Á ANNAN tug íslenskra skipa hafa verið á kolmunnaveiðum við Færeyjar að undanförnu en í gær voru átta íslensk skip að veiðum um 50 mílur fyrir sunnan Færeyjar. Veiði hefur verið mjög góð og er búið að landa um 65.000 tonnum hér á landi á vertíðinni. Um 4.500 til 4.700 kr. hafa verið greiddar fyrir tonnið upp úr sjó en mikil birgðasöfnun á sér stað vegna þess að spurn eftir mjöli hefur verið lítil sem engin.

Mest hefur verið landað hjá Loðnuvinnslunni á Fáskrúðsfirði eða um 19.000 tonnum og Tangi á Vopnafirði hefur tekið á móti um 12.000 tonnum. Hólmaborg SU landaði um 2.000 tonnum hjá Hraðfrystihúsi Eskifjarðar í gærmorgun og Jón Kjartansson SU kom með um 1.300 tonn til Eskifjarðar í gærkvöldi. Hólmaborgin hefur landað samtals um sjö þúsund tonnum á vertíðinni en Jón Kjartansson á milli fimm og sex þúsund tonnum. "Það hefur verið þokkaleg veiði að undanförnu en afurðaverðið hefur lækkað töluvert frá því í fyrra og var það nógu lélegt þá," segir Magnús Bjarnason, framkvæmdastjóri Hraðfrystihúss Eskifjarðar.

"En menn safna bara birgðum því ekkert selst - það er ekki mikil spurn eftir mjöli í augnablikinu. Suður-Ameríka sér fyrir því með því að bjóða mjölið á miklu lægra verði en við getum látið það fyrir."

Síldarvinnslan í Neskaupstað er líka með tvö skip á kolmunnanum. Beitir NK kom inn með rifið troll um helgina og landaði um 700 tonnum eftir þriðja túr en hefur landað samtals um 2.500 tonnum. Börkur NK landaði um 1.750 tonnum í Neskaupstað í fyrrinótt og er kominn með samtals um 6.500 tonn í fjórum túrum. "Við höfum verið að borga um 4.500 til 4.700 krónur fyrir tonnið en lítið er hægt að segja um verðið á mjölinu því ekkert er hægt að selja," segir Freysteinn Bjarnason útgerðarstjóri og bætir við að Noregur sé helsti viðskiptavinurinn varðandi hágæðamjölið. "Það hefur verið dauft yfir sölumálunum en laxatíminn er að byrja og menn treysta á að þetta fari í fiskeldið fyrri hluta sumars."