Arnar Sigurðsson fæddist í Reykjavík 6. maí 1979. Hann lést 27. apríl síðastliðinn og fór útför hans fram frá Akraneskirkju 5. maí.

Að eiga góðan vin er meira en orð fá lýst. Að geta átt vin sem allt er hægt að segja við er ekki sem fólk við býst. En bíddu við, þú munt hitta þann rétta sem fullnægir þeim kröfum sem þú vilt. (Anna Soffía Halldórsdóttir.)

Elsku Arnar.

Nú ertu farinn frá okkur Arnar minn, þú sem varst okkur svo góður vinur, en þó að þú sért farinn munum við ávallt minnast þín með góðum huga. Þær minningar sem þú lætur eftir þig eru einungis góðar og broslegar. Þær minningar sem standa okkur efst í huga núna eru til dæmis þær sem tengjast körfuboltavellinum við Brekkubæjarskóla, þar sem við spiluðum marga körfuboltaleikina. Þú hafðir svo brennandi áhuga á körfubolta og áhugi þinn á körfunni og að spila körfubolta smitaði okkur líka og við eyddum ófáum kvöldunum í það eitt að spila körfubolta. Svo eitt skiptið datt okkur í hug að fara í körfu frekar seint um kvöldið og vorum þá með þó nokkur læti og fólkið í kring hringdi á lögguna af því að það fékk engan svefnfrið fyrir látunum í okkur. Löggan kom á svæðið og bað okkur um að hætta og fara en þú þrjóskaðist við og vildir klára leikinn og tók löggan þá í þig og sneri þig niður, en á endanum fórum við.

Svo má auðvitað ekki gleyma bílunum þínum sem voru þitt líf og yndi og öllu veseninu sem þeim fylgdi. Fyrst ber að nefna Fiestuna þína, sem var algjört rusl vægast sagt, svo á eftir henni kom svarta "Súkkan" þín sem var einn af þínum uppáhaldsbílum enda komst hann frekar hratt. Hann var orðinn frekar lélegur og í eitt skiptið þegar þú skrappst í bæinn á McDonald´s, sem var þinn uppáhalds veitingastaður, komu nokkrir strákar til þín og buðu þér skipti á "súkkunni" og á Nissan Sunny, sem var í betra ásigkomulagi. Þú slóst til og þú og strákurinn komuð beint upp á Skaga og genguð frá kaupunum. Af Nissaninum er frá mörgu að segja, enda var mikið vesen í kringum hann, oftast þó í skemmtilegri kantinum og það var sá bíll sem þú áttir sem lengst. Eins og sagan þegar við félagarnir ætluðum til Akureyrar um verslunarmannahelgina. Þá skellturðu einhverju efni á tankinn og hélst því fram að þetta efni myndi spara þér mikinn bensínkostnað, en í staðinn fór bíllinn ekki í gang, þannig að við enduðum á því að fara á Ventoinum hans Óla.

Reykjavíkurferðirnar stóðu mikið upp úr, þar má nefna bíóferðir og keiluferðir. Fyrsta sinn sem þú fórst með okkur í keilu vissirðu varla hvað keila var, hvað þá út á hvað leikurinn gekk út á, og þegar þú ætlaðir að kasta kúlunni í eitt skiptið hentirðu kúlunni óvart aftur fyrir þig og hún small niður tröppurnar. Í einni ferðinni plötuðum við þig til að koma með okkur í Lazertag. Þér leist ágætlega á það og við skelltum okkur. Við héldum að við fengjum bara að hafa salinn útaf fyrir okkur en það voru einhverjir litlir strákar sem fengu að fara með okkur og þeir rústuðu okkur í leiknum.

Það var aldrei hægt að koma þér út úr húsi fyrr en þú varst búinn að taka upp Seinfeld-þættina, Friends, og körfuboltaleikina sem voru sýndir á Sýn, enda áttirðu stærsta safnið af Seinfeld og líklega flesta körfuboltaleiki sem voru sýndir í sjónvarpinu. Lagasmekkurinn þinn var með eindæmum öðruvísi, því þú hlustaðir á allt öðruvísi tónlist en við. Meðan við vorum að hlusta Xið og Mono og nútímlega tónlist varst þú að slappa af í vinnunni hjá pabba þínum og hlustaðir á Matthildi og Gullið og tókst þátt í öllum leikjum sem fóru fram á þeim útvarpsstöðvum sem þú hlustaðir hvað mest á. Það var því alltaf góð tilbreyting að koma til þín í vinnuna eða á rúntinn og hlusta á gamalt og gott með þér eftir að maður hafði verið að hlusta á nýjustu lögin á öðrum útvarpsstöðvum.

Kæri vinur, við vonum að þér líði betur núna en þér leið oft áður og við munum alltaf getað hlýjað okkur við brosið þitt og allar frábæru minningarnar sem við eigum um þig. Við munum við alltaf minnast þín sem okkar besta vinar sem gat alltaf glatt okkur þegar okkur leið ekki sem best. Við kveðjum þig nú með þessu ljóði.

Að eiga góðan vin

er meira en orð fá lýst.

Að geta átt vin

sem allt er hægt að segja við

er ekki sem fólk við býst.

En bíddu við,

þú munt hitta þann rétta

sem fullnægir þeim kröfum

sem þú vilt.

(Anna Soffía Halldórsdóttir.)

Elsku Siggi, Barbró, Daníel, Sara, Marianne og aðrir ástvinir, Guð veri með ykkur í ykkar miklu sorg. Elsku Arnar, hvíl í friði, þess óska þínir vinir.

Hafsteinn Mar, Eymar Geir, Ágúst, Davíð og Guðlaugur.

Í hendi guðs er hver ein tíð,

í hendi guðs er allt vort stríð,

hið minnsta happ, hið mesta fár,

hið mikla djúp, hið litla tár.

(M. Joch.)

Kæri Arnar.

Nú ert þú horfinn yfir móðuna miklu. Annar á stuttum tíma úr góðum vinahópi. Hópi sem haldið hefur saman frá grunnskólaaldri.

Er því skarð fyrir skildi, er minning um góðan dreng lifir áfram. Þú varst alltaf mjög sérstakur og hafðir ákveðnar skoðanir á ýmsum málum, sem enginn fékk hnikað.

Trúr og tryggur varstu vinum þínum og er það stærsti kostur þess sem það prýðir.

Viljum við þakka þér Arnar minn fyrir þær mörgu ánægjustundir sem við áttum saman.

Megi Guð fylgja þér og styrkja fjölskyldu þína á þessari stundu.

Sigríður Þórarinsdóttir

og fjölskylda.

Okkur langar að minnast þín, Arnar, með nokkrum orðum. Það er margt sem kemur upp í hugann þegar við þurfum nú að kveðja þig, alltof snemma. Þú sem áttir alltaf svo auðvelt með að koma okkur til að hlæja, á sundæfingum, mótum, æfingabúðum eða hvar sem var. Það datt engum í hug það sama og þér datt í hug. Til dæmis þegar við vorum í æfingabúðunum í Kópavogi þá varst þú fremstur í flokki í að ganga í hús og spurja hvort við gætum fengið lánað sjónvarp og að endingu fengum við sjónvarp lánað. Og þegar við fórum í æfingabúðir til Mallorca, þar var svo margt skemmtilegt brallað. Okkur óraði ekki fyrir að kveðjustundin kæmi svona fljótt en við vonum að þér líði vel þar sem þú ert núna.

Við viljum senda Sigga, Barbro, Danna, Söru og Marianne okkar innilegustu samúðarkveðjur og vonum að Guð styrki ykkur í sorginni.

Arnar, takk fyrir stutta en ánægjulega samveru.

Arna og Ragnheiður.

Með þessum fátæklegu orðum ætla ég að minnast vinar míns Arnars Sigurðssonar sem lést hinn 27. apríl síðastliðinn. Erfiður mánuður hefur þetta verið mér og vinum mínum vegna fráfalls tveggja vina okkar. Ótrúlegt er hve fljótt lífið er að breytast, það sem manni þykir mikilvægt einn daginn hefur litla þýðingu þann næsta. Vegna svona atburða lítur maður lífið öðrum augum. Vonandi lærir maður eitthvað af þessu þótt erfitt sé að sjá nokkuð jákvætt þessa dagana.

Arnar var bekkjarfélagi minn allan grunnskólaferil okkar. Ég kynntist honum fyrir alvöru í vinnuskólanum eftir 8. bekk. Þá uppgötvuðum við að við áttum sameiginlegt áhugamál en það var körfubolti. Við vorum alltaf að spila félagarnir ég, Arnar og Trausti, skipti engu máli hvaða tími dags var eða hvernig viðraði. Ásamt því að spila saman fylgdumst við alltaf með NBA-boltanum. Það voru mörg kvöld og nætur sem fóru í sjónvarpsgláp og oft voru tekin nokkur skot í hálfleik, nágrönnum okkar til mikillar gleði! Hann stóð einnig vel við bakið á okkur Trausta þegar við vorum að spila með meistaraflokki í körfu, vildi hann þá oft segja okkur hvað við mættum gera betur og hvað við ættum ekki að gera á vellinum.

Félagsskapur okkar snerist samt um miklu meira en bara körfubolta, hann var bara til þess að við kynntumst betur. Ekki man ég eftir neinu sem Arnar var ekki tilbúinn að gera með manni. Enda vorum við alltaf að finna upp á einhverju og er mér einna minnisstæðust ferð sem við fórum saman ásamt nokkrum félögum okkar til Vestmannaeyja um verslunarmannahelgina '97. Margt annað kemur upp í hugann sem tekur kannski ekki að nefna hér, en mun lifa í minningu minni svo lengi sem ég lifi.

Alltaf náði Arnar að hressa mann við ef maður var ekki vel upplagður. Hann fékk fólk ávallt til að gleyma vonda skapinu og fara að hlæja, það var einn helsti kostur hans og hvað hann var góður við vini sína og alltaf reiðubúinn að hjálpa ef eitthvað bjátaði á. Hann hjálpaði mér gegnum þennan vetur í skólanum. Þótt við hittumst kannski ekki oft hélt hann ávallt sambandi, hringdi nærri á hverju kvöldi til að spjalla um daginn og veginn, spurði hvernig gengi í skólanum og hvort ég ætlaði ekki að klára þetta nám og hvatti mig áfram.

Þakklátur er ég fyrir þann tíma sem ég fékk að vera með Arnari Sigurðssyni og mundi ég ekki skipta á þeim tíma fyrir neitt í heiminum.

Erfiður tími er þetta fyrir alla þá sem þekktu Arnar, sérstaklega þó fyrir fjölskyldu hans, og vil ég senda þeim innilegar samúðarkveðjur og þakka þeim fyrir alla hjálpina sem þau hafa veitt mér. Ég mun ávallt vera þakklátur fyrir aðstoð þeirra og vonast til að tengsl okkar haldist í framtíðinni.

Pálmi Þórisson.

Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta.

Á grænum grundum lætur hann mig hvílast, leiðir mig að vötnum þar sem ég má næðis njóta.

Hann hressir sál mína, leiðir mig um réttan veg, fyrir sakir nafns síns,

jafnvel þótt ég fari um dimman dal óttast ég ekkert illt, því þú ert hjá mér.

Sproti þinn og stafur hugga mig.

Þú býrð mér borð frammi fyrir fjendum mínum, þú smyrð höfuð mitt með olíu, bikar minn er barmafullur.

Já, gæfa og náð fylgja mér alla ævi daga mína, og í húsi Drottins bý ég langa ævi.

(23. Davíðssálmur.)

Á einu augnabliki er eins og heimurinn stöðvist og hér eftir verður ekkert eins og var. Eins lengi og við munum höfum við, fjölskyldan í Hamraberginu og fjölskyldan á Laugabrautinni, verið vinir og hefur ekkert skyggt þar á. Mömmurnar hafa verið vinkonur frá því þær voru 11 ára eða jafngamlar og yngstu dæturnar í fjölskyldunum eru núna. Það ríkti því mikil eftirvænting þegar von var á Arnari í heiminn og strax frá upphafi voru þau Íris, sem var aðeins nokkrum mánuðum eldri, og hann vinir.

Um tíma bjuggum við einnig á Akranesi og við hittumst daglega, stoltar mæðurnar og þau léku sér saman. Arnar var hvers manns hugljúfi og gott barn. Honum gekk vel í skólanum og æfði sund og var alltaf í íþróttum. Hann átti frábæra fjölskyldu og Barbro og Siggi hafa alltaf tíma fyrir börnin sín og það munar aldrei um einn eða tíu vini þeirra í viðbót. Þegar við foreldrarnir ferðuðumst saman var alltaf keyptur að minnsta kosti einn eða tveir körfuboltabolir handa Arnari því hann hafði mjög gaman af að spila þá íþrótt. Þeir voru svo gjarnan hengdir upp í herberginu hans í stað mynda á vegginn. Þegar börn vina manna verða eldri þá ósjálfrátt minnka tengslin því það kemur að því að það er hallærislegt að fara með foreldrum sínum í heimsóknir og vinirnir eiga allan tímann. Þetta er mjög eðlilegt en alltaf þegar við hittum Arnar var hann ljúfmennskan uppmáluð og hann lét vel af sér.

Við sátum kannski í kaffi í notalega eldhúsinu á Laugabrautinni og hann kom inn gjarnan í gulri peysu eða gulri úlpu en það var uppáhaldsliturinn hans og hann spurði frétta af Írisi sem var auðvitað einnig hætt að fylgja okkur. Íris og Arnar hittust síðan í Flugstöð Leifs fyrir ekki löngu og voru þau að bíða eftir foreldrum sínum sem höfðu eitt sinn sem oftar farið saman til útlanda og það urðu fagnaðarfundir og mikið skrafað, þau voru svo heppin að flugvélinni hafði seinkað.

Lífið fer misjöfnum höndum um okkur og nú hefur Arnar kvatt okkur en við blessum minningu ljúfs drengs.

Elsku Siggi, Barbro, Daníel, Marianne og Sara. Missir ykkar er djúpur og sár en munið að sólin er á bak við skýin og sá dagur kemur að hún brýst fram. Megi Drottinn vera huggari ykkar og styrkur og veita ykkur allt sem þið þarfnist á réttum tíma.

"Og friður Guðs sem er æðri öllum skilningi mun varðveita hjörtu yðar og hugsanir yðar í Kristi Jesú" (Fil. 4:7).

Daníel, Maríanne, Guðbjörgu og öllum öðrum aðstandendum sendum við okkar dýpstu samúðarkveðjur.

Ykkar vinir,

Erling, Erla, Íris, Eygló,

Arna og Hrund.

Elsku besti vinur okkar, nú þegar þú ert farinn úr lífi okkar er svo margt sem hægt er að hugsa til. Arnar, ævintýrin með þér voru svo mörg, það sem er okkur efst í huga er eitt fallegt vertrarkvöld þegar þú bauðst okkur að kíkja á rúntinn. Eftir dágóða stund fengum við þá snjallræðis hugmynd að taka stuttan sveitarúnt. Þegar við vorum komin frekar langt út úr bænum tók kagginn þinn auðvitað upp á því að bila og enginn af okkur með síma svo við þurftum að ganga upp á Akranes, en það tók okkur frekar langan tíma að fá þig til þess því þú varst vel þrjóskur og vildir bíða eftir hjálp, og á leiðinni lagðist þú oft niður og ætlaðir að gefast upp. En svo loksins komumst við upp á Skaga og þá var orðið bjart úti. Þú varst alltaf í góðu skapi og fékkst okkur alltaf til að hlæja. Það var bara ekki hægt að vera í vondu skapi þegar maður var með þér. Þér fannst nú ekki mjög mikilvægt að taka bensín og kvöld eitt varð bíllinn bensínlaus og við þurftum að ýta honum í næstu sjoppu og á meðan hlógum við okkur máttlaus. Tónlistarsmekkur þinn var mjög sérstakur en samt skemmtilegur. Þú varst alltaf að kynna okkur einhver lög með Megasi, Bubba, Bjögga Halldórs eða eitthvað af því taginu. Þú dýrkaðir Vilhjálm Vilhjálmsson og þar var lagið Söknuðurí mestu uppáhaldi hjá þér. Þegar þú varst búinn að kynna okkur lögin baðstu okkur alltaf að gefa þeim einkunn. Þú hafðir mikla unun af því að syngja með þessum lögum og söngst oft fyrir okkur og stundum hringdir þú meira að segja í okkur til þess eins að syngja og það skipti þig ekki máli hvar þú varst á meðan og hverjir heyrðu í þér. Hvert sem við lítum ryfjast upp minningar um þig. Þegar þú ert ekki á staðnum vantar svo mikið í líf okkar, því það var svo gott að tala við þig og hafa þig hjá sér, ef okkur leið illa tókst þér alltaf að hughreysta okkur og lést okkur gleyma því versta. Þú varst alltaf brosandi og brosið þitt svo fallegt og tennurnar svo beinar og hvítar. Við söknum þín svo sárt að orð fá því ekki lýst. Þú varst okkar besti vinur og það er svo margt sem við viljum segja við þig en við ætlum að láta þessi orð nægja í bili. Að lokum viljum við biðja góðan Guð að blessa foreldra þína og systkini þín.

Heyr þú, Jesú, hátt ég kalla

harma burt úr djúpri þrá,

í þér hef ég unun alla,

eyra þitt ei hneig mér frá,

andar gleði af orði þínu

eykur fögnuð hjarta mínu.

Sálin mjög að sorgum þjáð

sér ei annað hjálparráð.

(Stefán Ólafsson.)

Við sjáumst seinna, Arnar. Þínar bestu vinkonur að eilífu,

Anna María og Elsa Rut.

Elsku Arnar.

Að setjast niður og skrifa um þig, hvað er hægt að segja? Við erum harmi lostin yfir ótímabæru fráfalli þínu elsku vinur.

Við eigum þá ósk heitasta að þér líði vel núna og að Guð og allir englarnir gæti þín.

Harmið mig ekki með tárum

þó ég sé látinn.

Hugsið ekki um dauðann með harmi og ótta, því ég er svo nærri,

að hvert ykkar tár snertir mig og kvelur,

en þegar þig hlæið og syngið

með glöðum hug,

lyftist sál mín upp í mót til ljóssins

og ég tek þátt í gleði ykkar yfir lífinu.

Elsku Siggi, Barbró, fjölskylda aðrir ástvinir og vinir. Megi algóður Guð vaka yfir ykkur um ókomna tíð.

Fjölskyldan Jörundarholti 13.

Arna og Ragnheiður.