[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÞAÐ VERÐUR æ undarlegra að hugsa til þess að Mark Knopfler hafi í eina tíð verið stórstjarna, staðið á sviði fyrir framan tugi þúsunda æstra aðdáenda, verið leiðtogi einnar vinsælustu rokksveitar heims.

ÞAÐ VERÐUR æ undarlegra að hugsa til þess að Mark Knopfler hafi í eina tíð verið stórstjarna, staðið á sviði fyrir framan tugi þúsunda æstra aðdáenda, verið leiðtogi einnar vinsælustu rokksveitar heims. Þessi yfirvegaði og hlédrægi gítarleikari, með ennisbandið sitt fræga og hálfgerðu Lukku Láka-söngva um flökkulíf og eyðimerkur, var einhvern veginn svo kindarlegur við hlið Prince, Bono og Madonnu, en þangað komst hann með því að venda sínu kvæði í kross og syngja um poppstöðina MTV. Hann var þó ekki lengi í þessum félagsskap og ég heyrði því fleygt að Dire Straits hefði loks lagt upp laupana í kyrrþey fyrir fimm árum, eftir eina misheppnaða tilraun til að fylgja hinni geysivinsælu Brothers in Arms frá 1985 eftir. Knopfler hefur síðan gefið út sólóplötuna Golden Heart og samið bærilega kvikmyndatónlist, stundum ágæta, nú síðast við myndirnar Metroland og Wag the Dog.

Sailing to Philadelphia markar að mínu mati tímamót á ferli þessa lúsiðna strengjaplokkara og lagasmiðs. Þetta er fáguð og ljúf plata sem einkennist af einhvers konar blús, rokki og kántrí, rámri röddu Knopflers og yfirveguðum gítarleik, ballöðum og sveiflu í bland. Píanói, fiðlum og blásturshljóðfærum bregður fyrir en hefðbundin hljóðfæraskipan er í aðalhlutverki. Þessi plata minnir meira á fyrstu plötur Dire Straits en Golden Heart gerði og er til allrar hamingju laus við hallærisorgelið sem sú plata hlaut í arf eftir hið sívinsæla og óþolandi lag "Walk of Life". Lögin og útsetningarnar minna á lög á borð við "Southbound Again" og "Water of Love", og eins og í þá gömlu góðu daga kalla textarnir fram í hugann mynd af eirðarlausum, síflakkandi, rámum og rómantískum einfara. Frásagnir af ferðum um Bandaríkin ganga eins og stef í gegnum plötuna og gefa henni kjölfestu.

Fyrsta lagið, "What It Is", er ósvikin Dire Straits-sveifla af bestu gerð, en gítarfléttan er í skoskum anda segir Knopfler enda lagið samið í Edinborg. Dylan-lagið "All Along The Watchtower" kemur upp í hugann og léttleikandi fiðluspil minnir á Corrs-systkinin vinsælu. Titillag plötunnar er að mínu mati ein fallegasta ballaða Knopflers; dúett með James Taylor og lagið ekki ósvipað einu þekktasta lagi Taylors, "Carolina in My Mind". Þeir syngja hlutverk Charles Masons og Jeremiah Dixons, landmælingamanna sem leystu eina sögufrægustu landamæradeilu Bandaríkjanna með því að varða Mason-Dixon línuna milli Maryland og Pennsylvaníu upp úr miðri átjándu öld. Knopfler færir sig smám saman nær samtímanum og lagið "Baloney Again" segir frá hópi svarta gospelsöngvara á tónleikaferð um suðurríki Bandaríkjanna á sjötta áratug. Það minnir talsvert á "It's Probably Me" sem Sting og Eric Claptons gerðu um árið, og ég get ekki betur heyrt en að Clapton leggi þarna sjálfur eins og eina ljóðlínu af mörkum, rétt áður en þrjár mínútur eru liðnar af laginu. "El Macho" er suður-amerískt og seiðandi - takturinn jafntöff og tangó en heitir víst tsja-tsja-tsja. Zorro hefði örugglega getað dansað við þetta og jafnvel Morgan Kane, hefði hann dansað. Knopfler segir lagið sprottið af spænsku málverki. Bandarísku slétturnar spretta fram ljóslifandi í "Praire Wedding" og "Speedway At Nazareth" brunar áfram eins og járnbrautarlest, æ ákafara, og þar er loksins lokinu lyft örlítið af kraumandi leikgleðinni á þessari annars prúðu og stilltu plötu. Hóflegur skammtur af hljóðgervlum og tölvuvinnslu gera "Junkie Doll" að nútímalegasta lagi plötunnar, enda viðfangsefnið fíkniefnaböl samtímans. Þetta er þó að stofni til klassískt, blúsað, grípandi rokklag sem á tvímælalaust tilkall til vinsælda en líklega litla möguleika.

Önnur lög eru síðri, en að mínu mati er aðeins eitt þeirra beinlínis lélegt. Það er sveitalegi sveitaballaslagarinn "Who's Your Baby Now", sem minnir mjög á hina íslensku GCD. "The Last Laugh" er þokkaleg ballaða sem þeir Knopfler og Van Morrison syngja saman og hefði sómt sér vel sem vangalag á útskriftardansleik í Bandaríkjunum á sjöunda ártugnum. Síðustu tvö lögin koma á óvart: Annað er í anda kvikmyndatónlistar og skartar píanóstefi í anda Derrick eða dönskukennslukonunnar Hildar; hitt er angurvært og barnslega einfalt söngleikjalag, versin minna á "Þar sem allt grær" úr Litlu hryllingsbúðinni og viðlagið á sjónvarpsþættina Staupastein.

Þetta er góð plata; alls ekki slök og næstum því frábær. Tvímælalaust sú besta sem Knopfler hefur sent frá sér í háa herrans tíð. Hún á eftir að falla í kramið hjá öllum aðdáendum Dire Straits og vafalaust líka hjá mörgum aðdáendum gamalla brýna á borð við Bob Dylan og Eric Clapton. Fyrir þá sem yngri eru mætti einna helst benda á skyldleika við Sheryl Crow. Það sem kemur mest á óvart er hve Knopfler fer sparlega með helsta hæfileika sinn, nefnilega gítarplokkið; eitt sóló í líkingu við það sem hann töfraði fram í "Sultans of Swing" hefði verið afskaplega vel þegið. Fyrir vikið er platan átakalítil og þótt leikgleðin skíni í gegn er hún beisluð og hruflar afar sjaldan yfirborðið. Hún hreyfir ekki nógu mikið við manni og þótt það sé í sjálfu sér fagnaðarefni að Knopfler sé hættur að tvista við sundlaugina mætti hann gjarnan dilla sér hressilegar í söðlinum.