SAMNINGAR tókust í launadeilunni í Noregi í fyrrinótt og verkföllum 86.000 félagsmanna í norska alþýðusambandinu var aflýst eða frestað.

SAMNINGAR tókust í launadeilunni í Noregi í fyrrinótt og verkföllum 86.000 félagsmanna í norska alþýðusambandinu var aflýst eða frestað. Féllust vinnuveitendur á töluvert meiri kauphækkanir en þeir höfðu áður samþykkt og það eru því verkalýðsfélögin, sem hrósa sigri. Margir óttast þó, að þessir samningar og þeir, sem enn eru ógerðir, muni hafa slæmar afleiðingar í norsku efnahagslífi.

Nokkrir forystumenn í norsku verkalýðsfélögunum sögðu, að samningarnir væru betri en þeir hefðu sjálfir búist við. Í þeim segir, að tímakaup allra hækki um 12,60 ísl. kr., tvöfalt meira en samið var um í apríl, og tímakaup þeirra, sem hafa minna en 87% af meðallaunum, hækkar um tæplega 30 kr. ísl. Þá munu launþegar fá fimmtu sumarfrísvikuna 2002.

Kostnaðurinn við samninginn, sem náðist í apríl og verkalýðsfélögin höfnuðu, var metinn á 3,5-4% en kostnaðurinn við þessa nýju samninga er talinn vera 4,86%. Áður hafði sérstakt hagfræðingaráð varað við launahækkunum umfram 3,5% en síðustu 12 mánuði hefur verðbólga í Noregi verið 2,5%.

Finn Bergesen, formaður vinnuveitenda, sagði í gær, að samningarnir fælu í sér hættu á auknu atvinnuleysi og hagfræðingar sögðu, að launahækkanirnar myndu hverfa fljótt í aukinni verðbólgu og hærri vöxtum. Þeir telja einnig, að erlendir fjárfestar muni nú hugsa sig um tvisvar áður en þeir fjárfesti í Noregi enda séu þessar kauphækkanir verulega umfram meðaltalið í Evrópu.

Kallar á aukið aðhald

Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, lýsti í gær ánægju sinni með samningana en efnahagssérfræðingar benda á, að þeir þýði í raun, að hann og ríkisstjórnin verði að sýna enn meira aðhald en áður. Enginn vafi sé á, að aðrir hópar muni fara fram á það sama og verkalýðsfélögin enda var það staðfest í gær af Jan Andersen-Gott, frammámanni í samtökum starfsmanna ríkis og bæja. Þeim hefur verið boðin 3,25% launahækkun en ætla ekki að sætta sig við minna en nú hefur verið samið um.

Stoltenberg ætlar að leggja fram fjárlög ríkisstjórnar næstkomandi föstudag en almennt er búist við, að í kjölfar kjarasamninganna muni verðbólgan taka kipp. Það muni síðan aftur leiða til þess, að gengi norsku krónunnar falli gagnvart dollara og öðrum helstu gjaldmiðlunum og við því verði síðan brugðist með vaxtahækkunum.

Verkföllin, sem stóðu í sex daga, eru þau mestu í Noregi frá 1986 og hefði ekki samist, hefðu þau getað orðið þau mestu eftir stríð. Telja margir, að miklar launahækkanir hjá einstaka stjórnanda í fyrirtækjum hafi kynt undir þeim.

Ósló. AP, AFP.

Höf.: Ósló. AP, AFP