Byko hefur keypt um 4.000 fermetra lóð Höldurs á horni Tryggvagötu og Hvannvalla.
Byko hefur keypt um 4.000 fermetra lóð Höldurs á horni Tryggvagötu og Hvannvalla.
BYKO, sem verður með eitt stærsta rýmið í nýrri verslunarmiðstöð sem reist verður á Gleráreyrum á Akureyri á næstu mánuðum, hefur keypt 4.000 fermetra lóð af Höldi á horni Tryggvabrautar og Hvannavallar.

BYKO, sem verður með eitt stærsta rýmið í nýrri verslunarmiðstöð sem reist verður á Gleráreyrum á Akureyri á næstu mánuðum, hefur keypt 4.000 fermetra lóð af Höldi á horni Tryggvabrautar og Hvannavallar. Þar mun fyrirtækið einnig reka hluta af starfsemi sinni í framtíðinni og verður þá með aðstöðu beggja vegna Glerárgötu.

Höldur rekur bílasölu fyrir notaða bíla á lóðinni en hún verður afhent nýjum eiganda á næsta ári. Jón Helgi Guðmundsson, forstjóri Byko, sagði að byggt yrði yfir hluta af starfsemi fyrirtækisins á lóðinni en ekki yrði ráðist í þær framkvæmdir fyrr en í fyrsta lagi í lok næsta árs. Starfsemi Byko er nú til húsa í leiguhúsnæði á Furuvöllum.

Jón Helgi sagði að Akureyringar og nærsveitamenn hefðu tekið starfsemi Byko vel og verið skilningsríkir á þær erfiðu aðstæður sem verslun fyrirtækisins er rekin við. "Við ætlum að reyna að bæta aðstöðuna með þessu, enda höfum við mikla trú á Akureyri sem framtíðarstað fyrir starfsemi okkar og jafnframt að bæjarfélagið eigi eftir að vaxa og dafna," sagði Jón Helgi.