[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
BÆJARINS besta á Ísafirði ræðir í leiðara um fund vestfirskra lögmanna, en þar var Örn Clausen heiðursgestur.

BÆJARINS besta segir: "Lögfræðingar á Vestfjörðum funduðu fyrr í þessum mánuði. Svo sem við var að búast þegar lögspekingar hittast til að bera saman bækur sínar var meðferð opinberra mála í brennidepli. Sérstakur gestur vestfirsku lögmannanna að þessu sinni var Örn Clausen, hæstaréttarlögmaður, sem eins og margir vita var á árum áður þekktur frjálsíþróttamaður og án efa einn þeirra bestu sem við Íslendingar höfum átt. Það þótti mjög til bóta í réttarfari okkar þegar skilið var á milli ákæruvalds og dómsvalds. Af niðurstöðu fundar hinna vestfirsku lögfræðinga má þó ráða að þeim þykir sem efndir hafi ekki gengið eftir orðum hvað dómsvaldið snertir. Til að leggja áherslu á þörfina fyrir úrbætur í húsnæðismálum Héraðsdóms Vestfjarða var eftirfarandi áskorun send dómsmálaráðherra: ,,Fundur í Félagi lögfræðinga á Vestfjörðum, haldinn á Ísafirði föstudaginn 8. september 2000, skorar á dómsmálaráðherra að beita sér nú þegar fyrir því að Héraðsdómi Vestfjarða verði fundið húsnæði er fullnægir og hæfir starfsemi dómsins." Undir þessa áskorun er heilshugar tekið. Því, eins og greint var frá í BB í fyrri viku, er ,,hlálegt að sjá sakborninga, vitni og skikkjuklæddar persónur voma í traffíkinni á stigapalli út af plássleysi innan dyra meðan á réttarhöldum stendur" að ekki sé minnst á ótrúverðugleikann sem felst í því að eftir aðskilnað ákæruvalds og dómsvalds skuli dómurinn ,,vera í holu við hliðina á glæsilegum skrifstofum sýslumannsembættisins." Það er vissulega brýnt að Héraðsdómi Vestfjarða verði fundið viðunandi húsnæði og dómnum þar með búin sú aðstaða sem hann þarf á að halda til að geta sinnt hlutverki sínu með reisn."

Mikil og ánægjuleg breyting

OG ÞÁ vindur BB sínu kvæði kross og segir: "Mikil og ánægjuleg breyting hefur orðið á árangri nemenda í Grunnskóla Ísafjarðar frá því fyrir fimm árum þegar skólinn var langt undir landsmeðaltali á samræmdum prófum í 10. bekk. Frá þeim tíma hafa einkunnir nemenda risið jafnt og þétt og hafa nú skipað þeim í fremstu röð meðal jafningja. Þessi góði árangur, sem byggist á samvinnu skólastjóra, kennara, foreldra og nemenda er öllum, sem láta sér annt um að ísfirsk ungmenni njóti menntunar til jafns við það sem best gerist, fagnaðarefni."