ÞORSTEINN Halldórsson er genginn til liðs við 1. deildar lið Vals í knattspyrnu frá Þrótti R. Þorsteinn , sem lék lengi með KR og síðan FH , lagði skóna á hilluna í haust en hefur nú tekið þá fram að nýju.
ÞORSTEINN Halldórsson er genginn til liðs við 1. deildar lið Vals í knattspyrnu frá Þrótti R. Þorsteinn , sem lék lengi með KR og síðan FH , lagði skóna á hilluna í haust en hefur nú tekið þá fram að nýju. Hann er 32 ára og á að baki 151 leik í efstu deild með Þrótti R., FH og KR .

BJARKI Gunnlaugsson gengst í vikunni undir uppskurð á ökkla en hann missti af síðasta leik Preston í ensku 2. deildinni um síðustu helgi vegna meiðslanna.

BARRY Ferguson, leikmaður Glasgow Rangers, var í gær kjörinn knattspyrnumaður ársins í Skotlandi en það voru íþróttafréttamenn sem stóðu að kjörinu. Í öðru sæti var félagi Fergusons í liði Rangers , Giovanni Van Bronchorst og í þriðja sæti varð Mark Viduka hjá Celtic.

KÖLN er komið í þýsku 1. deildina í knattspyrnu eftir tveggja ára dvöl í 2. deildinni. Köln , sem þrívegis hefur hampað þýska meistaratitlinum, tryggði sér sætið með því vinna Hannover , 5:3.

BANDARÍSKI hlauparinn Michael Johnson sem á heimsmetið bæði í 200 og 400 metra hlaupi ætlar að keppa tvívegis í Evrópu í næsta mánuði í undirbúningi sínum fyrir Ólympíuleikana .

JOHNSON , sem varð faðir í fyrsta sinn þegar honum og eiginkonu hans fæddist myndarlegur drengur um síðustu helgi, keppir 200 metra hlaupi í Sevilla á Spáni 9. júní og í Róm á Ítalíu 30. júní. Johnson hefur tekið stefnuna á sigur í 200 og 400 metra hlaupi á Ólympíuleikunum í Sydney í haust líkt og hann gerði á leikunum í Atlanta fyrir fjórum árum.

MARC Degryse var í gær útnefndur knattspyrnumaður ársins í Belgíu . Þetta er í fjórða skiptið sem Degryse verður fyrir valinu. Hann leikur með Germinal Beerschot en lengst af sínum ferli var hann hjá Anderlecht. Svíinn Per Zettenberg , Anderlecht , varð annar í kjörinu og Norðmaðurinn Ole Martin Årst , Gent , varð þriðji.

OLE Gunnar Solskjær segist ekki vera á förum frá Manchester United en mörg lið hafa borið víurnar í þennan snjalla sóknarmann. Solskjær segist vilja vera hjá United eins lengi og félagið vilji hafa sig og hann segist reiðubúnn að framlengja samning sinn um tvö ár en hann á að renna út árið 2004.

JIM Smith, knattspyrnustjóri Derby , hefur verið ákærður af enska knattspyrnusambandinu í annað skipti á tímabilinu fyrir ummæli um dómara. Smith var vísað af varamannabekk Derby þegar liðið lék við Tottenham í síðasta mánuði en hann hélt þá skammarræðu yfir dómaranum vegna brottreksturs Stefans Schnoor , varnarmanns Derby .

OLIVIER Dacourt , miðjumaður hjá Lens í Frakklandi , er að öllum líkindum á leið til Leeds. Dacourt , sem lék með Everton í fyrra, kostar um 800 milljónir króna.

FRANCESCO Toldo hefur tilkynnt að hann muni skrifa undir nýjan samning við Fiorentina og þar með verður ekkert af því að hann verji mark Manchester United næstu árin eins og vonir stóðu til þar á bæ.

JIMMY Floyd Hasselbaink er á förum frá Atletico Madrid í kjölfar þess að félagið er fallið úr efstu deildinni á Spáni. Aston Villa og Tottenham hafa þegar lýst yfir miklum áhuga á hollenska markaskoraranum.