ARNAR Grétarsson dvelur þessa dagana hjá þýska knattspyrnufélaginu Wolfsburg sem hefur sýnt áhuga á að semja við hann fyrir næsta tímabil. Arnar æfði tvívegis með liðinu í gær og í dag gengur hann til viðræðna við forráðamenn félagsins ásamt umboðsmönnum sínum, Sören Lerby og Kurt Russell.

Wolfsburg er í 7. sæti þegar tvær umferðir eru eftir og liðið á góða möguleika á að tryggja sér þátttökurétt í UEFA-bikarnum annað árið í röð. Í fyrra hafnaði það í sjötta sæti og hefur því á skömmum tíma fest sig í sessi sem eitt af sterkustu liðum Þýskalands en þetta er aðeins þriðja tímabil félagsins í efstu deild.

"Mér líst mjög vel á aðstæður hérna, deildin er sterk, og það yrði því góður kostur að leika með Wolfsburg ef samningar nást," sagði Arnar við Morgunblaðið í gærkvöld.

Hann er laus allra mála frá AEK í Grikklandi þar sem hann hefur leikið í þrjú ár en þjálfarinn þar setti hann út úr leikmannahópnum í febrúar þegar Arnar tjáði þá ákvörðun sína að fara frá félaginu eftir tímabilið.

Þrjú önnur félög hafa boðið Arnari samning fyrir næsta tímabil en það eru Lierse í Belgíu, Fortuna Sittard í Hollandi og Aris Saloniki í Grikklandi. "Lierse er besti kosturinn af þessum þremur og ef dæmið gengur ekki upp hjá Wolfsburg er líklegast að ég fari þangað," sagði Arnar.