Reynt var að hafa snör handtök við flutning slasaðra.
Reynt var að hafa snör handtök við flutning slasaðra.
Egilsstöðum - Það var stórt og umfangsmikið útkall þegar öll boðtæki lögreglu og björgunarfólks fóru í gang og tilkynnt var um flugslys við brautarenda Egilsstaðaflugvallar. Slysið var ekki raunverulegt, heldur sviðsett og voru því allir kallinu...

Egilsstöðum -

Það var stórt og umfangsmikið útkall þegar öll boðtæki lögreglu og björgunarfólks fóru í gang og tilkynnt var um flugslys við brautarenda Egilsstaðaflugvallar. Slysið var ekki raunverulegt, heldur sviðsett og voru því allir kallinu viðbúnir. Fokker-flugvél hafði hlekkst á í flugtaki og brotlenti utan brautar, við norðanverðan brautarenda. Eldur kom upp í vélinni en 45 farþegar auk þriggja manna áhafnar voru um borð.

Það var Flugmálastjórn sem sá um að koma þessari stórslysaæfingu í kring en vel á þriðja hundrað manns tóku þátt í henni. Unnið var eftir nýju vettvangsstjórnunarkerfi. Haldin hafa verið nokkur námskeið á vegum Almannavarna ríkisins til að kynna þetta kerfi. Það voru Flugmálastjórn, Almannavarnir ríkisins, Ríkislögreglustjóri, Lögreglan í Reykjavík, Rannsóknarnefnd flugslysa, Háskólasjúkrahús Landspítalinn í Fossvogi, Slökkviliðið í Reykjavík, Rauði kross Íslands, starfsmenn Flugfélags Íslands, Landsbjörg, fjölmargir björgunaraðilar á landinu, auk flestra björgunarsveita og viðbragðsaðila á Austurlandi sem komu að undirbúningi æfingarinnar. Auk þess var fjöldi gesta úr öðrum umdæmum og frá Capetown.

Lárus Bjarnason, sýslumaður á Seyðisfirði, var í hlutverki lögreglustjóra og hafði yfirumsjón með aðgerðarstjórn sem hafði aðsetur í lögreglustöðinni á Egilsstöðum. Yfirstjórn skipaði Baldur Pálsson, slökkviliðsstjóra sem aðgerðarstjóra og Helga S. Kærnested vettvangsstjóra. Lárus sagði hópslysaæfingu sem þessa hafa fyrst og fremst það að markmiði að læra af henni. Mikilvægt væri að vita hvernig ætti að bregðast við þegar og ef aðstæður sem þessar sköpuðust. Kerfið sem unnið var eftir er fjölvirkt og miðar að því að ná sem skjótustum árangri á öllum sviðum björgunarstarfsins.

Æfingin dró fram bæði veikar og sterkar hliðar

Lárus sagði þessa æfingu hafa dregið fram bæði sterkar og veikar hliðar í björguninni, sem geri kleift að vita hvað beri að leggja áherslu á, þegar og ef út í rauveruleikann sé komið. Það sé mikilvægt að hver og einn líti í eigin barm og skoði sinn þátt í heildinni með opnum huga. Þannig verði liðsheildin sterkust þegar svo margir aðilar sameinist. Lárus sagði að það hefði komið sér mest á óvart hversu öflug flutningsgeta í flugi á aðra staði, með bráðslasaða farþega, hefði verið. Þrátt fyrir að hér ætti að vera sjúkraflugvél til staðar þá fannst honum við fyrstu sýn flutningsgetan vera sterkasti hlekkurinn í björgunarstarfinu, ásamt boðuninni, að öðrum ólöstuðum.

Á sameiginlegum fundi allra starfseininga eftir æfinguna kom fram að greiningarsveitir og starfslið frá Heilbrigðisstofnun Austurlands hefðu staðið sig frábærlega og sömu sögu væri að segja um áfallahjálparsveitir á vegum Rauða krossins, sem að hluta til voru mannaðar prestum af Austurlandi. "Veikasti hlekkurinn var hins vegar sá, að langan tíma tók að koma slösuðum í greiningarstöð, en þeir lágu dreifðir á stóru svæði, nálægt braki vélarinnar. Það sem fyrst og fremst vantaði þar var betri skipulagning og burðarmenn til að flytja slasaða í sjúkrabíla til að koma þeim á söfnunarsvæði slasaðra. Annars tel ég að æfingin hafi verið góð og skilað þeim árangri og lærdómi sem við þurftum á að halda," sagði Lárus Bjarnason.