[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í seinni tíð hefur fjölgað þeim stýrikerfum sem almennum notendum standa til boða og flest eru þau ókeypis. Árni Matthíasson skoðaði nýja útgáfu SuSE Linux og segir að öllum sé hollt að líta í kringum sig.

MIKIÐ hefur verið fjallað um Linux undanfarin misseri og finnst eflaust sumum Windows-vinum nóg um. Það er þó eins gott að þeir sperri eyrun, því Linux sækir sífellt í sig veðrið og allt fjas um að það sé ekki nothæft sem borðtölvustýrikerfi er eins og hvert annað bull; Linux er löngu orðið vænlegur kostur í borðtölvur, ekki síst í ljósi þeirra hremminga sem dómgreindarleysi yfirmanna Microsoft hefur steypt tugmilljónum manna í hvað eftir annað, nú síðast með vanhugsaðri útfærslu á VBskriftum.

Oft hefur komið fram að Linux er ókeypis stýrikerfi en það er ekki aðal kosturinn við það, heldur að það er fullkomnara og stöðugra stýrikerfi en helsti keppinauturinn, Windows, nýtir vélbúnað betur og er í allt öðrum gæðaflokki hvað varðar tölvuöryggi. Helst er að menn hafi fett fingur út í notendaskil, sem hafa þó tekið stakkaskiptum á undanförnum árum.

Netið vinsæl dreifingarleið

Vinsæl dreifingarleið á Linux er Netið, en mörgum vex í augum að sækja sér 5-500 MB skrár yfir Netið, ekki síst ef þeir eru með 56,6 kílóbita nettengingu. Sífellt algengara verður því að fyrirtæki taki sig til og setji saman það sem menn kalla Linux dreifingu, en þá safna menn saman kjarnanum og helstu viðföngum og setja á disk sem síðan er seldur vægu verði. Helstu fyrirtæki semja á pakkann eigin uppsetningarviðmót og bæta oftar en ekki ýmsum hugbúnaði eða endurbótum við til að gera pakkann söluvænlegri. Þeir sem vilja geta eftir sem áður sótt sér pakkann á vefsetri viðkomandi fyrirtækis, til að mynda sótt sér diskmynd og brennt eigin dreifingardisk sem er í öllu eins og sá sem fyrirtækið selur, endurgjaldslaust, en kallar vitanlega á tengitíma og þann kostnað sem hlýst af því. Takist viðkomandi fyrirtæki vel upp í samsetningunni og komi fram með nýjungar sem menn kunna að meta er eins víst að fleiri taki þær upp (með þeim fyrirvara þó að ekki gefa þau öll allt frjálst). Það eru meira að segja dæmi þess að fyrirtæki taki upp á sína arma dreifingu annars fyrirtækis, endurbæti lítillega og dreifi sem sinni eigin og amast enginn við því.

RedHat og SuSE

Vestan hafs ber fyrirtækið RedHat höfuð og herðar yfir önnur Linux-dreifingafyrirtæki og er að mörgu leyti fyrirmynd um hvernig hagnast megi bærilega á ókeypis hugbúnaði. Í Evrópu nýtur RedHat vitanlega hylli en öllu vinsælli er dreifing frá þýska fyrirtækinu SuSE. Fyrir skemmstu kom einmitt á markað útgáfa 6.4 af SuSE Linux.

SuSE-pakkarnir eru meðal annars vinsælir fyrir það hversu gríðarlega umfangsmiklir þeir eru, enda eru diskarnir sex í pakkanum, en reyndar hægt að fá allt saman á einum DVD-disk. Sjálfur Linux-kjarninn og viðföng nær ekki að fylla einn disk, en í SuSE-pakkanum er mjög þægilegur uppsetningarhugbúnaður og grúinn allur af hugbúnaði.

Menn hafa jafnan gert mikið úr því að svo erfitt sé að setja Linux upp og iðulega talað af vanþekkingu. Það er alltaf flókið verk að setja stýrikerfi upp á tölvu, hvort sem það er Linux eða Windows, og þannig getur verið strembið að setja upp síðarnefnda stýrikerfið, ekki síst vegna þess að það gefur iðulega ekkert upp um það hvað sé að þegar á bjátar. Það tekur því nánast alltaf skemmri tíma að setja upp Linux en Windows, ekki síst ef menn leyfa uppsetningarforritinu að ráða ferðinni. Þetta á vitanlega við það ef menn vilja setja Linux upp á tölvuna eitt stýrikerfa. Vilji þeir aftur á móti láta það deila disknum með öðru stýrikerfi, yfirleitt Windows, þarf að velta hlutunum eilítið fyrir sér.

Þegar eitt stýrikerfi er upp sett á tölvum nýtir það alla jafna allan harða diskinn. Áður en 32 bita skráakerfi, svonefnt FAT32, kom til sögunnar áttu tölvur erfitt með að nýta harða diska sem voru stærri en 2 GB. Þá gripu menn til þess ráðs að skipta diskunum upp og þannig gat verið í sömu vélinni c:, d: og e: diskur, en harði diskurinn var þó aðeins einn. Hver drifbókstafur stóð því fyrir hólf, eða partition, á disknum, þar sem eitt var aðal, yfirleitt c: hólfið.

Eftir að önnur útgáfa af Windows 95 kom til sögunnar og síðan Windows 98 og 2000 hvarf vandamálið með tveggja GB diskana og því þörfin á að hólfa harða diskinn niður. Það er þó ekkert því til fyrirstöðu að gera það og til að mynda bráðsniðugt að gera það til að prófa annað stýrikerfi, til að mynda FreeBSD, BeOS eða Linux, en öll nota þau annað skráakerfi en Windows þó þau geti lesið FAT og FAT32. Þannig getur viðkomandi verið með Windows sem aðalstýrikerfi á meðan hann er að venja sig við Linux, en sérstakur ræsistjóri, sem kallast LiLo, gerir þá kleift að velja á milli stýrikerfa í ræsingu.

Ýmsar leiðir til skipta

Ýmsar leiðir eru færar til að skipta upp harða disknum og iðulega fylgir með Linux-dreifingum hugbúnaður til þess arna, en einnig má sækja hann á Netið, til að mynda DOS-forritið Fips. Það er þó meira en að segja það að skipta upp hörðum disk, ekki síst ef ekki má spilla gögnum sem á honum eru, og ekki má mikið útaf bera að viðkomandi sé kominn með tölvu í hendurnar sem ekki er hægt að ræsa, hvorki í Linux né Windows. Því skiptir miklu máli að vera vel undir uppsetninguna búinn, taka afrit af því sem ekki má glatast og lesa vel það sem stendur á skjánum hverju sinni. Með SuSE 6.4 fylgir mjög læsilegur og greinargóður bæklingur sem rekur vandlega hvernig á að bera sig að við að skipta disknum upp og hvernig sú skipti fara fram.

Enn eitt uppsetningartólið

Uppsetningartól SuSE heitir YaST, sem snara má sem "enn eitt uppsetningartólið" en það hefur fylgt dreifingunni alllengi. Í 6.4 kynna þeir SuSE-menn til sögunnar nýja gerð af YaST, YaST2, sem er sérstaklega ætlað til að auka nýliðum í Linux-heimum leti og mjög vel heppnað sem slíkt. YaST er þó enn til staðar, enda er ekki hægt að gera allt með YaST2, en þó nóg til þess að almennur notandi lætur það vísast nægja.

YaST2 þekkti undireins allt það jaðardót sem í prufuvélinni er, meira að segja afdankað Crystal SoundFusion hljóðkort sem Windows á ævinlega í erfiðleikum með. Skjárinn, sem er 19" Hitachi, datt inn undireins, og einnig TNT2 skjákortið, Intelli-mús og Zip-drif. Það kom nokkuð á óvart að stýrikerfið skyldi setja upp Fritz! ISDN-kort þegjandi og hljóðalaust, enda getur verið snúið að koma því inn. Það skýrist þó eflaust af því að einhverju leyti að framleiðandinn, AVN, er þýskur og ISDN hefur náð verulegri útbreiðslu þar í landi, ólíkt því sem tíðkast vestan hafs þar sem hver höndin er upp á móti annarri í símastöðlum.

Íslenskan sjálfsögð krafa

Þeir sem vilja hafa hönd í bagga með uppsetningunni geta valið flóknari uppsetningu og þannig valið inn í vélina hvern pakka fyrir sig, sem er mjög gagnlegt, enda losna menn við þann leiða tvíverknað að hreinsa út óþarfa strax eftir uppsetninguna.

Það segir svo sitt um stöðuna í Linux-málum að mér hnykkti við er kom í ljós að innsetningarhugbúnaðurinn hefur ekki verið íslenskaður. Ástæða er til að skora á þýðara að láta hendur standa fram úr ermum; það er sjálfsögð krafa að hafa sem mest á íslensku og auðveldar enn óvönum að setja stýrikerfið upp, ekki síst ef skipta á harða disknum upp.

Eins og fram hefur komið notar SuSE kjarna 2.2.14 af Linux, sem er nýjasta stöðuga útgáfa hans, en ýmsar viðbætur fylgja, til að mynda stuðningur við yfir 3,5 GB innra minni og ReiserFS skráarkerfið, en einnig fylgir útgáfa 3.3.6 af XFree86 gluggakerfinu sem styður flest skjákort, þar á meðal GeForce 256 og Voodoo-kortin. Þess má geta að XFree86 4.0 gluggastjórinn fylgir, en notendur þurfa sjálfir að setja hann upp, því að sögn SuSE-manna er útgáfan ekki fullprófuð. Ég er að safna kjarki í að setja hana upp og einnig Reiser-skráakerfið, en það verður líkastil skráakerfi framtíðarinnar í Linux. Meira um það síðar.

Aukinn USB-stuðningur

Stuðningur við USB-jaðartækjatengi hefur verið takmarkaður í Linux en þeir SuSE-menn segja að obbinn af USM-músum, lyklaborðum, skönnum og prenturum ætti að ganga í 6.4.

Með fylgja óteljandi þróunartól og verkfæri, ritvinnsluforrit, til að mynda WordPerfect 8.0, gagnagrunnar, þar á meðal Sybase og MySQL, myndvinnsluforrit, til að mynda Gimp sem stendur PhotoShop fyllilega á sporði, fullkominn Apache vefþjónn, Radius-þjónn, eldveggjarbúnaður, StarOffice hugbúnaðarvöndullinn, spjall- og IRC-þjónn, gluggastjórar, ýmislegur margmiðlunarhugbúnaður, meðal annars til rauntímavinnslu á hreyfimyndum, þrívíddarhugbúnaður, prentvinnslubúnaður, hermar, letursmiðir og svo má lengi telja. Að sögn þeirra sem talið hafa eru ríflega 1.500 forrit í pakkanum. Harla gott fyrir innan við 3.000 kr.

Ekki bara til heimabrúks

SuSE Linux er ekki bara stýrikerfi fyrir heimili, heldur hafa þeir SuSE-menn lagt áherslu á að það standi jafnfætis atvinnudreifingum á Linux og í 6.4 er aukinn stuðningur við LDAP og WWW, FTP og Proxy-þjóna, aukinheldur sem Logical Volume Manager fylgir, bættar eldveggjarskriftur og eldveggjarforrit frá SuSE og kjarnaviðbótin secumod.

Öll stýrikerfi hafa eitthvað til síns ágætis og ekki er víst að öllum henti að nota Linux frekar en það hentar ekki öllum að nota Windows, MacOS eða BeOS. Það er þó öllum hollt að líta í kringum sig og þeir sem á annað borð komast upp á lagið með Linux læra mun betur að skilja tölvuna sína og geta því frekar brugðist við ef eitthvað kemur upp. Windows er eins og bifreið með fastsoðið húdd og mörgum finnst það eflaust gott, en þeir eru líka margir sem vilja komast í kramið.