Margrét Guðmundsdóttir
Margrét Guðmundsdóttir
Það er dýrara fyrir samfélagið að hafa fátæka öryrkja, segir Margrét Guðmundsdóttir, heldur en að hafa örorkubætur þannig að hægt sé að framfleyta sér á þeim.

Það ætlar að dragast á langinn að ríkisstjórnin sjái sóma sinn í því að leiðrétta og bæta kjör öryrkja. Vegna skertrar starfsorku á enginn að þurfa að líða að á þeim séu brotin mannréttindi. Það að missa heilsuna og þurfa að sættast við skerta starfsorku jafnvel til æviloka er eitt, en að vera jafnframt sviftur þeim mannréttindum að geta séð fyrir sér, gengið í hjónaband, eignast fjölskyldu og þak yfir höfuðið er algerlega óviðunandi og ekki hægt að bjóða það nokkurri manneskju. Það er ekki bara um jólin sem öryrkjar fara í betligöngu til góðgerðafélaganna fyrir nauðþurftum. Þangað leitar fjöldinn allur af öryrkjum í hverjum mánuði til að hafa til hnífs og skeiðar. Opinberir aðilar gera jafnvel út á góðgerðafélögin. Vísa fólki frá sér og til þeirra. Það er ekki hægt að bjóða fólki upp á 45-60 þúsund krónur á mánuði til að lifa af. Þessu verður að linna, svona er úr takt við allt velsæmi.

Hverjum er verið að þjóna

Fyrir þjóðfélagið í heild sinni er fátækt ákveðinna hópa innan þess mjög óhagkvæm. Það er dýrara fyrir samfélagið að hafa fátæka öryrkja heldur en að hafa örorkubætur þannig að hægt sé að framfleyta sér á þeim. Fátækt kemur ekki bara niður á þeim sem fátækur er heldur á samfélaginu í heild sinni.

Hjá öryrkjum og fjölskyldum þeirra sem búa við langvarandi fátækt hlaðast oft upp margskonar vandamál sem beinlínis eru afleiðing fátæktarinnar. Má þar t.d. nefna almennt lakara heilsufar vegna þess hversu dýrt það er að leita til læknis og hversu dýrt það er að leita sér annarra lækningaleiða.

Hér eru margskonar félagsleg vandamál, sérstaklega meðal barna og unglinga, vegna þess að flest tómstundarstarf er mjög dýrt hér á landi. Hver veit nema stórlega muni draga úr gleðipilluáti Íslendinga og annarra lyfja og kostnaður minnka ef fleiri hefðu í sig og á. Fátækt getur aldrei orðið þjóðfélagslega arðbær.

Höfundur er starfsmaður Háskóla Íslands.