Nýfædd börn á vöggustofu kvennadeildar Landspítalans.
Nýfædd börn á vöggustofu kvennadeildar Landspítalans.
UNGBARNADAUÐI á Íslandi er í lágmarki og ekki má fórna öryggi til þess eins að verðandi mæður geti haft hlutina algerlega eftir sínu höfði segir Hildur Harðardóttir fæðingarlæknir og bætir við að fagleg sjónarmið verði að ráða ferðinni.

UNGBARNADAUÐI á Íslandi er í lágmarki og ekki má fórna öryggi til þess eins að verðandi mæður geti haft hlutina algerlega eftir sínu höfði segir Hildur Harðardóttir fæðingarlæknir og bætir við að fagleg sjónarmið verði að ráða ferðinni.

Hildur gagnrýnir Marsden Wagner, sérfræðing í barna- og nýburalækningum, sem staddur var hér á landi í liðinni viku í boði Ljósmæðrafélags Íslands og rætt var við í Morgunblaðinu þar sem hann hélt því fram að engin vísindaleg rök mæltu með því að konur fæddu börn sín á sjúkrahúsi. Því fylgdi í raun aukin áhætta vegna hræðslu lækna við fæðingar og vandamál tengd fæðingum og minni líkur væru á því að konur næðu að slaka á í fæðingunni.

Ekki kallað á lækni ef fæðing er eðlileg

Hildur benti á að á Landspítalanum tæki ljósmóðir á móti konum sem koma á spítalann í fæðingu og ef fæðing væri að öllu leyti eðlileg væri ekki kallað á lækni.

"Samstarfið milli lækna og ljósmæðra er því mjög mikilvægt," sagði hún. "Þær kalla á lækni finnist þeim fæðingarferlið vera óeðlilegt eða þörf sé á inngripum eða lyfjagjöf og þá er haft samráð. Það er því ljóst að læknar búa ekki til ástæður til að gera óþarfa inngrip. Það er fáránleg staðhæfing og algerlega órökstudd að læknar séu hræddir við fæðingar og framkvæmi því ónauðsynleg inngrip. Fæðingarinngrip eru gerð við vissar ábendingar og aldrei nema að vel athuguðu máli. Að halda því fram að fæðing á fæðingarheimili sé "hættuminni" en fæðing á sjúkrahúsi er einnig úr lausu lofti gripið. Það er ekki hægt að bera saman sjúkrahús þar sem áhættufæðingar fara fram og fæðingarheimili þar sem útvalinn hópur með enga áhættuþætti fæðir."

Hildur sagði að það gæti verið rétt að það ætti við um einhverjar konur að þær yrðu stressaðar í návist lækna, en hitt væri allt eins líklegt að konur vildu hafa lækni til staðar og fyndist það frekar róandi.

"Hver kona hefur mismunandi áherslur hvernig hún vill haga fæðingunni," sagði hún. "Konur hafa líka sjálfar mismunandi skoðanir á því að hve miklu leyti þær vilja stjórna fæðingunni og að hve miklu leyti þær vilja leggja þetta í hendur ljósmóður eða læknis."

Vilja líka fara í hina áttina og panta keisaraskurð

Hildur sagði alls ekki gefið að allar konur litu svo á að aukin fjölbreytni í fæðingarþjónustu þýddi fæðingu á fæðingarheimili eða heimafæðingu.

"Það eru líka til konur sem vilja fara í hina áttina og panta keisaraskurð þegar þess er ekki þörf," sagði hún. "Það er alltaf reynt að koma til móts við óskir kvennanna en hins vegar er alveg ljóst að fagleg sjónarmið eiga að ráða ferðinni."

Hún sagði að hér mætti nefna annan vanda og hann væri sá að í

mæðravernd hefðu konur ekkert val. "Þeim er bent á heilsugæslustöð í sínu hverfi eða Heilsuverndarstöðina, þar sem nú er nýstofnuð Miðstöð Mæðraverndar í Reykjavík, en geta ekki valið sér ljósmóður eða lækni til að vera í eftirliti hjá á meðgöngunni," sagði hún. "Göngudeild kvennadeildar hefur verið lögð niður en hluti lækna kvennadeildar tekur þátt í mæðravernd á Miðstöð Mæðraverndar. Á heilsugæslustöðvunum er mæðravernd sinnt af heilsugæslulæknum og ljósmæðrum, en ekki allar heilsugæslustöðvar hafa ljósmóður og gegnir þá hjúkrunarfræðingur því starfi.

Þarna vantar fleiri valkosti í mæðraverndina, til dæmis í líkingu við MFS-eininguna þar sem sama ljósmóðir sinnir konunni á meðgöngu, í fæðingu og í sængurlegu. Þar skiptir að mínu mati miklu máli að konan nær að kynnast á meðgöngunni þeirri ljósmóður sem síðan sinnir henni í fæðingu. Konan þarf þá ekki að skapa tengsl við nýja ljósmóður þegar hún kemur inn í fæðingu. Það getur minnkað kvíða hjá verðandi móður að vita að hún muni sjá kunnuglegt andlit við komu á deildina."

Hún sagði að eingöngu heilbrigðar konur fengju þjónustu MFS en það hefði einmitt verið gagnrýnt að heilbrigðar konur fengju bestu þjónustuna sem veitt væri á kvennadeildinni.

"Það hefur verið talað um að stofna fleiri einingar svipaðar MFS og er það af hinu góða. Læknar á kvennadeild hafa átt mjög gott samstarf við ljósmóður í MFS-einingunni. Það má hins vegar benda á að um 30% kvenna detta út úr MFS annaðhvort á meðgöngu eða í fæðingu því þær þurfa á sérhæfðri aðstoð að halda, sem ljósmóðirin getur ekki veitt. Þetta má leysa með því að hafa teymi lækna og ljósmæðra, svipað að uppbyggingu og MFS, og læknar teymisins væru þá á vakt fyrir sitt teymi. Þá gætu konur ekki aðeins haft "sína" ljósmóður á vakt heldur einnig "sinn" lækni. Það er ekki síður mikilvægt að konur með alvarlega sjúkdóma svo sem sykursýki fái samfellda þjónustu á meðgöngu, í fæðingu og sængurlegu. Í dag sinna sömu læknar kvennadeildar öllum konum með sykursýki á meðgöngu en ljósmæður vantar í teymið. Þannig má hafa mörg teymi, mismunandi samsett m.t.t. lækna og ljósmæðra, með mismunandi áherslum í mæðravernd annars vegar eftir óskum kvenna og hins vegar eftir áhættuþáttum."

Hildur sagði að það mætti miða við það að 75-80% kvenna fæddu

eðlilega og 20-25% þyrftu á inngripum að halda. Vandamálið er hins vegar að ekki er alltaf hægt að sjá fyrir hvar vandamálin koma upp. Stundum koma þau brátt, algerlega ófyrirséð. Á kvennadeild Landspítalans fæddu árið 1998 16,6% kvenna með keisaraskurði, en tíðnin hefur verið að hækka frá 1960.

Fæðingarinngrip með töngum hefði verið í 1% tilfella það ár og sogklukka notuð í 7,5% tilfella. Þetta væri ekki hátt hlutfall.

Ekkert við fæðingar- heimili að athuga

Hildur sagði að ekkert væri við það að athuga að ljósmæður stofnuðu fæðingarheimili. "Það má hins vegar ekki slaka á kröfunum," sagði hún. "Ef reka á fæðingarheimili þurfa að vera þar til taks fæðingarlæknir, barnalæknir og svæfingarlæknir og þar þarf að vera aðstaða fyrir fæðingarinngrip þegar þörf krefur."

Hún sagði að annar kostur gæti verið fýsilegri í ljósi aðstæðna á Íslandi. "Hann er sá að konur fæði hér á Landspítalanum en fari síðan eftir tólf tíma eða sólarhring á fæðingarheimili þar sem þær liggja sængurleguna," sagði Hildur. "Auðvitað er órökrétt að sængurkonur liggi á sjúkrahúsi því að þær þurfa ekki sjúkrarúm eins og gjörgæslusjúklingur eða alvarlega veik kona. Þetta er möguleiki sem hefur ekki verið skoðaður. Hins vegar hafa snemmútskriftir og heimaþjónusta notið vaxandi vinsælda."

Erfitt að bæta sig enn frekar

Að sögn Hildar er erfitt að draga meira úr ungbarnadauða en nú er.

"Við erum komin á það stig að ungbarnadauði er í lágmarki," sagði hún. "Ef við ætlum að draga enn frekar úr ungbarnadauða þarf að leggja töluvert fé í mæðraverndina. Í þróunarríkjum er hægt að ná góðum árangri með tiltölulega litlu fé, en þegar ungbarnadauði er lítill fyrir þarf mikið fé til að bæta sig. Við getum bætt okkur enn frekar með því að endurskipuleggja mæðraverndina, t.d. með því að taka upp skimun fyrir bakteríu (streptokokkar, grúppa B) í leggöngum kvenna á síðasta hluta meðgöngu, en þessi baktería getur valdið alvarlegum sýkingum hjá barni. Þá má bæta enn frekar skimun vegna fósturgalla og leita skipulega að meðgöngusykursýki."