[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
S ÖNGVAKEPPNI evrópskra sjónvarpsstöðva verður haldin í 45. sinn á laugardaginn í Globen-höllinni í Stokkhólmi.

SÖNGVAKEPPNI evrópskra sjónvarpsstöðva verður haldin í 45. sinn á laugardaginn í Globen-höllinni í Stokkhólmi. Einar Ágúst Víðisson og Telma Ágústsdóttir flytjendur íslenska lagsins "Tell Me" eftir Örlyg Smára héldu utan á sunnudaginn og eru klár í slaginn enda hafa æfingar verið strangar undanfarnar vikur. "Undirbúningurinn hefur gengið vel. Við höfum æft okkur stíft, bæði sönginn og framkomuna," segir Telma.

Þú varst búinn að heita því að taka ekki nein dansspor er ekki svo, Einar Ágúst?

Einar Ágúst: Glottir út í annað. "Jú, en þetta er ekki beint dansspor heldur miklu frekar sviðsframkoma. Ég geri greinarmun á því."

Þú þarft þá ekki að éta ofan í þig þá hörðu yfirlýsingu?

Einar Ágúst: "Nei. En ég hef reyndar gaman af því að éta ofan í mig gamlar yfirlýsingar og geri oft. Málið er bara að ég gæti hvort eð er ekki dansað á sviðinu því ég kann það hreinlega ekki."

Telma: "Þetta er líka svo hresst lag að það er of mikil hætta á að maður gleymi sér í villtri sveiflu ef sporin eru of mörg."

Gefum ekkert upp um klæðnaðinn

Hvernig verðið þið til fara á sviðinu?

Telma: "Ragna Fróða hannaði búninginn minn í samráði við Dýrleifu og Möggu í Dýrinu sem saumuðu hann einnig. Þetta eru kjóll og buxur en meira má ég ekki gefa upp því það verður eitthvað að fá að koma á óvart."

Einar Ágúst: "Hanz í Kringlunni sá algjörlega um minn fatnað en það á annars það sama við hjá mér, hver hann verður mun ekki koma í ljós fyrr en í keppninni sjálfri. Við megum heldur ekki við því núna rétt fyrir keppni þegar spennan er sem mest að heyra endalausar skoðanir á búningunum. Það er eitthvað sem við höfum ekki þörf fyrir að velta okkur upp úr."

Lagið hefur tekið talsverðum breytingum síðan í forkeppninni?

Einar Ágúst: "Já. Það var sjálfur Jón Ólafsson sem útsetti það upp á nýtt. Dró aðeins úr sveiflunni en bætti við meira "bítli" sem gerir það bæði ferskara og kröftugra. Norðmenn telja sig greina talvert "bítl" í laginu en þó að viðbættum nýjum blæ sem geri það svo ferskt og viðeigandi í dag."

Eru þið orðin eitthvað stressuð?

Telma: "Ég held ég sé stressaðri yfir öllu umstanginu í kringum keppnina, blaðamannafundunum og þess konar."

Einar Ágúst: "Ég lenti í óþarfa stressi vegna þess að ég hef ekki getað æft sönginn sem skyldi vegna veikinda. Skítamórall spilaði sex kvöld í röð í kringum páskana og líkaminn einfaldlega gaf sig eftir þá törn og ég er bara nýbúinn að ná mér almennilega."

Hafði ykkur dreymt um að taka þátt í Evróvisjón?

Einar Ágúst: "Eiginlega ekki því þetta er svo fjarri manni. Ég var t.d. spurður nokkrum dögum fyrir forkeppnina hvort ég ætlaði ekki að senda lag en það hafði bara ekki hvarflað af mér. Ég var í pílagrímsferð í Ísrael einmitt þegar keppnin var haldin í fyrra en horfði bara á hana uppi á hótelherbergi með vini mínum. Hann var svo æstur yfir keppninni að ég gerði það að gamni mínu að halda ekki með Íslandi, svona til að stríða honum. Hann var svo brjálaður út í mig að hann sagði: "Bíddu bara. Þér á eftir að hefnast fyrir þetta." Ári síðar er ég síðan á leiðinu út."

Telma: "Þetta var kannski draumur hjá mér þegar ég var lítil en ég hafði ekkert gaumgætt það undanfarin ár."

Hvaða markmið hafið þið sett ykkur?

Telma: "Markmiðið er að gera vel."

Einar Ágúst: "Tónlistarmenn geta ekki hugsað of mikið um að þeir séu að keppa því þá eru þeir á rangri braut. Metnaðurinn liggur í að gera sitt besta. Keppnin gengur líka ekki einasta út á frammistöðu okkar á sviðinu heldur er hún hafin nokkru áður með kynningu á laginu sjálfu og öllu fjölmiðlaumstanginu síðustu dagana fyrir keppnina."

Telma: "Þannig eru flestir t.d. búnir að mynda sér skoðun áður en sjálf keppnin hefst."

Alltaf setið stjörf yfir keppninni

Lítið þið á þátttökuna sem stökkpall fyrir ykkur?

Telma: "Ég geri það hiklaust því það vita fæstir hér heima hver ég er."

Einar Ágúst: "Þetta er vissulega stórt tækifæri. Sjáðu bara hvað Selmu hefur vegnað vel."

Hvað ætlarðu að gera Einar Ágúst ef kallið kemur að utan þú verður að vera þar í sumar; skarast það ekki á við skyldustörfin í Skítamóral?

Einar Ágúst: "Ég er ekkert að hugsa út í slík á þessu stigi og jafnvel þótt kallið kæmi þá efast ég um að það myndi bitna á sumarvertíðinni því svona hlutir eru svo lengi að fara í gang. Allar slíkar ákvarðanir yrðu líka teknar með fullu samráði við mína góðu félaga í sveitinni."

Hvað um allan þennan meinta klíkuskap og þjóðernispólitík; er það ekkert letjandi?

Einar Ágúst: "Nei, því ég hef trú á að því allt slíkt sé á undanhaldi með tilkomu símakosningarinnar."

Hafið þið fylgst með keppninni í gegnum árin?

Telma: "Já, ég hef setið stjörf yfir henni á hverju einasta ári."

Einar Ágúst: "Nú, alveg eins og níutíu og fimm prósent íslensku þjóðarinnar."

Hafið þið heyrt hin lögin?

Telma : "Ég hef heyrt þýska lagið."

Já, þú meinar Spice Girls-lagið sem þýsk sjónvarpsstjarna rappar af miklum eldmóð (lagið er vægast sagt keimlíkt lagi þeirra "Say You'll Be There").

Einar Ágúst: "Það átti að banna það en veit ekki hvað varð úr."

Hvert er eftirlætis Evróvisjónlagið ykkar?

Einar Ágúst: "Cliff Richard var traustur með "Congratulation"."

Telma: "Celine Dion var æðisleg. Já, og svo hún litla belgíska Sandra Kim."

Einar Ágúst: "Svo náttúrlega ísraelska "Hubba Hulle", eða hvað það nú hét."

En hvað um þau íslensku?

Einar Ágúst: "Björgvin Halldórsson átti röð af perlum fyrstu árin eftir að við fórum að taka þátt í keppninni. Lög sem öll hefðu náð inn á topp tíu."

Telma: "Ég var rosalega svekkt þegar "Sóley, Sóley" með Björgvini og Kötlu Maríu komst ekki í aðalkeppnina. Mér fannst það alveg ekta lag fyrir þessa keppni."

Að lokum. Á að fela tattóið eða skarta því í þessari íhaldssömu keppni, Einar Ágúst?

Einar Ágúst: "Því verður skartað!"

Telma: "Ég er nú líka með tattó og ætla ekki verða neinn eftirbátur Einars Ágústs í þeim efnum!"

Tattóunum verður skartað í Stokkhólmi.