Jörg E. Sondermann
Jörg E. Sondermann
ÞRIÐJU Bach-tónleikar í Breiðholtskirkju verða á morgun, fimmtudag, kl. 20. Tónleikarnir eru í tónleikaröð þar sem leikin verða öll orgelverk Bach af sama orgelleikaranum, Jörg E. Sondermann, annan fimmtudag hvers mánaðar. Tilefnið er 250.

ÞRIÐJU Bach-tónleikar í Breiðholtskirkju verða á morgun, fimmtudag, kl. 20. Tónleikarnir eru í tónleikaröð þar sem leikin verða öll orgelverk Bach af sama orgelleikaranum, Jörg E. Sondermann, annan fimmtudag hvers mánaðar. Tilefnið er 250. ártíð Johanns Sebastians Bach. Ásamt þekktari verkum Bachs er hér um að ræða allar þekktar frumgerðir og tilbrigði, verk sem vafi er á að hann hafi samið og verk sem upphaflega voru ekki samin fyrir orgel, en hæfa orgelinu (t.d. Kunst der Fuge). Alls eru þetta 26 tónleikar 60-65 mínútna langir hver um sig.

Á tónleikunum á morgun verður flutt Prelúdía og fúga í c-moll (BWV 549), Fantasía um sálmalagið Í dauðans böndum Drottinn lá (BWV 695), Canzona í d-moll (BWV 588), Bicinium (Dúett) (BWV 711), Fúga (BWV 716), Forspil (Orgelchoral) (BWV 717), Tríó í G-dúr (BWV 1027), Manualiter (án fótspils) (BWV 683), Ricercare (BWV 737), Manualiter (eldri gerð) (BWV 683a), Forspil (BWV 762) og Toccata og fúga í d-moll (BWV 538).

Jörg E. Sondermann er fæddur 1957 í Witten í Þýskalandi og hefur haldið tónleika víða um lönd, m.a. í Þýskalandi, Hollandi, Sviss, Frakklandi, Póllandi og Finnlandi. Hér á landi hefur hann haldið tónleika á Akureyri, Ísafirði, Selfossi og í Hallgrímskirkju. Hann hefur einnig orgeltónlistarstundir í Hveragerðiskirkju annan sunnudag hvers mánaðar. Í efnisvali sínu hefur hann lagt mesta áherslu á verk J.S. Bach og jafnframt Max Regers og samtímamanna hans auk verka núlifandi tónskálda.

Jörg Sondermann flutti til Íslands haustið 1997 og hefur síðan starfað sem organisti í Hveragerðis- og Kotstrandarsóknum. Hann kennir einnig kórstjórn og orgelleik við Tónskóla Þjóðkirkjunnar.

Tónleikaröðin er skipulögð í samstarfi við Hjálparstarf kirkjunnar og Goethe-Centrum og Breiðholtssókn.

Seinustu tónleikarnir í þessari tónleikaröð verða 11. febrúar 2001.

Aðgangseyrir, 900 kr., rennur til Hjálparstarfs kirkjunnar.