FIMM félagar úr Björgunarsveitinni Súlum á Akureyri halda nú í dag, miðvikudag, til austurstrandar Grænlands þar sem freista á þess að ná upp líki Hollendings sem féll niður í sprungu þar á föstudag. Maðurinn er talinn af.

FIMM félagar úr Björgunarsveitinni Súlum á Akureyri halda nú í dag, miðvikudag, til austurstrandar Grænlands þar sem freista á þess að ná upp líki Hollendings sem féll niður í sprungu þar á föstudag. Maðurinn er talinn af. Gert er ráð fyrir að leiðangurinn taki tvo til þrjá daga ef vel gengur.

Ingimar Eydal formaður Björgunarsveitarinnar Súlna sagði að beiðni hefði borist frá hópi manna sem verið hafa við fjallgöngur sunnan við Scoresbysund á austurströnd Grænlands að undanförnu. Leituðu þeir til Flugfélags Íslands sem snéri sér til félaga í Björgunarsveitinni Súlum, en félagið sinnir áætlunarflugi milli Akureyrar og Scoresbysunds.

Ingimar sagði að hópur manna hefði að undanförnu verið við fjallgöngur á svæði nokkru sunnan við Scoresbysund og eru aðalbúðirnar þar. Um nokkurn hóp manna væri að ræða, en hann hefði svo skipst upp í nokkra smærri og þannig héldu tveir ferðalanganna í fjallgöngu á föstudag þegar óhappið varð. Annar þeirra féll niður í sprungu og gat félagi hann að sögn Ingimars rætt við hann í fyrstu en síðan dró smám saman af honum. Hann merkti svæðið og snéri til búðanna eftir aðstoð, en þegar aftur var komið á staðinn svaraði maðurinn ekki kalli. Hann var því talinn af.

"Þetta er í fyrsta sinn sem við sinnum björgunarstörfum utan Íslands og óvissuþættirnir eru margir," sagði Ingimar en aðstæður væru um margt erfiðar á svæðinu nú um stundir, þar væri til að mynda um 60 sentimetra nýfallinn snjór yfir öllu.

Um tveggja til þriggja tíma flug er frá Akureyri að Scoresbysundi en þaðan tekur við um tveggja tíma flug með skíðavél Flugfélags Íslands á staðinn sem um ræðir. Reyna á að lenda vélinni um fimm kílómetrum frá staðnum þar sem talið er að maðurinn sé, en takist það ekki verður að lenda skammt frá aðalbúðum leiðangursins og tekur þá við um tuttugu kílómetra ganga að svæðinu.

Þaulvanir menn

"Þetta eru allt saman þaulvanir menn sem við sendum í þennan björgunarleiðangur, menn sem áður hafa unnið við svipuð björgunarstörf, en við gerum okkur grein fyrir að aðstæður þarna á Grænlandi eru allt aðrar en hér á landi," sagði Ingimar. Hann vonaði að staðurinn þar sem talið er að maðurinn sé finnist aftur, en það gæti auðvitað brugðið til beggja vona. Samkvæmt þeim upplýsingum sem björgunarsveitin hefði fengið er áætlað að maðurinn sé á tíu til fimmtán metra dýpi og sagði Ingimar ekki ólíklegt að erfitt yrði að komast niður að honum því sprungan væri þröng. "Við erum að taka saman þann búnað sem fara þarf með í þennan leiðangur og þar er að mörgu að hyggja, það þarf að reyna eftir megni að takmarka þyngdina, því skíðavélin er þung og því ekki hægt að taka allt með. Svo er verið að spá í hvort taka eigi með byssu svo eitt dæmi sé tekið, því ísbirnir eiga það til að leita þarna upp í fjöllin þegar hungrið sverfur að og þá er eins gott að vera við öllu búinn," sagði Ingimar.