Ólafur Melsted
Ólafur Melsted
Skrúðgarðyrkjan er ekki "hobbí" fólks sem hefur áhuga á umhverfis- og garðyrkjumálum, segir Ólafur Melsted, heldur hefur hún hefur verið til sem faggrein allt frá síðustu aldamótum og er löggilt iðngrein.

DAGANA 12.-14. maí nk. verða byggingardagar 2000 haldnir í Laugardalshöll. Yfirskrift byggingardaga í ár er Hús og garðar, hönnun og handverk. Meðal sýnenda að þessu sinni eru Garðyrkjuskóli ríkisins, Félag skrúðgarðyrkjumeistara og Félag íslenskra landslagsarkitekta, en þessir aðilar eru með sameiginlegt sýningarsvæði. Samvinna þessara aðila er þó ekki ný af nálinni, því þessi tvö fagfélög hafa starfað mjög náið með Garðyrkjuskólanum í gegnum tíðina.

Menntun í skrúðgarðyrkju

Skrúðgarðyrkja á Íslandi er ekki nýtt fag. Skrúðgarðyrkjan er ekki "hobbí" fólks sem hefur áhuga á umhverfis- og garðyrkjumálum. Skrúðgarðyrkjan hefur verið til sem faggrein allt frá síðustu aldamótum og er löggilt iðngrein.

Allt frá stofnun Garðyrkjuskólans árið 1939 hefur þar farið fram kennsla í skrúðgarðyrkju, til að byrja með á einni sameiginlegri námsbraut, en frá árinu 1967 á sérstakri braut, skrúðgarðyrkjubraut Garðyrkjuskólans. Nám á skrúðgarðyrkjubraut skiptist í bóklegt nám 4 annir við Garðyrkjuskólann og verklegt nám hjá viðurkenndum skrúðgarðyrkjumeistara í 17 mánuði. Markmið námsins er að veita fræðslu um undirstöðuatriði við byggingu garða og viðhald þeirra, nemendur skulu öðlast færni í plöntuþekkingu fjölærra jurta og sumarblóma, trjáa og runna jafnt í sumar og vetrarbúningi. Nemendur eiga að öðlast færni í hellulögnum, hleðslum, landmælingum, klippingu trjáa og runna og umhirðu þeirra. Einnig eiga nemendur að fá innsýn í rekstur skrúðgarðyrkjufyrirtækja og vera færir um að þreyta sveinspróf í skrúðgarðyrkju. Meðal námsgreina á skrúðgarðyrkjubraut eru grasafræði, jarðvegsfræði, garðblóm, tré og runnar, skrúðgarðafræði, skrúðgarðabyggingafræði, landmæling og tilboðs- og áætlanagerð. Námsgreinayfirlit og áfangalýsingar er að finna á heimasíðu skólans, www.reykir.is

Handverkið skrúðgarðyrkja

Félag skrúðgarðyrkjumeistara var stofnað árið 1967. Allt frá stofnun félagsins hefur félagið haft það að meginmarkmiði að stuðla að uppbyggingu skrúðgarðyrkjunnar á Íslandi. Skrúðgarðyrkjumeistarar starfa ýmist sjálfstætt eða hjá opinberum aðilum. Til að geta talist meistari í skrúðgarðyrkju þarf viðkomandi að hafa lokið meistaraskóla og hlotið meistarabréf í skrúðgarðyrkju, sbr. iðnaðarlög og reglugerðir um löggiltar iðngreinar. Starfssvið skrúðgarðyrkjumeistara er fjölbreytt. Skrúðgarðyrkjumeistarinn byggir upp og viðheldur grænum svæðum, gangstígum, hellulögnum, grjót- og torfhleðslum, oft eftir skipulagsteikningum landslagsarkitekta. Hann hefur innsýn og þekkingu á byggingartæknilegum útfærslum við verklegar framkvæmdir grænna svæða. Skrúðgarðyrkjumeistarinn kann skil á íslenskum staðli IST 30 og þeim reglugerðum og ákvæðum sem snerta hans fagsvið auk almennra reglna um skil og frágang verklegra framkvæmda. Hann þekkir öll þau efni sem notuð eru í skrúðgarðyrkjunni og getur reiknað út magn þeirra svo og rýrnun og þenslu jarðefna. Hann þekkir og kann skil á flestum þeim trjám, runnum, blómum og grastegundum sem ræktuð eru á Íslandi og getur ráðlagt fólki varandi notkun og umhirðu þeirra.

Hönnunin landslagsarkitektúr

Íslenskur landslagsarkitektúr á sér hálfrar aldar sögu hér á Íslandi. Tæp fimmtíu ár eru síðan fyrsti íslenski landslagsarkitektinn kom heim úr námi og hóf störf hérlendis, en það er Jón H. Björnsson, heiðursfélagi í Félagi íslenskra landslagsarkitekta. Félag íslenskra landslagsarkitekta, FÍLA var stofnað af 5 íslenskum landslagsarkitektum árið 1978. Markmið félagsins frá upphafi hefur verið að stuðla að þróun landslags- og garðbyggingarlistar, vinna að skynsamlegri landnotkun og þróun byggðar og tryggja varðveislu náttúru- og menningarverðmæta. Á þessari tæplega hálfu öld hefur byggst upp íslensk landslagshönnun, sem tekur mið af okkar sérstöku skilyrðum. Landslagsarkitektúr er 4-6 ára háskólanám frá viðurkenndum skólum og er lögvernduð starfsgrein hér á landi. Námið verður að sækja erlendis og hafa Íslendingar sótt skóla, m.a. í Kanada, Noregi, Svíþjóð, Danmörku, Bretlandi, Bandaríkjunum og Þýskalandi. Á síðustu misserum hafa komið upp hugmyndir um að stofna til náms í landslagsarkitektúr á Íslandi og skipaður hefur verið vinnuhópur innan FÍLA varðandi þetta mál. Garðyrkjuskóli ríkisins tengist mjög þessari umræðu því að tengsl skólans við landslagsarkitekta í landinu eru mjög sterk, þar sem landslagsarkitektar hafa kennt við skólann allt frá árinu 1952. Kennsla í landslagsarkitektúr á Íslandi er óhugsandi án þátttöku Garðyrkjuskólans vegna þeirrar þekkingar sem sérfræðingar Garðyrkjuskólans búa yfir í landslags- og skrúðgarðabyggingarfræði og einnig í garðplöntum, jarðvegs- og grasafræði. Verksvið landslagsarkitekta felst m.a. í hönnun einka- og fjölbýlishúsalóða, leiksvæða skólalóða, kirkjugarða, íþróttasvæða, vistgatna, torga og almenningsgarða. Landslagsarkitektinn vinnur að skipulagi sumarhúsasvæða, skógræktarsvæða, fólkvanga, þjóðgarða, iðnaðarsvæða og skipulagi umhverfis virkjanir og vegi. Hann vinnur að gerð deiliskipulags, aðalskipulags, svæðaskipulags og mati á umhverfisáhrifum framkvæmda. Allar nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu félagsins, www.fila.is

Framtíðin

Við leggjum nú af stað inn í 21. öldina með alla þá þekkingu og reynslu sem 20. öldin hefur fært okkur. Samvinna þessara tveggja faghópa skrúðgarðyrkjumeistara og landslagsarkitekta við Garðyrkjuskólann er mjög góð. Við starfsmenn Garðyrkjuskólans getum því horft bjartsýnir fram á veginn og lagt áherslu á mikilvægi þeirrar samvinnu sem fyrir er og að hún verði efld og treyst. Stjórnendur fyrirtækja og stofnana sem og almenningur í landinu gera sér góða grein fyrir mikilvægi góðrar menntunar, góðs og vandaðs handverks og metnaðarfullrar hönnunar. Þessir þættir verða seint ofmetnir.

Höfundur er landslagsarkitekt FÍLA, aðstoðarskólameistari Garðyrkjuskólans og fagdeildarstjóri skrúðgarðyrkjubrautar.

Höf.: Ólafur Melsted