B jarni Jónsson lektor hefur starfað við Samvinnuháskólann á Bifröst í fjögur ár. Hann segir að á þessum tíma hafi öll tölvunotkun og nýting upplýsingatækni almennt aukist mikið við háskólann.

Bjarni Jónsson lektor hefur starfað við Samvinnuháskólann á Bifröst í fjögur ár. Hann segir að á þessum tíma hafi öll tölvunotkun og nýting upplýsingatækni almennt aukist mikið við háskólann. Sem dæmi nefnir Bjarni að nemendum á þriðja ári sem taka þátt í svokölluðu seminar-námskeiði sé úthlutað ákveðnu efni sem þeir eiga síðan að finna heimildir um og kynna það síðan. "Fyrir fjórum árum voru netheimildir 10%, en eru nú 90%," segir Bjarni. "Þetta eru heimildir sem nemendur ná í af Netinu eða úr gagnagrunnum sem skólinn er áskrifandi að og allir nemendur hafa aðgang að. Mér finnst að gæði verkefnanna hafi aukist við þetta. Nemendur eru með nýjustu heimildir og hafa tækifæri til að leita mun víðar en áður var. Þeir læra einnig að leita.

Ákveðin hugarfarsbreyting hefur einnig orðið því nú ætlast menn til þess, bæði kennarar og nemendur, að hægt sé að finna betri heimildir. Áður sættu þeir sig við að geta einungis vitnað í þær fáu bækur um efnið sem ef til vill var að finna á bókasafninu. Nú sættum við okkur ekki við það heldur viljum að vitnað sé í nýjustu tímaritsgreinar og að heimildirnar séu alveg nýjar af nálinni. Þetta á einnig við í allri verkefnavinnu."

Bjarni segir að eins undarlega og það kunni að hljóma þá séu vandamál sem tengjast tölvukerfinu mun færri nú en áður en þráðlausa fartölvuvæðingin gekk í garð. Vegna þess hve þau voru algeng segir hann að búist hafi verið við því að þeim mundi jafnvel fjölga þegar tekið væri upp algjörlega nýtt kerfi. Annað hafi komið á daginn og það hafi í raun komið öllum á óvart að slík vandamál eru nánast úr sögunni. "Gerðar voru ýmsar varúðarráðstafanir, en við höfum aldrei þurft að nota þær. Það eina sem kom á daginn í upphafi var að það vantaði fleiri innstungur til að hlaða fartölvurnar og því var snarlega kippt í liðinn."

Vandamálið segir hann aðallega snúast um að læra að vera gagnrýninn á það gífurlega magn upplýsinga sem nú er hægt að hafa aðgang að. Því þurfi að þjálfa nemendur í að bæta sína eigin dómgreind svo þeir geti lært að vinsa úr þær upplýsingar sem eru vandaðar og traustar og sem nýtast þeim í náminu. Smám saman sé tölvulæsi að aukast og fólk sé fljótt að læra að takmarka heimsóknir sínar á þær rásir sem nýtast þeim vel.