PÁLL Pétursson félagsmálaráðherra kveðst hafa áhyggjur af skuldastöðu heimilanna í landinu.

PÁLL Pétursson félagsmálaráðherra kveðst hafa áhyggjur af skuldastöðu heimilanna í landinu. Hann segist munu beita sér fyrir sérstakri vinnu við að leita leiða til að bæta stöðu einstæðra foreldra, en þeir voru 40 prósent þeirra sem leituðu til ráðgjafarstofu heimilanna á síðastliðnu ári. Þetta kom fram við utandagskrárumræðu um skuldastöðu heimilanna á Alþingi í fyrradag. Málshefjandi var Jóhanna Sigurðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.

Jóhanna spurði félagsmálaráðherra hver væri skoðun hans á sívaxandi skuldum heimilanna ásamt mikilli vaxta- og fasteignaverðshækkun sem bitnað hafi með fullum þunga á heimilunum og hvernig ráðherra hygðist bregðast við tillögu ráðgjafarstofu heimilanna vegna mikils greiðsluvanda þeirra.

"Ríkisstjórnin hefur misst öll tök á efnahagsmálunum sem magnað hefur upp skuldir heimilanna. Ríkisstjórnin er klárlega með allt niður um sig í efnahagsmálum og sýnir lítið viðnám við verðbólgunni," sagði Jóhanna. Verðbólguna segir hún koma verst við þá sem höllustum fæti standa en ríkisstjórnin þjóni fyrst og fremst stórfyrirtækjunum í landinu ásamt þeim sem geta leikið sér á verðbréfamarkaðnum.

Jóhanna segir ársskýrslu ráðgjafarstofu heimilanna endurspegla gríðarlegar skuldir heimilanna og við þeim vanda verði að bregðast með margvíslegum úrræðum. Í því sambandi bendir hún sérstaklega á fjölgun úrræða hjá Íbúðalánasjóði, að komið verði á samræmdum neyslustaðli og skattlagning húsaleigubóta verði afnumin.

Ekki þverskurður af ástandinu

Félagsmálaráðherra benti á að ársskýrslan væri ekki þverskurður af ástandinu í þjóðfélaginu, heldur skilagrein um stöðu 600 einstaklinga af þeim verst settu árið 1999. Hann segir þær tillögur sem birtar eru í skýrslunni flestar góðra gjalda verðar og að unnið sé að því að hrinda sumum þeirra í framkvæmd. Ráðherra vitnaði þar til reglugerðar um greiðsluvanda og þess að endurskoðun hafi verið ákveðin á fyrirkomulagi barnabóta. "Fleira mætti telja af þeim tillögum sem við munum beita okkur fyrir sem settar eru fram í skýrslunni," sagði ráðherra.

Hann vakti athygli á því að þrátt fyrir að ástæða væri til að hafa áhyggjur af skuldastöðu heimilanna sé margt jákvætt; skil heimilanna við lánastofnanir fari til dæmis yfirleitt batnandi.

Jóhanna sagði svör félagsmálaráðherra sýna algjört úrræðaleysi ríkisstjórnarinnar, ekki hefði komið fram hvernig úrbætur á skuldastöðu heimilanna yrðu framkvæmdar.