Frá undirritun samningsins, f.v. Ólafur Flóvenz frá Orkustofnun, Franz Árnason, framkvæmdastjóri HVA, Bent S. Einarsson, framkvæmdastjóri Jarðborana, og Þór Gíslason aðstoðarframkvæmdastjóri.
Frá undirritun samningsins, f.v. Ólafur Flóvenz frá Orkustofnun, Franz Árnason, framkvæmdastjóri HVA, Bent S. Einarsson, framkvæmdastjóri Jarðborana, og Þór Gíslason aðstoðarframkvæmdastjóri.
HITA- OG VATNSVEITA Akureyrar skrifaði í gær undir samning við Jarðboranir hf. um borun á tveimur holum í Eyjafirði. Annars vegar 1.

HITA- OG VATNSVEITA Akureyrar skrifaði í gær undir samning við Jarðboranir hf. um borun á tveimur holum í Eyjafirði. Annars vegar 1.000 metra rannsóknarholu á Sigtúnum í Eyjafjarðarsveit og hins vegar stefnuborun út úr holu sem ekki hefur nýst, á Laugalandi á Þelamörk. Samningur HVA og Jarðborana hljóðar upp á liðlega 40 milljónir króna en heildarkostnaður við verkið er áætlaður 55-60 milljónir króna.

Franz Árnason framkvæmdastjóri HVA sagði að þessi framkvæmd væri liður í heitavatnsleit og rannsóknum fyrirtækisins og í samræmi við áætlanir frá árinu 1994. Framkvæmdir hefjast um næstu mánaðamót og er ráðgert að þær taki 8-10 vikur. Nýi borinn Sleipnir verður notaður til verksins.

Þór Gíslason aðstoðarframkvæmdastjóri Jarðborana sagði að bora ætti út úr holu númer 10 á Laugalandi á Þelamörk en holan, sem er 900 metra djúp, er þurr. Hann sagði að stefnuborað yrði út úr holunni, frá 900 metrum og niður á að minnsta kosti 1.500 metra, með 20 gráðu halla. Þór sagði að þetta væri í eitt af fyrstu skiptunum sem slíkri aðferð væri beitt á lághitasvæði. Þessari tækni hefur hins vegar verið beitt við borun á háhitasvæðum, m.a. við Kröflu. Unnið hefur verið að því að þróa þessa tækni og lækka kostnað, þannig að einnig sé hægt að nýta hana á lághitasvæðum.

Franz sagði að þótt hola 10 sé þurr, nýttist hún nú í þessu verki og lækki kostnað. Holan var boruð á sínum tíma til að kanna sprunguhalla "en halli sprungunnar var annar en talið var og við lentum öfugu megin", sagði Franz. Hola 11, sem er hinum megin, nýtist hins vegar og verður borað í átt að henni, þ.e.a.s. í átt að Hörgá, úr holu 10.