SÉRFRÆÐINGAR telja að veltan á auglýsingum í tölvupósti í Bandaríkjunum muni vaxa mjög á næstu árum á kostnað póstsendra auglýsinga og beinnar markaðssóknar.

SÉRFRÆÐINGAR telja að veltan á auglýsingum í tölvupósti í Bandaríkjunum muni vaxa mjög á næstu árum á kostnað póstsendra auglýsinga og beinnar markaðssóknar. Í nýlegri skýrslu bandarísks markaðsrannsóknarfyrirtækis kemur fram að veltan á auglýsingum í tölvupósti muni margfaldast á næstu árum. Í fyrra var veltan á þessum auglýsingamarkaði í Bandaríkjunum 164 milljónir dala en markaðssérfræðingar telja að hún muni nema um 7,3 milljörðum dala árið 2005. Ástæðan er sú að mjög auðvelt er að ná beint til neytenda með þessum hætti og það hefur sýnt sig að fé sem fyrirtækin verja í tölvupóstsauglýsingar skilar sér vel til baka. Þó er varað við því að neytendur geti orðið þreyttir á að fá stöðugan auglýsingapóst og að gildi auglýsinganna kunni að minnka fyrir vikið. Í fyrra fengu neytendur í Bandaríkjunum að meðaltali um 40 auglýsingaskeyti í tölvupósti en talið er að sú tala muni verða orðin 1.600 árið 2005.

New York, AFP

Höf.: New York, AFP