SAMKOMULAG er í bígerð milli allra stjórnmálaflokka á Írlandi um hvernig staðið skuli að fjármögnun stjórnmálaflokka.

SAMKOMULAG er í bígerð milli allra stjórnmálaflokka á Írlandi um hvernig staðið skuli að fjármögnun stjórnmálaflokka. Virðist ljóst að framlag hins opinbera til stjórnmálaflokka verður aukið verulega, hámark verður sett á framlög einkaaðila og að allri leynd verður svipt af framlögum fyrirtækja og einstaklinga.

Umræður um breytt fyrirkomulag á fjármögnun stjórnmálaflokkanna á Írlandi fóru af stað í síðasta mánuði í kjölfar þess að ljóstrað var upp um greiðslur einkaaðila til borgarfulltrúa í Dublin í tengslum við skipulagsbreytingar. Stóru flokkarnir tveir, Fianna Fáil og Fine Gael, virðast nú komnir á sömu skoðun og Verkamannaflokkurinn, að auka verði framlög þess opinbera, og samkvæmt frétt The Irish Times er búist við því að Bertie Ahern, forsætisráðherra Írlands og leiðtogi Fianna Fáil, gefi út yfirlýsingu vegna málsins á næstu dögum.

Tillögur Fine Gael gera ráð fyrir því að framlög einstaklinga eða fyrirtækja til stjórnmálaflokka fari ekki yfir þrjú þúsund pund, tæplega þrjú hundruð þúsund íslenskar krónur, á ári hverju. Ennfremur að gerð verði grein fyrir því opinberlega hverjir láta fé af hendi rakna til flokkanna og að leynd verði þ.a.l. svipt af framlögum til flokkanna.

Sinnaskipti Fianna Fáil og Fine Gael koma í kjölfar þess að flokkarnir tveir gerðu innbyrðis rannsókn á því hvort einhverjir borgarfulltrúa flokkanna hefðu þegið fé í skiptum fyrir atkvæði sitt í tengslum við skipulagsbreytingar í Dublin. Talið er víst að frekari uppljóstrana sé að vænta í tengslum við pólitísk spillingarmál á Írlandi en sérstakir dómstólar hafa undanfarin misseri haft það verkefni að rannsaka greiðslur til stjórnmálamanna.