Séra Guðmundur Þorsteinsson, prófastur í Reykjavíkurprófastsdæmi eystra, og séra Gylfi Jónsson, héraðsprestur í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra, voru meðal þeirra sem kynntu starf kirkjunnar.
Séra Guðmundur Þorsteinsson, prófastur í Reykjavíkurprófastsdæmi eystra, og séra Gylfi Jónsson, héraðsprestur í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra, voru meðal þeirra sem kynntu starf kirkjunnar.
HÁTT í 20 þúsund manns sækja að jafnaði í viku hverri þær 190-250 samverustundir sem 19 kirkjur Reykjavíkurprófastsdæmanna tveggja bjóða til.

HÁTT í 20 þúsund manns sækja að jafnaði í viku hverri þær 190-250 samverustundir sem 19 kirkjur Reykjavíkurprófastsdæmanna tveggja bjóða til. Forráðamenn prófastsdæmanna segja starf kirkjunnar hafa aukist mjög að fjölbreytni á síðustu 10 til 15 árum og séu nú haldnar margs konar sérhæfðar messur og meira um að messur séu fluttar út úr kirkjunni og til fólks.

Séra Guðmundur Þorsteinsson, prófastur Reykjavíkurprófastsdæmis eystra, kynnti ásamt nokkrum samstarfsmönnum fjölmiðlum starf kirkjunnar í prófastsdæmunum. Hann sagði aukna fjölbreytni í kirkjustarfi hafa mælst vel fyrir og væri aukin aðsókn merki um það. "Kirkjan hefur fengið nýtt hlutverk í hugum fólks og þróun seinni ára bendir til þess að hún sé í æ meira mæli farin að taka við félagsstarfi fólks á öllum aldri. Kirkjan er jafnframt orðin einn af stærstu vinnustöðum borgarinnar þar sem minnst 400 manns auk prestanna eru starfandi í ólíkum störfum innan kirkjunnar sem ritarar, aðstoðarfólk ýmiss konar, organistar og kirkjuverðir, svo dæmi séu tekin," segir m.a. í samantekt frá fundinum.

Sr. Gylfi Jónsson, héraðsprestur í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra, sagði að í dæmigerðri viku í kirkjunum væru 23 guðþjónustur í báðum prófastsdæmunum, 19 barnaguðsþjónustur, 18 foreldramorgnar, yfir 40 samverustundir fyrir börn, 23 samverur í æskulýðsstarfi, 17 í öldrunarstarfi, 20 kyrrðarstundir og 27 annars konar fundir og samverur. Hann sagði að árið 1994 hefðu um 140 vikulegar samverur verið í kirkjunum, 150 árið 1996, en nú væru þær 190 og aðrar tölur sýna að þær eru allt upp í 250.

Fjölgun sérþjónustupresta

Þá var á fundinum bent á að fjölgað hefði mjög margs konar sérþjónustu kirkjunnar. Lengi vel hefði aðeins verið ein staða sjúkrahússprests en nú eru þær sex, einnig störfuðu nú prestar sérstaklega að málefnum aldraðra, nýbúa, heyrnleysingja og fatlaðra, svo dæmi séu nefnd og nú síðast hefði prestur tekið að sér forystu í miðborgarstarfi og lengi hefur fangaprestur verið starfandi og skólaprestur með hléum. Einnig var bent á að æ fleiri starfsmenn en prestar sinntu nú störfum innan kirkjunnar.

Sr. Anna Sigríður Pálsdóttir, prestur í Grafarvogskirkju, kynnti ýmsar sérhæfðar guðsþjónustur sem kirkjurnar standa fyrir og greint hefur verið frá í Morgunblaðinu, svo sem Tómasarmessur, djassmessur, kantötumessur, þjóðlagamessur, æðruleysismessur, messur í Kolaportinu, á skíðasvæðum og messur kvennakirkjunnar.

Sr. Pálmi Matthíasson, sóknarprestur í Bústaðasókn, kynnti notkun Netsins í kirkjulegu starfi. Sagði hann sína kirkju hafa eigin heimasíðu, kirkja.is, sem Olgeir Helgason hefði haft veg og vand af. Þangað væru um 17 heimsóknir á dag og sagði Pálmi ljóst að ná þyrfti til fleiri með þessum miðli áður en hægt yrði að leggja niður hefðbundið safnaðarblað sem borið væri á heimili í sókninni. Á heimasíðunni væru sagðar fréttir af starfinu, birtar greinar og fróðleikur og fermingarundirbúningur gæti farið fram um Netið, ekki síst fyrir börn sem byggju erlendis. Pálmi sagði unglinga duglegri að hafa samband og senda sér pistla gegnum Netið en mun erfiðara væri að fá þá til að skrifa hefðbundnar ritgerðir með hefðbundnum hætti.

Kirkjan fylgi fólkinu eftir

Sr. Jóna Hrönn Bolladóttir greindi frá starfi í miðborg Reykjavíkur sem hún hefur sinnt undir merkjum leikmannahreyfingar KFUM og K. Hún lýsti þeirri von að þjóðkirkjan og borgaryfirvöld styddu kristilegt miðbæjarstarf enn frekar. Sr. Bjarni Karlsson, sóknarprestur í Laugarnessókn, lýsti ferð þeirra hjóna til Amsterdam til að kynna sér kirkjustarf í stórborg. Sagði hann merkilegt að þar væru einkum litlar og fjárvana kirkjur að starfi sem sendu fólk sitt út á götur til að veita illa komu fólki skjól og meðferð. Stóru kirkjurnar væru hins vegar þöglar, frá þeim bærust einungis klukknaköll. Lögðu þau áherslu á að kirkjan yrði að fylgja eftir örum breytingum í borgarsamfélaginu og fylgja fólkinu eftir.