Bátafólkið á Halong-flóa býr um borð í stærsta bátnum og veiðir jafnframt á minni bátum.
Bátafólkið á Halong-flóa býr um borð í stærsta bátnum og veiðir jafnframt á minni bátum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
UNDIR lok nýliðins mánaðar kynnti sjávarútvegsráðuneytið í Víetnam áætlun þar sem gert er ráð fyrir að fiskeldi í landinu skili meira en tveimur milljónum tonna á ári eftir 10 ár.

UNDIR lok nýliðins mánaðar kynnti sjávarútvegsráðuneytið í Víetnam áætlun þar sem gert er ráð fyrir að fiskeldi í landinu skili meira en tveimur milljónum tonna á ári eftir 10 ár. Gangi áætlunin eftir verður fiskeldið ein dýrmætasta atvinnugrein landsins með um 2,5 milljarða dollara, um 187 milljarða króna, í útflutningstekjur á ári, en íbúar Víetnam eru tæplega 80 milljónir. Í ár stefna Víetnamar að því að veiðar og eldi skili um 1,9 milljónum tonna, að verðmæti um 80 milljarða króna, en í fyrra skiluðu 1,8 milljónir tonna um 70 milljörðum.

Strandlengjan í Víetnam er um 3.200 km löng. Fiskimenn hafa löngum sótt björg í bú á smábátum og vegna mikillar sóknar á grunnsævið var gengið mjög nærri ýmsum stofnum. Aðhaldsaðgerðir hófust fyrir áratug og kemur fram í dagblaðinu Viet Nam News að þær hafi borið árangur. Margar tegundir fisks, rækju og krabba eru byrjaðar að ganga aftur inn á hefðbundin veiðisvæði og með aukinni sókn á djúpsævi og auknu eldi sé útlitið bjart.

Samkvæmt fréttum í fyrrnefndu dagblaði var þó nokkru fjármagni varið í uppbyggingu skipasmíðastöðva í Víetnam í fyrra og í ár er gert ráð fyrir að lokið verði við smíði 17 stórra skipa með úthafsveiðar í huga. Miklar hafnaframkvæmdir eiga sér stað, verið er að reisa fiskvinnsluhús og í raun bæta og nútímavæða alla aðstöðu vegna sjósóknar og fiskeldis.

Annar heimur

Með ofanritað í huga er heimsókn á matvörumarkaðinn í Hong Gai við Halongflóa skammt frá landamærum Kína í norðurhluta Víetnam eins og að koma í annan heim, en fiskur, einkum skelfiskur, er stærsti hluti markaðarins.

Fyrir það fyrsta sjást engin stór fiskiskip, hvað þá miðlungsstór, heldur er eingöngu um bátafólk að ræða, stórfjölskylduna. Svo virðist sem flestir búi í litlum "móðurskipum" en haldi til veiða á enn minni bátum, en veitt er á nóttunni og komið að landi árla morguns.

Í öðru lagi er hafnaaðstaðan neðan við markaðinn ekki merkileg, bátunum er nánast rennt upp í fjöru eins og grásleppukarlarnir gera við Ægisíðu í Reykjavík, aflinn borinn í land í litlum körfum, og síðan flokkaður, snyrtur og seldur á markaðnum, sem er við fjöruborðið. Aðallega er um skelfisk að ræða og ber mest á rækju og litlum smokkfiski, en úrvalið er mikið. Skýringin á því að nær eingöngu er um skelfisk að ræða er sú að botnfiskur er seldur beint til Kína. Í sambandi við hafnaraðstöðuna ber þess líka að geta að skammt frá er aðstaða fyrir stærri skip, m.a. ferju og stærri báta sem flytja ferðamenn um flóann. Eyjan Hon Oan er ekki langt undan, en þar voru tekin myndskeið sem sjá má í kvikmyndinni Indókína.

Mikil spurn

Ekki er um eiginlega kælingu á fiskinum að ræða. Markaðurinn skiptist upp í margar götur og er sölufólkið, glaðlynt og brosandi, á sínum bás með afurðirnar í körfum, en stundum eru þær í vatni eða sjó. Hins vegar er aflinn ferskur og mikil spurn eftir honum, bæði hjá almenningi, verslunareigendum og matstöðum. Því skiptir varan skjótt um eigendur en víetnamskur leiðsögumaður sagði að lítið sem ekkert væri flutt til sölu inn í land því ekki væri hægt að koma við nægri kælingu.

Um 170 km eru til Hanoi og tekur um þrjá til fjóra tíma að aka á milli staðanna, en þar er nægan ferskan fisk að fá á mörkuðum og hjá sölumönnum á gangstéttum, hvaðan sem hann kemur.

Fiskeldi hefur aukist mikið undanfarin ár og sér þess víða merki í norðurhluta landsins, jafnt við ströndina sem upp til sveita, þó mestu framfarirnar og uppbyggingin séu í suðurhluta landsins. Gæði hafa aukist, einkum í rækjueldi, þó enn sé langt í land varðandi nýjustu tækni, en gert er ráð fyrir að um 360.000 tonn af rækju verði framleidd 2010 að verðmæti um 1,4 milljarða dollara, um 105 milljarða kr.