Einar Skúli Hafberg, framkvæmdastjóri HSC, segir að CENIUM-bókunarkerfið, www.cenium.com, hafi fengið góðar undirtektir erlendis.
Einar Skúli Hafberg, framkvæmdastjóri HSC, segir að CENIUM-bókunarkerfið, www.cenium.com, hafi fengið góðar undirtektir erlendis.
F yrirtækið Hospitality Solution Center (HSC), hefur undanfarið ár unnið við þróun á bókunarkerfum fyrir hótel og önnur ferðatengd fyrirtæki sem tengjast Netinu.

Fyrirtækið Hospitality Solution Center (HSC), hefur undanfarið ár unnið við þróun á bókunarkerfum fyrir hótel og önnur ferðatengd fyrirtæki sem tengjast Netinu. Lausnir þessar nefnast CENIUM en markaðssetning þeirra í Evrópu og Bandaríkjunum er nú í fullum gangi. Einar Skúli Hafberg framkvæmdastjóri HSC segir CENIUM hafa fengið vottun sem fullgild viðbótarvara ofan á viðskiptahugbúnaðinn Navision Financials. "CENIUM mætir þannig öllum þeim þörfum sem gerðar eru til bókunarkerfis, þ.e. að það sé einfalt í notkun, upplýsingar flæði á milli kerfishluta og að úti á Netinu sé ávallt hægt að birta rauntímastöðu bókana. Í raun virkar CENIUM þannig að um er að ræða eitt heildstætt kerfi frá netbókunum ofan í sjálft bókunarkerfið og þaðan niður í viðskiptakerfi viðkomandi fyrirtækis. Kerfið vinnur því ávallt á rauntímagögnum og sparar þannig umtalsverða vinnu við utanumhald. Þeir sem bóka á Netinu fá staðfestingu um leið og bókun er gerð og þannig verður bókunarferli þeirra einfaldara. Viðkomandi fyrirtæki fær síðan bókunina samstundis inn í sitt kerfi og hefur þannig ávallt yfir að ráða rauntímagögnum á bókunarstöðunni."

Einar Skúli segir að fyrirtækið ætli CENIUM til útflutnings og hafi þegar kynnt kerfið á tveimur sýningum erlendis við góðar undirtektir; á Eurhotec í Lausanne í Sviss og ITB í Berlín í Þýskalandi, sem er ein stærsta árlega vörusýningin í ferðageiranum. Hann segir enga launung á því að bókanir á Netinu fari í vöxt og sífellt fleiri fyrirtæki í ferðaþjónustunni hafi gert sér grein fyrir því. Fyrirtækið hafi nú komið sér ágætlega fyrir í Evrópu og næsta skref sé að reyna fyrir sér í Bandaríkjunum.

"Við erum því að stíga okkar fyrstu skref á alþjóðamarkaði og erum afar bjartsýnir því við erum með góða lausn í höndunum. Við höfum skoðað mjög vel þær lausnir sem helstu keppinautar bjóða upp á og teljum okkur standa vel að vígi. Það eru til mörg bókunarkerfi sem eru ætluð fyrir Netið en okkar sérstaða er tengslin við Navision og að okkar kerfi býður heildarlausn fyrir allan hótel- og ferðarekstur; umsýslukerfi og bókunarkerfi. En það dugar ekki alltaf að hafa yfir að ráða góðu kerfi því mestu máli skiptir hvernig okkur tekst að markaðssetja það."

HSC hefur þegar stofnað til samstarfs við fjölmörg Navision-fyrirtæki, en þau eru um 900 talsins í heiminum, og gert samstarfssamning um 15 slík fyrirtæki sem selja Navision lausnir til 18 landa í Evrópu og Bandaríkjunum. Að sögn Einars Skúla skiptir miklu máli að ná samstarfi við Navision-fyrirtæki til þess að selja vöruna fyrir HSC. "Með því að stofna til samstarfs við söluaðila Navison á hverju markaðssvæði fyrir sig nýtum við þá þekkingu sem viðkomandi fyrirtæki hefur á sínum heimamarkaði og getum boðið þjónustu hjá fyrirtæki sem starfar í sama landi og viðskiptavinurinn. Það hefur komið á daginn að slíkt skiptir viðskiptavininn miklu máli. Næsta skref er markaðssetning í Bandaríkjunum og þátttaka á HiTec sýningunni í Dallas, sem fram fer í júní og er stærsta ferðasýningin í Bandaríkjunum. Við höfum þegar náð samstarfi við tvö Navision-fyrirtæki í Bandaríkjunum, annað er hugbúnaðarfyrirtæki en hitt er ráðgjafarfyrirtæki fyrir ferðaþjónustuna. Við munum njóta fulltingis þessara fyrirtækja á sýningunni og í framhaldinu munu þau selja og þjónusta CENIUM þar í landi. Það er enginn hægðarleikur að komast inn á bandaríska markaðinn en við gerum okkur vonir um að með því að nýta okkur samstarfsaðila þar í landi getum við átt auðveldari leið inn á markaðinn."

Frekari upplýsingar um fyrirtækið má nálgast á vefslóðinni www.hsc.is og um afurðir félagsins á www.cenium.com .