Rebekka Sigurðardóttir, kynningarfulltrúi (t.v.) og Guðrún Björnsdóttir, framkvæmdastjóri FS.
Rebekka Sigurðardóttir, kynningarfulltrúi (t.v.) og Guðrún Björnsdóttir, framkvæmdastjóri FS.
Netið og nýting þess skipa sífellt stærri sess í starfsemi Félagsstofnunar stúdenta, að sögn Rebekku Sigurðardóttur kynningarfulltrúa.

Bóksalan var fyrsta rekstrareining FS sem setti upp eigin heimasíðu. Á þeim árum sem liðin eru hefur síða Bóksölunnar tekið miklum breytingum, en er sífellt í fremstu röð hér á landi. Það sem af er árinu hafa um 30 þúsund manns farið á heimasíðuna, fengið sér bókalista úr námskeiðum eða pantað bækur eða aðrar vörur," segir hún.

Rebekka nefnir einnig að af þeim 795 sem sóttu um vist á Stúdentagörðum sl. haust hafi um 15-20% nýtt Netið í þeim tilgangi. Gera megi ráð fyrir að enn meiri fjöldi myndi nýta Netið í þessum tilgangi, ef ekki þyrfti að senda gögn með umsóknum, svo sem námsferilsskýrslu og afrit af skattframtali.

Miðað við möguleika og þarfir Netsins

"Atvinnumiðstöðin tók til starfa árið 1998 og hefur verið miðað við möguleika og þarfir Netsins í starfsemi hennar frá upphafi. Til að byrja með var mikil umferð af fólki inn í Atvinnumiðstöðina þar sem stúdentar voru vanir því að þurfa að koma á staðinn, fylla út eyðublöð og verja jafnvel nokkrum klukkustundum í það. Upp frá því höfum við orðið vör við mikla breytingu á þessu; nú skrá um 90% námsmanna sig annars staðar en í húsakynnum Atvinnumiðstöðvarinnar, þar sem þó er boðið upp á tölvuaðstöðu til að skrá sig og sækja um störf," bætir Rebekka við.

Að sögn hennar var allt húsnæði Stúdentagarða beintengt Háskólanetinu í janúar sl., en tengingin var sameiginlegt verkefni Háskólans, Reiknistofnunar HÍ og FS og er nú unnt að ná sambandi við Háskólanetið úr íbúðum og herbergjum á görðum. Með tengingunni geta um 500 stúdentar og 700 manns alls, fengið aðgang að Netinu gegn mánaðarlegu fastagjaldi, óháð notkun og án þess að greiða mínútugjald. Símalínur þeirra eru ekki uppteknar þótt Netið sé í notkun allan sólarhringinn.

200 stúdentar beintengdir

"Garðbúar hafa nú sama aðgang að Háskólanetinu og starfsmenn Háskólans og því ætti álag að minnka á þeim 300 tölvum sem eru í tölvuverum skólans," segir Rebekka ennfremur. "Tengingin hefur verið kærkomin viðbót fyrir þá stúdenta sem þurfa að sækja og skila verkefnum á Netinu, en það fyrirkomulag verður sífellt algengara. Þá geyma margir verkefni sín á eigin heimasafni á Háskólanetinu og geta sótt þau þaðan heiman frá."

Á þeim tveimur mánuðum sem liðnir eru frá því að Stúdentagarðar voru beintengdir, hafa ríflega 200 íbúar tengst Netinu og fyrir vikið hefur umferð um Háskólanetið aukist um helming.