Gunnar Jónatansson
Gunnar Jónatansson
Aðildarfélög innan JC munu standa fyrir þematengdum dögum í hverjum mánuði, segir Gunnar Jónatansson, þar sem vakin verður athygli á ýmsum þáttum tengdum bættri umferð.

Umferðarslysum fjölgar stöðugt og er skelfilegt til þess að hugsa hversu margir eiga um sárt að binda í kjöfar alvarlegra slysa. Umferðin er stöðugt að aukast og hraði þjóðfélagsins endurspeglast úti á götum borga og bæja rétt eins og á þjóðvegum landsins. Við þessu verðum við að sporna með öllum tiltækum ráðum og markmiðið verður að vera að fækka umferðaslysum verulega. Á þessu ári leggur Junior Chamber-hreyfingin á Íslandi mikla áherslu á að vekja athygli almennings á ávinningi þess að bæta aksturslag ökumanna. Við gerum þetta ekki óstudd heldur höfum við fengið til liðs við okkur nokkur mjög öflug fyrirtæki sem leggja okkur lið með ýmsu móti. Um er að ræða samfélagsverkefni sem við köllum "Bætt umferð betra líf" og er unnið í samvinnu við Ingvar Helgason hf. og hagsmunaaðila tengda umferð. Ingvar Helgasonvar fyrsti landsforseti Junior Chamber á Íslandi sem nú í ár fagnar 40 ára afmæli sínu.

Tilgangur verkefnisins er að hvetja ökumenn til að bæta aksturslag og bæta þannig líf fjölmargra einstaklinga. Markmiðið er að ná til sem flestra ökumanna á öllum aldri, um land allt og vekja athygli þeirra á eftirminnilegan máta.

JC-hreyfingin hefur áður komið að slíku verkefni og nægir þar að nefna slagorðið: "Á eftir bolta kemur barn", sem var á sínum tíma verkefni unnið af JC-hreyfingunni.

Til stendur að gefa út bækling á landsvísu sem tekur efnislega á umferðarmálum. Í honum verður rætt við hagsmunaaðila er tengjast umferðamálum s.s. tryggingafyrirtæki, fjármögnunarfyrirtæki, olíuinnflytjendur, umferðarráð, lækna, fórnarlömb slysa í umferðinni, farsímafyrirtæki og aðila í bílgreinum. Bæklingur þessi verður unninn í samráði við fagfólk á öllum stigum.

Bæklingurinn verður sendur á hvert heimili um mitt sumar, og á að vekja athygli á raunsannan máta um þær sorglegu staðreyndir sem umferðin býr yfir ásamt fyrirbyggjandi þáttum sem leiða til betri umferðar og þannig betra lífs.

Ekki er um skyndiverkefni að ræða, það er unnið af Junior Chamber Íslandi í samvinnu við Ingvar Helgason hf. sem hefur lagt til bifreið sem notuð verður sem ímynd verkefnisins, merkt Junior Chamber, slagorði verkefnisins og samstarfsaðilum. Hér er ekki um að ræða skyndiátak eina helgi heldur munum við vekja athygli almennings á þessum málum frá miðjum maímánuði til loka desember.

Aðildarfélög innan Junior Chamber Íslands munu standa fyrir þematengdum dögum í hverjum mánuði þar sem vakin verður athygli á ýmsum þáttum tengdum bættri umferð. Þar má nefna mikilvægi notkunar bílstóla, handsfrjáls búnaðar fyrir farsíma, vetrarbúnaðar o.fl.

Unnið verður að gerð límmiða sem sendur verður út í samráði við umferðarráð þar sem slagorðið "Bætt umferð betra líf" verður notað. Límmiðum þessum, sem ætlaðir eru til álímingar innan á bílrúður, verður dreift með útsendum bifreiðagjöldum.

Drögum fram það besta

Junior Chamber er síungur félagsskapur einstaklinga sem vill taka til hendinni í ýmsum þjóðþrifamálum og öðlast við það dýrmæta þjálfun í leiðinni. Verkefnið sem hér er lýst að ofan er aðeins eitt fjölmargra sem félagsmenn framkvæma. Í dag, 10. maí, á JC-deginum stöndum við fyrir námstefnu um framúrskarandi árangur. Þar spyrjum við: Hvort skiptir meira máli í ört vaxandi samkeppni - kunnátta eða persónueiginleikar? Hvað er það sem ræður úrslitum um hvort við náum framúrskarandi árangri? Er það eintóm heppni eða getum við stýrt því sjálf? Námstefnan miðast að því að draga fram þá þætti sem einkenna framúrskarandi einstaklinga og benda á hagnýtar leiðir sem við getum öll notað til að ná betri árangri. Námstefnan er sambland af námskeiði, fyrirlestrum, og verkefnavinnu.

Starfið í Junior Chamber miðast stöðugt að því að draga fram það besta í hverjum einstaklingi. Við höldum fjölmörg námskeið sem standa félagsmönnum okkar til boða allt árið um kring. Okkar þekktustu námskeið tengjast ræðumennsku, fundarstjórn og skipulögðu hópastarfi.

Þjálfun til forystu

En það er til lítils að fara á námskeið ef ekki er vettvangur til þess að nota þekkinguna og afla reynslu. Við stundum þjálfun í ræðumennsku með virkri þátttöku á félagsfundum og í ræðukeppnum. Við þjálfum skipulagshæfileika með þátttöku í nefndum sem vinna að fjölbreyttum verkefnum og er "Bætt umferð betra líf" gott dæmi um það. Með þessu móti fá félagsmenn dýrmæta reynslu og þekkingu í öllum grundavallaratriðum fundarskapa og nefndarvinnu sem þeir geta síðan notað í vinnu eða félagslífi tengdu t.d. skólum eða íþróttafélögum.

Upplýsingar um starfsemi félaganna er að finna á heimasíðu okkar www.jc.is.

Junior Chamber Ísland er þessa dagana að kynna stafsemi 10 aðildarfélaga um allt land með það í huga að bjóða nýju fólki að kynnast hreyfingunni. Það kostar um 1.400 kr. á mánuði að vera í JC sem síðan skilar sér beint til félagsmanna í formi námskeiða og símenntunar á ýmsum sviðum.

Höfundur er landsforseti Junior Chamber Íslands.