VLADÍMÍR Pútín sór um síðustu helgi embættiseið sem forseti Rússlands. Þar með er þeim valdaskiptum, er hófust er Borís Jeltsín lét óvænt af embætti um síðustu áramót, formlega lokið. Rússneskt lýðræði kann að vera ófullkomið og enn í mótun.

VLADÍMÍR Pútín sór um síðustu helgi embættiseið sem forseti Rússlands. Þar með er þeim valdaskiptum, er hófust er Borís Jeltsín lét óvænt af embætti um síðustu áramót, formlega lokið.

Rússneskt lýðræði kann að vera ófullkomið og enn í mótun. Það er hins vegar fagnaðarefni að þessi valdaskipti fóru fram með friðsamlegum og lýðræðislegum hætti. Pútín var kjörinn í embætti af meirihluta rússnesku þjóðarinnar og bendir þróun síðustu mánaða til að pólitískur stöðugleiki sé að komast á í Rússlandi eftir stormasaman áratug undir forystu Jeltsíns. Raunar lagði Pútín áherslu á það sjálfur í ræðu er hann flutti við embættistökuna, að þetta væri söguleg stund. "Í fyrsta skipti í sögu ríkisins, í fyrsta skipti í sögu Rússlands hefur yfirstjórn ríkisins skipt um hendur á eins lýðræðislegan og einfaldan máta og hægt er að hugsa sér: með því að láta vilja þjóðarinnar ráða, á friðsamlegan og lagalegan hátt," sagði forseti Rússlands. Hann bætti við að það hefði ekki gengið sársaukalaust fyrir sig að koma á lýðræði og að þeirri þróun væri hvergi nærri lokið.

Pútín lýsti framtíðarsýn sinni þannig: "Við viljum að Rússland verði frjálst, stöndugt, ríkt, sterkt og siðmenntað ríki, ríki sem þjóðin getur verið stolt af og sem virðing er borin fyrir í heiminum."

Þótt Pútín hafi verið gagnrýndur fyrir margt, ekki síst fyrir hina miskunnarlausu framgöngu rússneska hersins í Tsjetsjníu, er kjör hans mikilvægt skref fyrir Evrópu. Mikilvægt vegna þess hvernig það fór fram.

Enn á eftir að koma í ljós hvernig Pútín mun beita þeim völdum, sem honum hafa nú verið falin með formlegum hætti. Sú ákvörðun hans að skipa Míkhíl Kasjanov starfandi forsætisráðherra hefur verið túlkuð á þann veg að honum sé alvara varðandi efnahagslegar umbætur. Pútín verður hins vegar einnig að finna lausn á Tsjetsjníu-deilunni og treysta stoðir rússnesks samfélags á mörgum sviðum. Fátækt, glæpir og pólitísk spilling gætu ella grafið undan lýðræðisþróuninni.

Erlend fjárfesting í fiskvinnslu en ekki útgerð?

Í samtali við Morgunblaðið í gær segir Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, m.a. í umfjöllun um hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu:

"Grundvallarreglan um frjálst flæði fjármagns myndi hins vegar leiða til þess að erlendir menn fengju að fjárfesta hér í fiskiðnaði og útgerð. Ég leggst ekki gegn því, að það komi inn erlent fjármagn í fiskiðnaðinn, en eins og staðan er núna og miðað við núverandi stjórnkerfi fiskveiða finnst mér ekki hægt að hleypa útlendingum inn í útgerðina."

Við þessi orð vaknar eftirfarandi spurning: Hvernig á að vera hægt að leyfa erlenda fjárfestingu í fiskvinnslu en banna hana í útgerðinni sjálfri? Langflest sjávarútvegsfyrirtæki eru með útgerð og fiskvinnslu undir sama hatti, þótt einhver dæmi séu um, að fiskvinnsla og útgerð séu rekin undir mismunandi nöfnum. Hvernig ætlar formaður Samfylkingarinnar að framkvæma þessa stefnu? Á að skipta öllum helztu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins í tvennt?

Staðreyndin er auðvitað sú, að við Íslendingar stöndum frammi fyrir ákvörðun um erlendar fjárfestingar í sjávarútvegi, sem kemur hugsanlegri aðild að ESB ekkert við. Sjávarútvegsfyrirtæki okkar fjárfesta í auknum mæli í sjávarútvegi í öðrum löndum. Við ætlumst til að fá leyfi til þess. Hvernig getum við á sama tíma neitað fjárfestum frá öðrum þjóðum um hið sama og við ætlumst til að hafa frelsi til hjá þeim?

Á tímum gagnkvæmni á öllum sviðum gengur sú stefna ekki upp til lengdar að banna erlendar fjárfestingar í sjávarútvegi. Við höfum fjárfest í sjávarútvegi í Noregi, Þýzkalandi, Bretlandi, Bandaríkjunum, Chile og víðar. Við leggjum réttilega vaxandi áherzlu á, að eignast framleiðslu- og dreifingarfyrirtæki í sjávarútvegi í öðrum löndum. Þessar fjárfestingar í sjávarútvegi annarra landa eru okkur mikilvægar. Það er tímaskekkja að neita öðrum þjóðum um það sama hér.

Umsvif íslenzkra sjávarútvegsfyrirtækja í öðrum löndum eiga eftir að aukast mjög og það væri hörmulegt, ef brugðið yrði fyrir þau fæti vegna úreltra sjónarmiða.Vaxtarbroddurinn í sjávarútvegi okkar gæti verið á alþjóðavettvangi.