Ian Rush var staddur hér á landi um helgina þar sem hann kynnti knattspyrnuskóla sinn í samvinnu við Þrótt.  Hér er Rush ásamt ungum knattspyrnumönnum á gervigrasinu í Laugardal.
Ian Rush var staddur hér á landi um helgina þar sem hann kynnti knattspyrnuskóla sinn í samvinnu við Þrótt. Hér er Rush ásamt ungum knattspyrnumönnum á gervigrasinu í Laugardal.
IAN Rush, markahrókurinn mikli, sem lék með Liverpool, dvaldi hér á landi um sl. helgi til að kynna knattspyrnuskóla sem kenndur er við hann. Skólinn verður starfræktur í samvinnu við knattspyrnuskóla Þróttar í sumar. Sóknarleikur og markaskorun er það sem knattspyrnuskóli Ian Rush mun einbeita sér alfarið að og á þessu sviði ætti Rush að kunna vel til verka, enda fáir knattspyrnumenn státa af betri árangri í markaskorun en Rush.

Skólinn hefst í lok þessa mánaðar og stendur fram til 28. ágúst og sjálfur mun Rush koma fjóra daga í júlí, 10.-14. júlí, og leiðbeina ungum og upprennandi knattspyrnustjörnum. Eftir að glæsilegum keppnisferli lauk hefur Rush verið að koma upp skólum á fleiri stöðum í heiminum. Í fyrra fór Rush til Ástralíu, lék þar tvo leiki með liði Sydney Olympic og hleypti af stokkunum knattspyrnuskóla. Síðar í þessum mánuði ætlar Rush að heimsækja Kóreu í sömu erindagjörðum og þar á eftir fer hann til Kanada.

En hvað varð til þess að Rush ákvað að koma til Íslands í þessum erindagjörðum?

"Ég hugsa að það sé um hálft ár síðan Ísland kom inn í myndina en við, sem stöndum fyrir þessum skóla, horfum til landa þar sem efniviður er fyrir hendi og hann er svo sannarlega hér. Við erum ekki að horfa til þeirra staða þar sem fótboltinn er hátt skrifaður í dag heldur til landa þar sem við trúum að fótboltinn geti orðið betri. David Griffith yfirþjálfari yngri flokka Þróttar og Nike-umboðið á Íslandi hafa gert kleift að koma þessum skóla á laggirnar á Íslandi í sumar og ég er þessum aðilum afar þakklátur. Ég vil gefa sem flestum krökkum á Íslandi tækifæri til að komast í skólann í sumar og hjálpa þeim til að ná betri tökum á knattspyrnunni. Það er mjög mikilvægt að krakkar byrji að æfa sem fyrst og nái þannig tökum á að þróa hreyfingar sínar en þetta er stórt atriði sem tekið er á í skólanum auk sóknarleiksins. Aðalmálið er að krakkarnir fái góða kennslu við það sem þeir eru að gera og skilji við skólann sem betri leikmenn."

Íslensk knattspyrna í framför

En þekkir Rush eitthvað til íslenskrar knattspyrnu?

"Ég hef tekið eftir því að margir íslenskir knattspyrnumenn hafa á síðustu árum farið til félaga á Bretlandseyjum og mér finnst þetta mjög svipað því og gerðist í Noregi fyrir svona áratug. Þetta segir mér að íslensk knattspyrnu sé í framför og ég veit að sumir þessara leikmanna standa sig vel með ensku liðunum. Þar get ég nefnt [Eið Smára] Guðjohnsen hjá Bolton og [Heiðar] Helguson hjá Watford."

Rush var þjálfari og leikmaður hjá welska liðinu Wrexham á síðustu leiktíð og átti eitt ár eftir af samningi sínum við félagið. Hann ákvað hins vegar að ljúka starfi sínu hjá Wrexham eftir síðustu leiktíð og beina kröftum sínum að yngri kynslóðinni.

En langar hann ekki að komast að sem knattspyrnustjóri hjá einhverju stóru félagi?

"Jú, það hefur auðvitað hvarflað að mér en ég held sjálfur að ég sé ekki tilbúinn til þess. Ég vil einbeita mér að yngri kynslóðinni næstu árin enda veitir það mér mikla ánægju. Ég fæ tækifæri til að þjálfa við ólíkar aðstæður og læra meira, svo að í augnablikinu er ég ekkert að hugsa neitt annað."

Þú varst ótrúlega markheppinn á ferli þínum. Hver heldur þú að hafi verið galdurinn á bak við það?

,,Oftar en ekki eru þetta meðfæddir hæfileikar og heppni en auðvitað er margt sem spilar þarna inn í. Markaskorarar þurfa að hafa lag á að lesa leikinn vel, staðsetja sig á réttum stöðum, elta uppi alla bolta sem koma að markinu og fylgja öllum skotum hversu ómerkileg sem þau kunna að vera. Ég reyndi líka alltaf að taka séræfingar eins oft og ég gat og það hjálpaði mér auðvitað mjög mikið."

Stutt í að Liverpool geti keppt við Manchester United

Rush er mesti markaskorari Liverpool frá upphafi en á ferli sínum með Liverpool skoraði kappinn yfir 200 mörk.

Hvernig finnst honum gamla félagið sitt standa í dag?

"Ég held að Gerard Houllier sé hægt og bítandi að koma Liverpool í þann flokk sem það á að vera í. Fyrir þetta tímabil bjóst fólk ekki við allt of miklu en Houllier hefur sýnt hæfni sína og vonandi nær félagið takmarki sínu að komast í meistaradeildina. Ég held samt að Liverpool sé ekki tilbúið til að keppa við Manchester United í dag en ef vel verður haldið á spöðunum hjá félaginu verður þess ekki langt að bíða," sagði Rush að lokum.

Guðmundur Hilmarsson skrifar

Höf.: Guðmundur Hilmarsson