðin óskrifandi," segir hún.

Þau voru sammála um að enn ættu íbúar á Bifröst auðvelt með mannleg samskipti og þessi mikla tölvunotkun ætti frekar eftir að auka samskipti milli fólks og alls ekki að draga úr þeim. Nemendur leituðu mikið hver til annars eftir hjálp og allir eru boðnir og búnir að hjálpa. Þeir sem ekki keyptu sér tölvu í upphafi vetrar fundu fljótt að þeir urðu útundan í verkefnavinnu og flestir þeirra hafa nú keypt sér tölvu. Næsta vetur verður gerð sú krafa að allir nemendur hafi fartölvu.