Sigríður Ingibjörg Stefánsdóttir fæddist í Ásgarði á Svalbarðsströnd 5. júlí 1929. Hún lést á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri 27. apríl síðastliðinn og fór útför hennar fram frá Svalbarðskirkju 6. maí.

Minningin er hlý þegar við hugsum um þig, Sigga frænka í Reykjavík, en þannig varst þú alltaf auðkennd hjá okkur. Heimili ykkar Gunna stóð alltaf opið fyrir okkur þegar við komum í heimsókn til Reykjavíkur. Alltaf áttum við von á að fá haframjölsköku eða pönnukökur þegar við komum á Fálkagötuna. Það var svo notalegt að sitja í eldhúsinu þínu og spjalla enda varstu alltaf svo áhugasöm um það sem við vorum að gera. Alla tíð heilsaðir þú og kvaddir okkur með kossum og faðmlögum og þannig sýndir þú okkur væntumþykju þína. Síðustu þrjú árin bjugguð þið Gunni á Akureyri. Þá söknuðum við þess að geta ekki komið á Fálkagötuna. Við áttum það samt til að keyra framhjá eftir að þið fluttuð norður enda ófáar minningar sem við áttum þaðan og geymum í hjarta okkar.

Elsku Gunni, Stebbi, Jói, Jón Bragi og Maggi, við vottum ykkur og fjölskyldum ykkar okkar dýpstu samúð.

Helga, Allý, Inga,

Stefanía og Vala.

Helga, Allý, Inga, Stefanía og Vala.