Systir María Hildegard fæddist í Ruhr í Þýskalandi 29. desember 1910 og var fjölskyldunafn hennar Mathilde Hilpert. Hún lést 17. apríl síðastliðinn. Systir Hildegard gekk í klaustur hjá St. Jósefssystrum í Kaupmannahöfn 1932, hóf nám í hjúkrun 1934 og lauk því 1937. Hún vann klausturheit sín fyrst 1935 og lokaheit 18. mars 1938. Hún starfaði sem hjúkrunarfræðingur á St. Jósefsspítalanum í Kaupmannahöfn til 1954 en stundaði framhaldsnám í spítalastjórnun við Árósaháskóla 1950-51. Systir Hildegard kom til Íslands 1954 og var fyrst priorinna við St. Jósefsspítalann í Hafnarfirði til 1958. Það ár varð hún priorinna við St. Jósefsspítala, Landakoti, til 1976. Hún varð síðar priorinna í Garðabæ en fluttist á hjúkrunarheimili St. Jósefssystra í Danmörku. Hún lést þar 17. apríl sl. Systir Hildegard var sæmd heiðursmerki Rauða krossins og gerð heiðursfélagi Hjúkrunarfélags Íslands 1989. Hún var sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu 1977 og stórriddarakrossi 1985.

Systir Hildegard var jarðsett í grafreit St. Jósefssystra í Danmörku.

Fyrir nokkru bárust þær fregnir að fyrrverandi priorinna á Landakoti, systir Marie Hildegard, hefði látist á heimili St. Jósefssystra í Kaupmannahöfn.

Systir Hildegard kom hingað til lands árið 1954, varð priorinna á Landakoti 1958 og lét af störfum þegar St. Jósefssystur hættu rekstri Landakots 1976.

Saga St. Jósefssystra hefur verið rakin í rituðu máli og nægir þar að nefna bækur Ólafs Torfasonar og dr. Bjarna Jónssonar. Saga þessi ber vott um mjög merkilegt framlag systranna til heilbrigðisþjónustu hér á landi sem var þó ekki alltaf metið að verðleikum þegar til kastanna kom. Saga þessi spannar hátt í heila öld og hefst þegar staða þessara mála hér á landi var eins og gerðist hjá vanþróuðum þjóðum.

Afrek systur Hildegard sem priorinnu á Landakoti eru ótrúleg. Fljótlega eftir að hún kom til starfa á spítalanum var hafist handa um stækkun á húsnæði hans og B-álman ásamt anddyri byggð. Fé var af skornum skammti og það lenti á systur Hildegard að leysa úr þeim málum. Er í raun óskiljanlegt hvernig þetta tókst á tiltölulega skömmum tíma og gerbreytti þar með allri aðstöðu starfsfólks og sjúklinga á spítalanum.

En það var ekki nóg með að systir Hildegard þyrfti að vinna að byggingunni því að rekstur spítalans var mjög erfiður á þessum árum. Það var rótgróin trú íslenskra ráðamanna að systurnar gætu rekið spítalann fyrir mun minna fé en aðrar sambærilegar stofnanir voru reknar fyrir. Þetta var að nokkru leyti rétt en þessir ráðamenn gengu oft svo nærri systrunum að við lá að þær gæfust upp. Þannig háttaði til að þegar ég hóf störf á Landakoti í desember 1970, að nokkrum vikum síðar samþykktum við læknarnir að styðja þá ákvörðun systranna að spítalanum skyldi lokað og rekstri hans hætt nokkrum vikum síðar. Ákvörðun daggjaldanefndar lá þá fyrir og systurnar töldu útilokað að reka spítalann fyrir þau daggjöld sem honum voru ætluð. Þá greip ráðherra í taumana og lýsti því yfir að spítalinn væri ómissandi hlekkur í heilbrigðisþjónustunni og ákvað að hækka daggjöldin.

Dr. Bjarni Jónsson getur þess að þegar systir Hildegard lét af störfum þurfti að ráða framkvæmdastjóra, hjúkrunarforstjóra, skrifstofustjóra og ræstingastjóra í hennar stað! Það var nokkuð til í þessu og sýnir kannske best hverju systurnar fórnuðu í starfi sínu. Þær helguðu spítalanum og kirkju sinni allt lífið. Þær bjuggu innan veggja spítalans og vinnutími þeirra var allur sólarhringurinn og hvíld oft takmörkuð. Systir Hildegard hafði því stóran hóp samhentra systra í kringum sig og þær vissu um allt sem gerðist á spítalanum. Hún var hins vegar fremst meðal jafningja. Í raun hafði hún valdið og var fljót að taka ákvarðanir. Hún hlustaði á allar röksemdir með og á móti og þar af leiðandi var einstaklega gott að vinna með henni. Svo kom þó að systurnar ákváðu að hætta rekstrinum. Við læknarnir höfðum áhuga á að stofna sjálfseignarstofnun sem tæki að sér rekstur spítalans í þeim tilgangi að halda við ýmsum þeim hefðum sem skapast höfðu í tíð systranna. Fyrsta skrefið var að ræða við þær. Það tók ekki langan tíma. Eftir nokkra umhugsun lá ákvörðun þeirra fyrir. Ég minnist þess enn í dag þegar við systir Hildegard hittumst sunnudagsmorgunn einn uppi á skurðstofugangi á Landakoti og hún tjáði mér að þær styddu þessa hugmynd og væru fúsar að vinna henni brautargengi.

Það var mjög lærdómsríkt að starfa með systrunum á Landakoti. Þær eru nú víðast hvar hættar spítalarekstri á Vesturlöndum. Systir Hildegard mun verða ein af þeim sem alltaf verður minnst sem óvenju hæfileikaríkrar og mikillar persónu af þeim sem henni kynntust. St Jósefssystrum sendi ég innilegar samúðarkveðjur.

Ólafur Örn Arnarson læknir.

Ólafur Örn Arnarson læknir.