Baldur Sigurðsson fæddist í Reykjavík 30. september 1922. Hann lést á Landakotsspítala 1. maí síðastliðinn. Foreldrar hans voru Sigurður Hólmsteinn Jónsson, f. 30.6. 1896, d. 1.12. 1985, blikksmíðameistari, og kona hans Sigríður Elísabet Guðmundsdóttir, f. 28.5. 1898, d. 17.9. 1976, húsmóðir. Föðurforeldrar hans voru Jón Sigurðsson, f. 21.7. 1863, d. 22.4. 1944, bóndi, fisk- og ullarmatsmaður í Flatey á Breiðarfirði, og kona hans Júlíana Hansdóttir, f. 25.1. 1861, d, 14.8. 1922, húsmóðir. Foreldrar Jóns Sig. voru Sigurður Ólafsson, f. 30.11. 1830, d. 6.4. 1908, sjómaður, formaður á fiskibátum og bóndi í Flatey á Breiðafirði, og kona hans Hólmfríður Andrésdóttir, f. 15.5. 1836, d. 7.5. 1912, húsmóðir. Foreldrar Júlíönu Hansd. voru Hans Ólafsson, f. 4.7. 1829, d. 20.7. 1896, og kona hans Halldóra Kristín Jóhannsdóttir Mohl, f. 27.2. 1838, d. 22. 9. 1890, húsmóðir í Flatey á Breiðafirði. Foreldrar Sigríðar Elísabetar Guðmundsdóttur voru Guðmundur Engilbertsson bóndi, ferjumaður og leiðsögumaður á Gemlufalli við Dýrafjörð, bjó síðustu árin á Ísafirði, og kona hans Anna Bjarnadóttir, húsmóðir á Gemlufalli. Systkini Baldurs eru Magnús Sigurðsson, f. 28.9. 1925, læknir, Ólöf Helga Sigurðardóttir Brekkan, f. 22.11. 1928, tannlæknir, og Hólmsteinn Sigurðsson, viðskiptafræðingur og skrifstofustjóri hjá Orkuveitu Reykjavíkur, f. 26.10. 1939.

Eiginkona Baldurs, Hulda B. Þorláksdóttir, fæddist 25.9. 1933, húsmóðir. Þau gengu í hjónaband 7.10. 1951, og hefur hjónabandið staðið í 49 ár. Foreldrar Huldu voru Þorlákur Bernharðsson, f. 2.7. 1904, d. 27.1. 1987, bóndi, sjómaður og verkamaður, og kona hans Þóra Guðmundsdóttir, f. 18.8. 1903, d. 6.7. 1991, húsmóðir og ljósmóðir, áður búsett við Önundarfjörð, en síðar í Reykjavík.

Útför Baldurs fer fram frá Fossvogskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Eftir nám við grunnskóla og Héraðsskólann á Laugarvatni lærði Baldur bróðir okkar blikksmíði og stundaði það starf um tíma. En Baldur hafði ávallt mikinn áhuga á bílum, tók svokallað meirapróf og gerðist svo leigubifreiðarstjóri (árið 1981). Ennfremur var hann einn af stofnendum Leigubifreiðastjórafél. Hreyfils. Hann stundaði leigubílaakstur þar til hann varð að hætta störfum vegna aldurs. Sem barn og unglingur var hann viðkvæmur í lungum. Hann var mjög grannur sem barn og ungur maður, en heimilislæknir hans taldi að hann myndi ná betri heilsu ef hann fengi meiri hold á sig og það reyndist rétt. En með tímanum fór hann að safna holdum og þyngdist óeðlilega mikið. Síðustu árin frá 1983 var hann orðinn alltof þungur og síðustu árin varð hann heilsulítill og lítt ferðafær. Síðustu tvö árin (frá 1997) var hann eiginlega algjör sjúklingur. Eiginkona hans annaðist hann heima af einstakri alúð á meðal hann gat verið á sínu heimili. Þau hjónin eignuðust ekki börn, en tóku um tíma að sér að annast dreng sem var hjá þeim um hálft ár og síðar einnig telpu, systurdóttur Huldu, sem var hjá þeim í nokkur ár (mætti kalla fósturdóttur þeirra) og sonur hennar átti tíðum athvarf hjá þeim. Baldur og Hulda voru sérstaklega barngóð og auk þess dýravinir. Þau höfðu tímabundið hjá sér fresskött á sama tíma og drenginn og það fannst á kisa að hann var stundum afbrýðisamur út í drenginn á meðan drengurinn var á heimilinu. Þá áttu þau um tíma hund (tík), sem var ákaflega hændur að þeim. Nú síðustu árin hafa þau hjónin verið með selskapspáfagauka, sem voru (og eru) ákaflega hændir að þeim, þeir fengu að fljúga frjálsir um íbúðina, en gegndu samt vel ef þeir áttu að fara í fuglabúrið.

Baldur var mikill áhugamaður um bíla, þekkti flestar bíltegundir og vissi oft hverjir áttu sérstaka bíla, auk þess sem hann þekkti flesta bíla samstarfsmanna sinna. Hann var um tíma mjög ötull leigubifreiðarstjóri og þótti góður bílstjóri og átti góða bíla. Hann og bílarnir þóttu eftirsóknarverðir af viskiptavinum Hreyfils.

Síðustu árin hafði hann mikið yndi af sjónvarpinu og þekkti flesta þætti á hinum ýmsu dagskrám sjónvarpsstöðvanna.

Við systkini Baldurs hittum hann alltaf annað slagið, og var hann yfirleitt andlega hress og kátur og var mjög áhugasamur um að fylgjast með nákomnum ættingjum sínum og vinum og kunningjum. Hulda konan hans var mjög hugulsöm og oft kallaði hún í ættingjana við ákveðin tækifæri til þess að Baldur fengi að tala við þá og sjá sem flesta eftir að hann komst ekki að heiman vegna veikinda.

Ég vil nú í lokin þakka Huldu fyrir hönd systkina og barna þeirra alla þá natni, alúð og öryggi sem hún veitti honum þessi 49 ár í hjónabandi. Það er óhætt að fullyrða að betri konu en Huldu hefði hann ekki getað fundið. Við færum henni okkar innilegustu samúðarkveðjur og kveðjum Baldur, frumburð foreldra okkar, með þakklæti fyrir liðnar samverustundir.

Magnús Sigurðsson.

Hinn 30. september 1922 fæddist frumburður ömmu og afa, Baldur Sigurðsson. Í þrjú ár var hann einbirni og amma umvafði hann takmarkalausri ást sem hún hafði sjálf ekki orðið aðnjótandi í bernsku. Hún hét Sigríður Elísabet Guðmundsdóttir og hafði kornung verið gefin úr sínum stóra systkinahópi og komið fyrir hjá vandalausum. Biturleiki, sorg og söknuður sátu í henni og mótuðu hennar eigin uppeldisaðferðir. Í dag er Baldur, frumburðurinn hennar ömmu, til moldar borinn og þar sem ég sit í lestarvagni á leið milli Stokkhólms og Gautaborgar pára ég þessar línur.

Minnist ég þess þegar þessi stóri hlæjandi móðurbróðir minn kom að heimsækja mig þegar ég var lítil á tréklossum í Svíþjóð. Hann sagði fullt af orðum sem ég skildi ekki neitt og þurfti skýringar á, en eitt skildi ég þó að hann var alltaf glaður og spurði í sífellu: Hvað segir frænka? Þegar Helga systir mín hringdi til þess að segja frá andláti Baldurs bætti hún við: Þá er hann kominn til ömmu.

Og ég efast ekki um það eitt augnablik að Baldur situr nú í eldhúskróknum hjá ömmu og dásamar Huldu sína sem hann elskaði umfram allt, enda dekraði hún við hann í nær 50 ár.

Samband ömmu og Huldu var um margt mjög sérstakt, þær voru ekki bara eins og góðar mæðgur heldur bestu vinkonur. Hvorug þeirra sá sólina fyrir Baldri og eins höfðu þær sama smekk og áhugamál. Þegar amma féll frá 1976 rak afi, Sigurður Hólmsteinn Jónsson, enn Blikksmiðju Reykjavíkur og þá var tómlegt að koma heim í krókinn án þess að búið væri að leggja kræsingar á borð þannig að það leið ekki á löngu þar til hann var kominn í fæði hjá Huldu og alveg til dauðadags 1985 naut hann ómældrar umhyggju Huldu og Baldurs.

Baldur Sigurðsson var elstur fjögurra systkina sem nú sjá á bak góðum bróður. Þau eru, Magnús, Ólöf Helga og Hólmsteinn.

Baldur var blikksmiður að mennt en starfaði lengst af sem leigubílstjóri á Hreyfli. Baldri og Huldu varð ekki barna auðið en ólu upp systurdóttur Huldu, Siggu Rut, og börnin hennar urðu afabörnin hans Baldurs.

Missir þeirra og Huldu er mikill en minningin um góðan dreng sem varðveitti barnið í sjálfum sér lifir.

Samúðarkveðjur,

Elísabet Brekkan.

Magnús Sigurðsson.