[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
SVANFRÍÐUR Jónasdóttir alþingismaður skrifar á vefsíðu sína rétt fyrir helgina og fagnar stofnun Samfylkingarinnar sem flokks.

SVANFRÍÐUR segir: "Framundan eru spennandi tímar í lífi Samfylkingarinnar. Formaður hefur verið kosinn póstkosningu sem mörg þúsund félagar tóku þátt í og dagana 5. og 6. maí verður flokkurinn stofnaður. Á þessum tímamótum er gott að rifja upp af hverju við efndum til sameiginlegra framboða undir nafni Samfylkingar fyrir síðustu alþingiskosningar. Í því liggur grunnur nýja flokksins."

Tengjum hugsjónir við veruleikann

OG ÁFRAM segir: "Vinstrihreyfingin hefur ekki verið til mikilla átaka í mörgum áhrifalitlum flokkum. Það verkefni hefur því blasað við að til að ná áhrifum í samfélaginu þyrfti að sameina kraftana og bjóða fram einn öflugan valkost í íslenskum stjórnmálum. Við erum í stjórnmálum til að hafa völd og áhrif. Stjórnmálin eru þó einskis virði án hugsjóna, en hugsjónir lítils virði ef þær tengja sig ekki veruleikanum. Við þurfum að vita bæði hvernig samfélag við viljum skapa og hvernig við viljum koma því á. Þeir sem standa að Samfylkingunni eiga það sameiginlegt að rætur þeirra liggja í hugsjónum um jafnan rétt manna til mannsæmandi lífskjara og þátttöku. Það verður líka leiðarhnoða hins nýja flokks. Svörin eru önnur nú en í byrjun aldarinnar þegar kvenfrelsi og jafnaðarstefna voru að ryðja sér til rúms í stjórnmálum og það er hlutverk róttæks jafnaðarflokks að finna þau svör sem duga til að takast á við brýn verkefni nútímans með það að leiðarljósi að bæta og treysta kjör fólks og tryggja öllum rétt til þátttöku í fjölbreyttu samfélagi þekkingar og upplýsingar."

Róttæk jafnaðarstjórn taki við landsstjórninni

LOKS segir Svanfríður: "Verkefni morgundagsins kalla á nýja hugsun. Það er orðið aðkallandi að róttæk jafnaðarstjórn taki við landsstjórninni. Það þarf að treysta almannahag í stað þeirrar sérhagsmunagæslu sem einkennir núverandi stjórn; efla samkeppni í stað einokunar og fákeppni; treysta velferðarkerfi fólksins í stað velferðarkerfis fyrirtækjanna; að tryggja aðgang allra að menntun og þekkingu svo treysta megi byggð í landinu; treysta stöðugleika í efnahagslífinu svo takast megi að bæta kjörin og efla atvinnulífið og það er orðið brýnt að bæta kjör barnafjölskyldnanna sem setið hafa á hakanum mörg undanfarin ár. Já verkefnin eru mörg og aðkallandi fyrir róttækan flokk sem ætlar sér að hafa veruleg áhrif á nýrri öld. Nú stofnum við nýjan flokk til að koma á því samfélagi sem við viljum sjá á Íslandi."