Daði Guðjónsson frá Hólmavík, Guðjón Arnar Kristjánsson alþingismaður, Engilbert Ingvarsson og Gísli Einarsson alþingismaður höfðu  margt að spjalla.
Daði Guðjónsson frá Hólmavík, Guðjón Arnar Kristjánsson alþingismaður, Engilbert Ingvarsson og Gísli Einarsson alþingismaður höfðu margt að spjalla.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ísafirði -Gestir á Atvinnuvegasýningu Vestfjarða, Sól nýrra daga, í íþróttahúsinu á Ísafirði um síðustu helgi voru um fjögur þúsund, - "það er að segja ef börnin, sem voru þar að heita má alla helgina, eru ekki talin nema einu sinni," sagði...
Ísafirði -Gestir á Atvinnuvegasýningu Vestfjarða, Sól nýrra daga, í íþróttahúsinu á Ísafirði um síðustu helgi voru um fjögur þúsund, - "það er að segja ef börnin, sem voru þar að heita má alla helgina, eru ekki talin nema einu sinni," sagði Sigríður O. Kristjánsdóttir í sýningarstjórninni. "Þetta gekk allt upp og mér virtust sýnendur flestir vera ánægðir með sinn hlut." Sýningarbásar voru 45 en sýnendur alls um 60.

Í tengslum við sýninguna opnuðu nokkur vestfirsk fyrirtæki heimasíður á Netinu. Það var hin mikla tæknivæðing og tölvunotkun á sýningarbásum sem gerði þessa sýningu helst frábrugðna hinum fyrri. Reyndar varð tæknivæðingin á básunum með tilheyrandi rafmagnsnotkun til þess að rafmagn í íþróttahúsinu sló út um stundarsakir á laugardaginn.

Sá dagskrárliður á sýningunni, sem mestra vinsælda naut, var kvikmynd frá hátíðahöldum á Ísafirði árið 1966 þegar fagnað var aldarafmæli Ísafjarðarkaupstaðar. Myndin var sýnd þrisvar sinnum á bás Ríkisútvarpsins.

Fjöldi sýningargesta var svipaður nú og á síðustu atvinnuvegasýningu fyrir tveimur árum. Þá komu fleiri en áður höfðu sést á slíkum sýningum á Ísafirði.