SKAGSTRENDINGUR hf. og Burðarás hf. hafa gengið frá kaupum á auknum hlut í Nasco ehf. Þar með er Skagstrendingur orðinn stærsti hluthafinn í félaginu, með 36,6% eignarhlut. Í janúar á þessu ári gengu Skagstrendingur og Burðarás hf.

SKAGSTRENDINGUR hf. og Burðarás hf. hafa gengið frá kaupum á auknum hlut í Nasco ehf. Þar með er Skagstrendingur orðinn stærsti hluthafinn í félaginu, með 36,6% eignarhlut.

Í janúar á þessu ári gengu Skagstrendingur og Burðarás hf. frá kaupum á 25% hlut í Nasco. Þá var samið um kauprétt á 26% hlut til viðbótar sem nýir eigendur hafa nú nýtt sér ásamt kaupum á 10% hlut fyrri eigenda. Samanlagt eiga því Burðarás og Skagstrendingur 61% hlut í Nasco.

Jóel Kristjánsson, framkvæmdastjóri Skagstrendings, segir að náið samstarf hafi verið milli Skagstrendings og Nasco undanfarin misseri um útgerð rækjufrystiskipa og hráefnisöflun til rækjuvinnslu Skagstrendings á Skagaströnd. "Við viljum tryggja og treysta það samstarf áfram, en það hefur verið hagfellt fyrir Skagstrending, og meðal annars gert okkur kleift að verjast þeim aðstæðum sem skapast hafa vegna aflabrests á heimamiðum. Af 2,4 milljarða króna veltu Skagstrendings á árinu 1999 var rúmur milljarður úr veiðum og vinnslu á rækju. Skagstrendingur kemur að útgerð tveggja rækjufrystiskipa í samstarfinu við Nasco og afla þau stærsts hluta þess hráefnis sem unnið er í rækjuvinnslu Skagstrendings," segir Jóel.

Að hans sögn var ákveðið að fara út í kaupin þrátt fyrir að rekstrarumhverfið í rækjunni sé ekki sérlega gott í dag. "Við höfum meira horft þarna til langtímahagsmuna. Nasco býr yfir veiðiheimildum utan íslenskrar fiskveiðilögsögu og möguleikum til þess að auka þær veiðiheimildir í framtíðinni."

Útgerðin meira undir rekstur Skagstrendings

Helstu breytingar sem Jóel sér fyrir sér á rekstri Nasco eru þær að útgerðin verði færð meira undir rekstur Skagstrendings. Aðspurður hvort samlegðaráhrif hljótist af kaupunum segist hann reikna með að ákveðin hagræðing eigi að nást út úr samstarfi Skagstrendings og Nasco, bæði í útgerð og vinnslu afurða.

Nasco var stofnað árið 1995 af Agli Guðna Jónssyni og eiginkonu hans, Huldu Þorbjarnardóttur. Starfsemi félagsins hefur byggst á þremur þáttum: útgerð, rækjuvinnslu, afurðasölu og miðlun hráefnis. Velta samstæðunnar árið 1999 var rúmlega 4 milljarðar króna. Félagið tengist útgerð 9 rækjufrystiskipa á Flæmingjagrunni við Kanada og í Barentshafi sem veiða á leyfum sem fengin eru fyrir millgöngu Nasco. Af þessum 9 skipum eru 3 í eigu Nasco. Þá rekur félagið rækjuvinnslu í Bolungarvík.

Stjórn Nasco er skipuð þremur mönnum, tveimur frá nýjum eigendum og einum frá fyrri hluthöfum. Egill Guðni Jónsson, fyrrverandi forstjóri Nasco, verður stjórnarformaður félagsins.