Frímerki Póstsins í febrúar og marz.
Frímerki Póstsins í febrúar og marz.
UM alllangt skeið hefur orðið hlé á skrifum mínum um frímerki og annað efni þeim tengt hér í blaðinu. Ég hef hins vegar orðið þess var, að einhverjir safnarar eru farnir að vonast eftir nýjum þáttum.

UM alllangt skeið hefur orðið hlé á skrifum mínum um frímerki og annað efni þeim tengt hér í blaðinu. Ég hef hins vegar orðið þess var, að einhverjir safnarar eru farnir að vonast eftir nýjum þáttum. Vissulega skortir sjaldnast efni, þegar grannt er skoðað, enda má segja, að það hrannist upp, ef langt líður milli þátta. Skal nú aftur haldið úr hlaði með þátt, en þá er spurningin, hvar skal byrja og hvar skal enda.

Í mörg ár var fastur siður að geta um nýjar útgáfur frá Póst- og símamálastofnuninni, fljótlega eftir að þær komu út. Því miður hefur hér orðið á nokkur misbrestur af ýmsum ástæðum. Síðast mun þetta efni hafa verið á dagskrá í þætti nokkru fyrir áramótin. Að þessu sinni skal vikið að fyrstu þremur útgáfum Póstsins á árinu, en ekki verður unnt að fara mjög nákvæmlega yfir hverja þeirra. Einungis skal reynt að halda að einhverju leyti við þeirri venju, sem fylgt hefur verið um áraraðir, að kynna lesendum nýjar íslenzkar frímerkjaútgáfur.

Árið 2000 er ekki einungis merkilegt fyrir það, að nú er komið nýtt árþúsund með tölunni 2, hvort sem við teljum nýja öld komna eða þetta ár sé hið síðasta á 20. öldinni. Ég játa, að ég er þeirrar skoðunar, að nýja öldin, hin 21., hefjist ekki fyrr en um næstu áramót. En þetta virðist eilíft vandamál og oft mikið tilfinningamál, svo sem sézt hefur á síðum dagblaðanna. Frímerkjaþáttur er ekki vettvangur fyrir umræður um það deilumál, og skal því snúið sér að öðru og skemmtilegra umræðuefni.

Það, sem hæst ber í sögu okkar Íslendinga á árinu 2000, er annars vegar kristnitakan árið 1000 og hins vegar sigling Leifs Eiríkssonar hins heppna vestur um haf og fundur Vínlands fyrir um þúsund árum. Var ekki nema sjálfsagt, að Pósturinn minntist þessara tímamót með frímerkjaútgáfum. Er enginn efi á því, að þessi frímerki vekja athygli meðal allra frímerkjasafnara, og um leið eru þau ágæt auglýsing um land og þjóð.

Fyrstu frímerki ársins komu út 4. febrúar sl. Voru það tvö frímerki, sem eru framhald með myndum af svonefndum villtum ætissveppum. Á fyrra merkinu, 40 kr., er mynd af svonefndum Kantarella-sveppi. Fylgir umsögn Póstsins, að þetta sé góður og vinsæll matsveppur, sem vex í skógum. Hann mun ekki algengur hér á landi, en þekkist þó. Á síðara merkinu, 50 kr., er aftur á móti mynd af algengum sveppi hérlendis. Heitir hann ullserkur á íslenzku.

Tryggvi T. Tryggvason hannaði þessi merki, en þau voru offsetprentuð (Offset lithography) hjá Cartor S/A í Frakklandi.

Þennan sama dag komu út tvö frímerki til að minnast kristnitökunnar árið 1000, hvort 40 kr. að verðgildi. Fyrra merkið kom út í smáörk í samvinnu við Kristnihátíðarnefnd. "Myndefnið túlkar samleið trúar og þjóðar í þúsund ár með tilvitnun í stefið Da pacem Domine (Af gæsku þinni gef oss frið), sem blaktir á nótnastreng eins og fáni yfir fulltrúum þjóðarinnar á Þingvöllum," eins og segir í tilkynningu Póstsins. Frímerkið kom bæði út stakt og í smáörk. Var það einnig offsetprentað í Frakklandi hjá Cartor S/A.

Síðara frímerkið var gefið út í samvinnu við Páfagarð. Sýnir það altarisklæði frá lokum miðalda úr Hóladómkirkju, þar sem líta má biskupana á Hólum, Guðmund góða Arason og Jón helga Ögmundsson, og Þorlák helga Þórhallsson, biskup í Skálholti. Þetta frímerki var offsetprentað hjá Joh. Enschede í Hollandi. Hönnuður þessara frímerkja var Tryggvi T. Tryggvason.

Hinn 16. marz komu svo út fjögur glæsileg frímerki undir heitinu: Fundur Norður-Ameríku. Hönnuður þeirra er hinn frábæri frímerkjateiknari, Þröstur Magnússon. Er ánægjulegt, að hann skuli aftur vera kominn að frímerkjaútgáfu Póstsins eftir alltof langt hlé að mínum dómi og margra annarra. Frímerki þessi voru bæði gefin út stök og eins í smáörk. Ekki neita ég því, að mér finnst svolítið sölubragð af því að gefa jafnframt út smáarkir með sömu frímerkjum - og í reynd þarflaust til venjulegrar notkunar. Hef ég áður vikið að þessari stefnu hér í þáttum mínum. Enda þótt slíkar smáarkir gleðji margan safnarann, er tilgangurinn jafnframt og ekki síður sá hjá póststjórnum að fá fleiri krónur í kassann, eins og sagt er. Finnst mér þannig fulllangt seilzt ofan í vasa safnaranna. Vafalaust finnst mörgum, að þetta einstæða tilefni, fundur Norður-Ameríku fyrir þúsund árum, réttlæti útgáfu þessarar arkar. Hún mun líka trúlega vekja athygli meðal safnara á þeim fornu slóðum, sem Leifur heppni og félagar hans fóru um í árdaga landnáms norrænna manna vestan hafs. Læt ég mynd af örk þessari prýða þennan þátt.

Á 40 kr. frímerki er mynd af líkneski af Þorfinni karlsefni framan við mynd af hnattlíkani, þar sem sjá má þau lönd á norðurhveli jarðar, sem koma við sögu landafundanna. Einar Jónsson myndhöggvari gerði þetta líkneski. Þorfinnur fór fyrir þeim leiðangri, sem mest kvað að í upphafi 11. aldar til að nema land á Vínlandi. Sigldi hann til Vínlands með konu sinni, Guðríði Þorbjarnardóttur, og miklu föruneyti. Dvöldust þau þar í nokkra vetur. Þar fæddist þeim sonur, Snorri Þorfinnsson. Er hann talinn fyrsti afkomandi Evrópumanna, sem fæddist í Ameríku.

Á næstu tveimur verðgildum, 50 og 75 kr., má sjá víkingaskip leggja að landi í Vínlandi. Á fjórða merkinu, 90 kr. að verðgildi, sést sams konar hnattlíkan og á 40 kr. merkinu, en framan við það er mynd af líkneski Leifs heppna, sem Alexander Calder gerði og var gjöf Bandaríkjanna til íslenzku þjóðarinnar á 1000 ára afmæli Alþingis 1930.

Frímerki þessi voru grafin af kunnum leturgrafara eða e.t.v. fremur frímerkjagrafara, Martin Mörck í Svíþjóð, og síðan prentuð í stálstungu hjá Canadian Bank Note Company Ltd. í Kanada. Get ég ekki annað, en glaðzt yfir því að fá aftur frímerki í stálstungu. Þá tel ég, að val verðgilda þessara frímerkja hafi tekizt mjög vel. Tvö lægri verðgildin henta annars vegar sem almennt burðargjald innanlands og hins vegar til Norðurlanda og annarra Evrópulanda. 75 kr. merkið síðan á almennt bréf til landa utan Evrópu. Á þennan hátt kemst boðskapur um landafund Íslendinga vestanhafs til skila meðal erlendra þjóða.

Sakir rúmleysis í Mbl. bíða næstu tvær útgáfur Póstsins næsta þáttar, vonandi samt ekki mjög lengi.

Jón Aðalsteinn Jónsson