VIÐKIPTAHALLI Frakka með sjávarafurðir á síðasta ári varð alls 550.300 tonn á síðasta ári. Verðmæti innfluttra fiskafurða umfram útfluttra nam 13,12 milljörðum franka eða um 136 milljörðum króna. Þetta er samdráttur í magni um 7% og 5% í verðmætum.

VIÐKIPTAHALLI Frakka með sjávarafurðir á síðasta ári varð alls 550.300 tonn á síðasta ári. Verðmæti innfluttra fiskafurða umfram útfluttra nam 13,12 milljörðum franka eða um 136 milljörðum króna. Þetta er samdráttur í magni um 7% og 5% í verðmætum.

Útflutningur nam alls um 437.400 tonnum á síðasta ári. Það er 19% aukning frá árinu áður. Verðmætið nam um 70 milljörðum króna og jókst um 8%. Innflutningur á sama tíma var 987.700 tonn að verðmæti 206 milljarðar króna. Aukning í magni var 3% en verðmætin drógust saman um 1%. Meðalverð á kíló af innfluttu fiskmeti lækkaði um 4% og var um 208 krónur. Verð á útfluttu kílói féll um 9% og var að meðaltali um 160 krónur.

Sé litið á helztu tegundir í innflutningi, jókst verðmæti lax, humars og kola. Verðmæti innflutts túnfisks, alaskaufsa og rækju lækkaði og var lækkunin mest í túnfiskinum. Af útfluttum afurðum jókst verðmæti rækju, lax, túnfisks og fiskiflaka en lækkaði á kola og ansjósu. Bæði magn og verðmæti á útfluttum reyktum laxi jókst en hann fór aðallega til Ítalíu, Spánar og Belgíu.