LOKUÐU hlutabréfaútboði netleikjafyrirtækisins CCP hf. í umsjá Kaupþings fjárfestingarbanka er lokið. Alls voru 1.039.755 krónur að nafnvirði í boði á genginu 163,5, eða 170 milljónir króna að söluvirði. Samtals skráðu 46 aðilar sig fyrir 4.310.

LOKUÐU hlutabréfaútboði netleikjafyrirtækisins CCP hf. í umsjá Kaupþings fjárfestingarbanka er lokið. Alls voru 1.039.755 krónur að nafnvirði í boði á genginu 163,5, eða 170 milljónir króna að söluvirði. Samtals skráðu 46 aðilar sig fyrir 4.310.313 krónum eða rúmum 704 milljónum að söluvirði. Heildarhlutafé fyrirtækisins eftir útboðið er 5.223.241 króna að nafnvirði og miðað við gengi hlutabréfa í útboðinu er það um 854 milljóna króna virði.

Ívar Kristjánsson, skrifstofustjóri CCP hf., sagði í samtali við Morgunblaðið að tilgangur hlutafjárútboðsins hefði verið að tryggja fyrirtækinu fjármagn til að það gæti haldið áfram þróun á fjölþátttökuleiknum EVE, en það er vinnuheiti leiksins, sem leikinn verður á Netinu í varanlegum sýndarveruleikaheimi. Stefnt er að því að tilraunaútgáfa af leiknum verði tilbúin í haust eða í byrjun vetrar og að hann verði gefinn út um mitt næsta ár. Ívar sagði að í tölvuleikjaheiminum væri algengast að lítil fyrirtæki, eins og CCP hf. sem hefur á að skipa í kringum 20 starfsmönnum, hanni og þrói tölvuleiki, en stór dreifingarfyrirtæki sjái síðan um markaðssetningu. Samningar um sölu á EVE liggja ekki fyrir, en fyrirtækið á í viðræðum við ýmsa aðila sem lýst hafa áhuga á leiknum.